Unglingar úr Snæfellsbæ á landsmót Þjóðkirkjunnar

Fjölmennasta landsmótið til þessa – safna fyrir fátæka á Íslandi

Landsmót æskulýðsfélaga þjóðkirkjunnar verður sett í Reykjanesbæ á morgun. Í ár verða 640 þátttakendur á landsmótinu, 500 þáttakendur ásamt á annað hundrað leiðtogum og sjálfboðaliðum. Þetta er fjölmennasta landsmótið sem hefur verið haldið til þessa. Að þessu sinni ætla unglingarnir í æskulýðsfélögunum að fræðast um fátækt og baráttuna gegn henni og safna fé til að styrkja Framtíðarsjóð Hjálparstarfs kirkjunnar.

19 unglingar, ásamt 3 leiðtogum, fara úr æskulýðsfélagi kirkjunnar okkar í Snæfellsbæ.

Unglingar af öllu landinu

Unglingar úr æskulýðsstarfi kirkjunnar um allt land leggja land undir fót á morgun. Sum ferðast um langan veg til að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá á landsmóti, til dæmis kemur stór hópur frá íslenska söfnuðinum í Noregi. Mikil stemning hefur verið meðal unglinganna í aðdraganda mótsins og hún nær hámarki á morgun.

Mótið verður sett með viðhöfn á föstudagskvöldi. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, setur mótið að þessu sinni. Hljómsveitin Tilviljun? leikur og syngur við setninguna og á mótinu öllu.

Fræðast um og vinna gegn fátækt

Á laugardeginum verður fræðsla um fátækt á Íslandi og ráðin sem við höfum til bregðast við henni. Í framhaldi af því taka unglingarnir þátt í hópastarfi sem nær hámarki í karnivali í íþróttahúsi Keflavíkur.

 

Öllum íbúum Reykjanesbæjar er boðið að koma í karnival milli 14:00 og 15:30 á laugardagseftirmiðdegi. Þar gefst kostur á að kaupa veitingar og vörur sem krakkarnir hafa búið til, hlusta á skemmtilega tónlist og taka þátt í margs konar uppákomum. Allur ágóði af karnivalinu rennur óskiptur til Framtíðarsjóðs Hjálparstarf kirkjunnar.

Í framhaldi af karnivalinu fer fram árleg hæfileikakeppni æskulýðsfélaganna. Landsmótinu verður slitið með messu í safnaðarheimili Keflavíkurkirku kl. 11 á sunnudaginn.

28.000 Íslendingar búa við fátækt

Síðastliðin fjögur ár hefur ÆSKÞ átt gott og farsælt samstarf við Hjálparstarf kirkjunnar. Unglingarnir sem taka þátt í landsmótunum hafa safnað peningum til að frelsa þrælabörn úr skuldaánauð, byggja skóla- og handavinnustofur í Japan og grafa brunna í Malaví.

Í ár horfa þau til Íslands. Um 8.5% þjóðarinnar lifa undir lágtekjumörkum sem þýðir að 28.000 Íslendingar búa við fátækt. Langvarandi fátækt rænir fólk heilsu og reisn til lengri tíma. Unglingarnir ætla að leita leiða til að horfa á það sem við getum gert til að bæta ástandið. Peningar sem þau safna á mótinu munu renna í Framtíðarsjóð Hjálparstarfs kirkjunnar.

Framtíðarsjóður Hjálparstarfs kirkjunnar styður ungmenni á aldrinum 16-20 ára til stúdentsprófs, sveinsprófs eða annars sem leiðir til starfsréttinda eða opnar leið til háskólanáms. Sjóðurinn tryggir að nemandi fái aðstoð við að greiða námsgögn, skólagjöld, kaupa tölvu eða greiða annað sem gæti orðið efnaminni nemendum hindrun í að ljúka námi. Menntun eykur líkur á öruggri framfærslu og farsælu lífshlaupi.

Energí og trú

Yfirskrift landsmótsins er að þessu sinni sótt í verkefni sem Keflavíkurkirkja hefur staðið að frá árinu 2011. Það miðar að því að efla og hvetja ungt fólk á Suðurnesjum til sjálfstæðis og athafna með fjölbreyttum námskeiðum og stuðningi.

 

Þessi frétt er af kirkjan.is og er bætt við upplýsingum um þátttöku héðan.