Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 21 mín 15 sek síðan

Jólabingó Kvenfélagsins 19. júní verður á föstudaginn

Miðv.d., 27/11/2019 - 08:01

Hið árlega jólabingó Kvenfélagsins 19. júní fer fram í sal Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri föstudaginn 29. nóvember kl. 20:00. Þessi viðburður hefur verið haldinn árlega í um 50 ár en Kvenfélagið 19. júní er nú fjölmennasta kvenfélag Borgarfjarðar þar sem tæplega 60 konur á öllum aldri eru félagar.

Í ár verður bingóið afar glæsilegt en fjölmargir góðir vinningar hafa borist kvenfélagskonum og vilja þær færa öllum sem hönd hafa lagt á plóg kærar þakkir fyrir. Meðal vinninga verða t.d. hótelgistingar, gjafabréf í ýmsa afþreyingu, vöruúttektir, snyrtivörur, leikföng, bækur, jólavörur og ýmislegt fleira.

Allur ágóði af bingóinu í ár mun renna til kaupa á nýju sjúkrarúmi fyrir Heilbrigðisstofnun Vesturlands en hvert rúm kostar um 500.000 krónur. Kvenfélagið 19. júní hefur nú þegar gefið eitt rúm og vonast kvenfélagskonur til að geta gefið annað að bingói loknu. Hollvinasamtök HVE hafa staðið fyrir söfnun vegna nýrra rúma nú í haust en ný rúm munu auka þægindi þeirra sem þurfa á þjónustu sjúkrahússins að halda og sömuleiðis auðvelda starfsfólki verkin.

Ágóðinn af jólabingóinu 2018 fór upp í kaup á Nustep fjölþjálfa sem gefinn var til dvalar- og hjúkrunarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi. Kvenfélagið gaf samskonar tæki í sjúkraþjálfunarmiðstöð Halldóru í Borgarnesi árið 2017 og hefur það reynst vel. Fjölþjálfinn gagnast afar fjölbreyttum hópi, m.a. fólki sem er lamað fyrir neðan mitti, í annarri hliðinni eða glímir við annars konar skort á hreyfifærni vegna erfðasjúkdóma, veikinda, aldurs eða slysa. Tækin hafa því verið kærkomin viðbót inn á Brákarhlíð og sjúkraþjálfunarmiðstöðina.

Í hléi á bingóinu verður hægt að kaupa veitingar að hætti kvenfélagskvenna, kaffi, sælgæti og drykkjarföng. Að þessu sinni verður hefðin brotin þar sem gestir munu hafa möguleika á að greiða fyrir bingóspjöld eða veitingar með greiðslukortum.

Kvenfélagið hefur alla tíð notið mikillar velvildar í héraðinu og hlakka kvenfélagskonur til að taka á móti gestum þetta kvöld sem þannig leggja sitt af mörkum til góðgerðarmála á svæðinu.

-fréttatilkynning

 

Anna María er nýr útibússtjóri Verkís á Vesturlandi

Miðv.d., 27/11/2019 - 06:01

Anna María Þráinsdóttir byggingaverkfræðingur tók við sem útibússtjóri Verkís á Vesturlandi 1. nóvember síðastliðinn. Anna María tekur við starfinu af Gísla Karel Halldórssyni, sem verður sjötugur á næsta ári og er farinn að minnka við sig, en er þó hvergi nærri hættur, að sögn Önnu.

Starfsemi Verkís á Vesturlandi nær til landshlutans alls og lýtur einkum að eftirliti með byggingaframkvæmdum, hvers kyns hönnun og annarri almennri verkfræðiráðgjöf. Sex fastir starfsmenn Verkís starfa í landshlutanum; þrír á Akranesi og þrír í Borgarnesi. Útibúið er þannig í reynd starfrækt á tveimur stöðum. „Við erum staðsett bæði á Akranesi og í Borgarnesi og þannig verður það áfram. Slíkt mun ekki breytast með tilkomu nýs útibússtjóra,“ segir Anna María í samtali við Skessuhorn. „Frekar horfum við til þess að geta með tíð og tíma fjölgað fólki og erum opin fyrir því að opna aftur skrifstofu á Snæfellsnesi, eins og við vorum með í Stykkishólmi, ef sá möguleiki verður fyrir hendi,“ bætir hún við.

Sjá nánar í Skessuhorni sem kom út í dag.

Sölvi ráðinn þjálfari Skallagríms

Þri, 26/11/2019 - 15:54

Borgnesingurinn Sölvi G. Gylfason hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks Skallagríms í knattspyrnu fyrir komandi keppnistímabil. Sölvi, sem er þrjátíu og eins árs, verður spilandi þjálfari en miðað er við að ráða einnig aðstoðarþjálfara fyrir liðið.

Sölvi og Viktor Már Jónasson tóku við þjálfun meistaraflokks Skallagríms á miðju síðasta tímabili. Þótt þeim tækist ekki að forða liðinu frá falli í 4. deild þá stóðu þeir sig afar vel, að mati stjórnar Knattspyrnudeildar, og því var leitað eftir starfskröftum þeirra áfram. Niðurstaðan varð sú að Sölvi verður aðalþjálfari meistaraflokks, sem fyrr segir.

Sölvi hefur leikið stórt hlutverk í liði Skallagríms þrátt fyrir að hafa þurft að glíma við erfið meiðsli. Hann hefur leikið 108 meistaraflokksleiki fyrir Skallagrím en að auki 31 fyrir BÍ/Bolungarvík og 18 fyrir ÍA.

Það er markmið nýs þjálfara, sem og stjórnar Knattspyrnudeildar Skallagríms, að byggja á öflugum kjarna af heimamönnum og nú þegar eru nokkrir, sem hafa ekki mikið verið í boltanum síðustu misseri, komnir á fulla ferð á nýjan leik. Síðustu sumur hefur Skallagrímur átt gott samstarf við ÍA og vonumst við til að svo verði áfram en þaðan höfum við fengið góðan liðstyrki.

„Stjórn Knattspyrnudeildar Skallagríms fagnar ráðningu Sölva og hlakkar til samstarfs við hann á komandi keppnistímabili en æfingar meistaraflokks, undir hans stjórn, hefjast 1. desember,“ segir í tilkynningu frá stjórninni.

Eftirlit með rjúpnaskyttum

Þri, 26/11/2019 - 14:20

Lögreglan á Vesturlandi fór með Landhelgisgæslu Íslands í rjúpnaveiðieftirlit á laugardaginn. Flogið var með þyrlu gæslunnar yfir Hraundal og nærliggjandi dali, Langavatnsdal auk friðlandsins í Geitlandi. Sást til veiðimanna, en ekki í friðlandinu. Tveir kyrrstæðir bílar voru við friðlandið en þar sást ekki til veiðimanna. Annars staðar sáust fleiri bifreiðar, en á svæðum þar sem veiði er heimil. Veiðimenn sem voru á ferð á svæðinu sem lögregla fór um kváðust lítið hafa séð af rjúpu.

Kæra sandtöku í Akrafjöru

Þri, 26/11/2019 - 13:53

Fulltrúar landeigenda á Ökrum á Mýrum hafa kært til lögreglu það sem þeir telja ólögmæta sandtöku í Akrafjöru og án leyfis hlutaðeigandi. Á meðfylgjandi myndum sést hvar búið er að taka talsvert magn af sandi næst landi. Sandtaka þessi fór meðal annars fram síðastliðinn sunnudag. Hefur verið óskað eftir því að lögregla rannsaki málið.

Logi og Heiðar sigurvegarar BB

Þri, 26/11/2019 - 11:01

Aðaltvímenningi Bridgefélags Borgarfjarðar lauk síðastliðið mánudagskvöld. Heiðar Árni Baldursson og Logi Sigurðsson leiddu mótið allan tímann og luku keppni með 62,6% skori. Anna Heiða Baldursdóttir og Ingimundur Jónsson komu næst þeim með 59,3% skor og þriðju urðu Rúnar Ragnarsson og Guðjón Karlsson með 56,4%. Við verðlaunaafhendingu kom fram að Baldur í Múlakoti ætti að fá sérstök uppeldisverðlaun enda á hann börn í tveimur efstu sætum á mótinu. Sjálfur lét hann níunda sæti duga ásamt Jóni makker sínum.

Næstu þrjú mánudagskvöld verða leiknir stakir tvímenningar en föstudaginn 13. desember verður jólasveinatvímenningur félagsins haldinn. Þá verður að vanda dregið saman í pör og andinn léttur sem ávalt.

Bílvelta í Hvalfirði í gær

Þri, 26/11/2019 - 10:55

Bílvelta varð í Hvalfirði til móts við Lambhaga kl. 16:30 í gær. Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hálku með þeim afleiðingum að hann fór út af veginum þar sem hann valt og endaði ofan í skurði.

Ökumaðurinn sat í bílnum þegar lögregla kom á vettvang og kenndi sér eymsla eftir veltuna. Hann var fluttur með sjúkrabíl á Akranes til læknisskoðunar, en reyndist aðeins hafa hlotið minniháttar meiðsli af.

Bifreiðin er óökuhæf og var fjarlægð með dráttarbíl af vettvangi.

Ill meðferð á páfagaukum

Þri, 26/11/2019 - 10:34

Matvælastofnun hefur tekið páfagauk af eiganda á Norðurlandi vegna vanrækslu. Við eftirlit fundust tveir mjög horaðir fuglar í búri, þar af annar dauður. Ástand fuglanna mátti rekja til vanfóðrunar og vatnsleysis og var vörslusvipting framkvæmd tafarlaust, segir í tilkynningu frá Matvælastofnun. „Bannað er að beita gæludýr illri meðferð og er ekki heimilt að skilja búrfugla eftir lengur án eftirlits en í einn sólarhring. Gæta skal þess að gæludýr sé í eðlilegum holdum og dauð dýr skal tafarlaust fjarlægð frá lifandi dýrum. Verið er að leita að nýju heimili fyrir páfagaukinn og er málið áfram til meðferðar hjá Matvælastofnun.“ -mm

Vinnustofa til að móta aðgerðaáætlun og stefnumótun í ferðaþjónustu

Þri, 26/11/2019 - 10:01

Hafin er vinna við aðgerðabundna stefnumótun fyrir ferðaþjónustu á Íslandi til ársins 2025. Verkefnið er sameiginlegt verkefni Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Sambands sveitarfélaga, Samtaka ferðaþjónustunnar og Stjórnstöðvar ferðamála. Boðað hefur verið til opinna vinnustofa í tengslum við stefnumótunina og verða slíkar vinnustofur haldnar í öllum landshlutum. Hér á Vesturlandi fer ein slík fram fimmtudaginn 28. nóvember frá klukkan 13-16 á Hótel B-59 í Borgarnesi. „Vinnustofan er opin öllum, og er mikilvægt að fá að borðinu alla hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni; grasrót, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Á vinnustofunni verða ræddar sviðsmyndir um þróun ferðaþjónustunnar til næstu ára og þær leiðir sem er mikilvægt að fara til að ná framtíðarsýn og leiðarljósi ferðaþjónustunnar um að vera leiðandi í sjálfbærni,“ segir í tilkynningu. Vinnustofan er um þrjár klukkustundir. Unnið er í hópum að mismunandi meginmálefnum sem varða ávinning heimamanna, upplifun ferðamanna, verðmæta markaði, álagsstýringu og gæði áfangastaða, arðsemi og nýsköpum og loftslagsmál og orkuskipti.

Síðastliðinn föstudag stóðu Ferðamálastofa og KPMG fyrir fundi þar sem kynntar voru niðurstöður nýrrar skýrslu um afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu á árinu 2018, með samanburði við fyrri ár. Í skýrslunni kom meðal annars fram að gengi krónunnar lækkaði á árinu 2018, sem hefði að óbreyttu átt að leiða til betri afkomu, en kostnaðarhækkanir unnu á móti tekjuaukanum sem skapaðist vegna lækkunarinnar. Betri afkoma var af rekstri hótela í Reykjavík en úti á landi sem versnar eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu. Það styður þá ályktun að ferðamenn fari minna út á land en áður. Afkoma bílaleiga og hópbílafyrirtækja versnaði milli 2017 og 2018 og var afkoma bílaleiga að meðaltali við núllið en tap hjá hópbílafyrirtækjum. Afkoma ferðaskrifstofa batnaði milli ára þrátt fyrir óbreyttar tekjur vegna lægri kostnaðar og var hagnaður að meðaltali bæði árin. Afkoma afþreyingarfyrirtækja stóð nánast í stað milli áranna 2017-2018 í krónum talið þrátt fyrir hækkun tekna. Almennt var hagnaður af rekstri þeirra bæði árin.

Vilja að veirusýktum eldislaxi verði fargað

Þri, 26/11/2019 - 09:35

Stjórn Landssambands veiðifélaga hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún harmar að IPN veirusýking hafi komið upp í norskum eldislaxi í eldiskvíum Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði. „Slík veirusýking hefur aldrei greinst í laxi á Íslandi enda er villti laxastofninn við Ísland með þeim heilbrigðustu í heimi. IPN veira veldur alvarlegum sýkingum í laxfiskum. Ljóst er að alltaf sleppur einhver fiskur úr opnum sjókvíum auk þess sem villtir laxfiskar eru alltaf í nágrenni eldisins í einhverjum mæli. Mikil hætta er þá á því að veiran berist í villta laxa- og silungastofna. Það voru stjórn Landssambands veiðifélaga mikil vonbrigði að sjá viðbrögð Matvælastofnunar sem gerir lítið úr þessari sýkingu í tilkynningu sinni,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Landssambandið minnir á að það hefur ítrekað mótmælt notkun á innfluttum brunnbátum sem notaðir hafa verið við seiðaflutninga í sjókvíar hér við land. „Landssamband veiðifélaga hefur oft bent á að slíkir bátar hafi dreift smiti í norsku fiskeldi. Í ljósi þess er það óskiljanlegt að innflutningur á þessum tækjum hafi verið heimilaður af Matvælastofnun. Landssamband veiðifélaga krefst þess að rannsakað verði hvaðan umrædd sýking barst og að öllum innflutningi á notuðum búnaði verði umsvifalaust hætt. Stjórnin krefst þess að umræddum laxi verði þegar í stað fargað og eytt í viðurkenndri eyðingarstöð. Verði það ekki niðurstaða Matvælastofnunar skorar LV á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hlutast til um málið þannig að heilbrigði villtra laxastofna við Ísland verði varið og tryggt.“

Bætti fimmtán ára gamalt Akranesmet í sundi

Þri, 26/11/2019 - 08:59

Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir bætti 15 ára gamalt Akranesmet á Haustmóti Fjölnis í sundi sem fram fór á laugardaginn í Laugardalnum. Þangað fór 21 sundmaður frá Sundfélagi Akraness. Mótið var fyrir sundmenn 14 ára og yngri og var gríðarlega stór hópur sem tók þátt þetta árið, 375 sundmenn frá 16 félögum um land allt.

Að venju stóðu krakkarnir frá Sundfélagi Akraness sig vel, sýndu miklar framfarir og stemningin í hópnum var góð. Samtals voru 78 bætingar hjá þeim. Guðbjörg Bjartey keppti í telpna flokki 13-14 ára í 50 metra flugsundi og synti á tímanum 30,38. Gamla metið var 31,12 sem Aþena Ragna Júliusdóttir átti frá 2004. Guðbjörg Bjartey synti í fjórum greinum og sigraði í þeim öllum.

Í 4×50 skriðsundsboðsundi unnu Skagastelpurnar gull á tímanum 2,06:48, með Ingibjörgu Svövu Magnusardóttur, Kareni Káradóttur, Auði Maríu Lárusdóttur og Guðbjörgu Bjartey Guðmundsdóttur.

Strákarnir urðu í fjórða sæti með þeim Guðbjarna Sigþórssyni, Adam Agnarssyni, Bjarna Snæ Skarphéðinssyni og Víkingi Geirdal Birnusyni. Ingibjörg Svava Magnúsardóttir vann þrjú silfur og eitt brons og Guðbjarni Sigþórsson vann eitt silfur og fjögur brons. Loks vann Karen Káradóttir ein bronsverðlaun.

Uppskriftir eftirstríðsáranna komnar út á bók

Þri, 26/11/2019 - 08:01

Espólín bókaforlag hefur gefið út bókina Uppskriftir eftirstríðsáranna – matur úr íslenskum eldhúsum eftir stríð. Þar er á ferðinni öðruvísi matreiðslubók með aðkomu fjögurra kvenna. „Með henni er haldið á lofti merki þeirra sem löngum komu við sögu þar sem matur var gerður. Matargerð hefur breyst í aldanna rás og mun áfram taka breytingum. En sagan má aldrei gleymast,“ segir í tilkynningu frá höfundi. Í bókinn eru 50 uppskriftir upp úr matreiðslubókum systranna Sigurlaugar og Guðbjargar Sveinsdætra frá Tjörn á Skaga sem stunduðu báðar nám við Kvennaskólann á Blönduósi á stríðsárunum. Sigurlaug Björnsdóttir frá Kornsá var matreiðslukennari og Sólveig Sövik skólastýra.

„Það er býsna langur vegur frá eldhúsi Kvennaskólans á Blönduósi á tímum síðara heimsstríðs til nútímaveitingahúss. Samt er einhver samhljómur, einn og sami strengurinn gengur gegnum allt ferlið. Uppskriftunum frá Blönduósi er fylgt úr hlaði af höfundum með textum dagsins. Textar, m.a. um það sem efst er á baugi í samtímanum eða hjá höfundum, rifjaðir upp þættir úr sögu kvennafræðslu og saga réttanna. Uppskriftirnar urðu kveikjan að samtali milli höfunda við leit að formi nýrrar matreiðslubókar sem nú lítur dagsins ljós.“

Jólabingó Kvenfélagsins 19. júní verður á föstudaginn

Þri, 26/11/2019 - 06:01

Hið árlega jólabingó Kvenfélagsins 19. júní fer fram í sal Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri föstudaginn 29. nóvember kl. 20:00. Þessi viðburður hefur verið haldinn árlega í um 50 ár en Kvenfélagið 19. júní er nú fjölmennasta kvenfélag Borgarfjarðar þar sem tæplega 60 konur á öllum aldri eru félagar.

Í ár verður bingóið afar glæsilegt en fjölmargir góðir vinningar hafa borist kvenfélagskonum og vilja þær færa öllum sem hönd hafa lagt á plóg kærar þakkir fyrir. Meðal vinninga verða t.d. hótelgistingar, gjafabréf í ýmsa afþreyingu, vöruúttektir, snyrtivörur, leikföng, bækur, jólavörur og ýmislegt fleira.

Allur ágóði af bingóinu í ár mun renna til kaupa á nýju sjúkrarúmi fyrir Heilbrigðisstofnun Vesturlands en hvert rúm kostar um 500.000 krónur. Kvenfélagið 19. júní hefur nú þegar gefið eitt rúm og vonast kvenfélagskonur til að geta gefið annað að bingói loknu. Hollvinasamtök HVE hafa staðið fyrir söfnun vegna nýrra rúma nú í haust en ný rúm munu auka þægindi þeirra sem þurfa á þjónustu sjúkrahússins að halda og sömuleiðis auðvelda starfsfólki verkin.

Ágóðinn af jólabingóinu 2018 fór upp í kaup á Nustep fjölþjálfa sem gefinn var til dvalar- og hjúkrunarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi. Kvenfélagið gaf samskonar tæki í sjúkraþjálfunarmiðstöð Halldóru í Borgarnesi árið 2017 og hefur það reynst vel. Fjölþjálfinn gagnast afar fjölbreyttum hópi, m.a. fólki sem er lamað fyrir neðan mitti, í annarri hliðinni eða glímir við annars konar skort á hreyfifærni vegna erfðasjúkdóma, veikinda, aldurs eða slysa. Tækin hafa því verið kærkomin viðbót inn á Brákarhlíð og sjúkraþjálfunarmiðstöðina.

Í hléi á bingóinu verður hægt að kaupa veitingar að hætti kvenfélagskvenna, kaffi, sælgæti og drykkjarföng. Að þessu sinni verður hefðin brotin þar sem gestir munu hafa möguleika á að greiða fyrir bingóspjöld eða veitingar með greiðslukortum.

Kvenfélagið hefur alla tíð notið mikillar velvildar í héraðinu og hlakka kvenfélagskonur til að taka á móti gestum þetta kvöld sem þannig leggja sitt af mörkum til góðgerðarmála á svæðinu.

-fréttatilkynning

Íslandsmeistaramótinu í grjótglímu lokið

mánud., 25/11/2019 - 17:00

Íslandsmeistaramótaröðinni í grjótglímu lauk um helgina með flottu móti sem haldið var í Klifurhúsinu í Reykjavík. ÍA mætti með sjö sterka klifrara til móts og þeim fylgdi stór hópur áhorfenda og áhangenda. Mótið var fjórða og síðasta mótið í keppninni um Íslandsmeistartitilinn og spennan því í hámarki þegar mótið hófst. Keppendur klifruðu tuttugu leiðir, sem leiðasmiðir Klifurhússins og ÍA höfðu sett upp, og höfðu til þess tvo klukkutíma.

Í C-flokki stúlkna hafnaði Sylvía Þórðardóttir í þriðja sæti en heildarstigafjöldi hennar eftir fjögur mót dugði henni í 1.-2. sæti í mótaröðinni og því þurfti bráðabana til að skera úr um Íslandsmeistaratitilinn. Í bráðabana klifraði Sylvía á móti Ásthildi Elfu úr Hafnarfirði, en þær stöllur hafa verið nokkurn veginn hnífjafnar á mótum ársins. Í bráðabana sigrar sá klifrari sem klifrar lengra í bráðabanaleið á fjórum mínútum og eftir tvær leiðir voru þær stöllur hnífjafnar og spennan því gríðarleg fyrir þriðju leið. Ásthildur byrjaði og klifraði vel og uppskar 8+ stig eftir leiðina, sem innhélt erfiðar jafnvægishreyfingar á litlum tökum og stórt stökk upp í erfitt tak. Sylvía klifraði vel, náði byrjuninni og stökkinu en vantaði herslumuninn til að ná lengra og endaði því með 7 stig og vel verðskulduð silfurverðlaun fyrir ÍA.

Aðrir klifrarar í C- og B flokki náðu ekki á verðlaunapall að þessu sinni en þeir Rúnar Sigurðsson, Sverrir Elí Guðnason og Ellert Kári Samúelsson röðuðu sér í 4.-6. sæti í C-flokki drengja og Tinna Rós Halldórsdóttir í það sjötta í stúlknaflokki.

Í fullorðinsflokki klifraði Brimrún Eir Óðinsdóttir. Hún lauk níu af tuttugu leiðum mótsins og landaði verðskuldað bronsverðlaunum að lokinni Íslandsmeistarmótaröðinni.

Í allt prýðilegasti árangur hjá ÍA. Nú fá klifrarar verðskuldað frí frá keppnum fram yfir áramót.

Veggeiningar að nýjum leikskóla risnar

mánud., 25/11/2019 - 12:01

Ágætur gangur hefur í haust verið í byggingaframkvæmdum á Kleppjárnsreykjum, en framkvæmdir hófust í lok sumars. Í húsinu verður leikskólinn Hnoðraból með starfsemi sína en auk þess verða þar skrifstofur fyrir starfsfólk leikskólans og grunnskólans auk kennslurýmis. Byggingin er 530 fermetrar að flatarmáli á einni hæð. Búið er að reisa forsteyptar einingar frá Steypustöðinni – Loftorku og næsti verkþáttur er að koma húsinu undir þak. Eftir það verður gólfsteypa og frágangur innanhúss. Í verksamningi við Eirík J Ingólfsson ehf. kemur fram að byggingin á að vera tilbúin til notkunar fyrir upphaf skólaárs haustið 2020.

Skagakaffi komið á söluskrá

mánud., 25/11/2019 - 11:01

Kaffihúsið og veitingastaðurinn Skagakaffi er nú komið á söluskrá hjá fyrirtækjasölunni Kompaníi og er auglýst eftir tilboðum í reksturinn. Í húsinu hafa á liðnum árum verið rekin kaffihús með nöfnunum Skökkin, síðar Lesbókin og nú Skagakaffi. Alls hafa fjórir rekstraraðilar komið að rekstri í húsinu á jafn mörgum árum. Katrín Guðjónsdóttir og Marius Ciprian Marinescu festu kaup á kaffihúsinu síðastliðið sumar og opnuðu þar kaffihúsið Skagakaffi 1. ágúst síðastliðinn. Þau hafa verið að bjóða upp á léttar veitingar, kaffi og meðlæti auk þess sem bjór er seldur af krana.

„Staðurinn er með rekstrarleyfi sem heimilar opnun til kl. 23 á kvöldin. Nýr leigusamningur til 5 ára,“ segir í sölulýsingunni. Þá kemur fram að veltan er um 2,5 milljónir á mánuði. „Eigendur hafa nýverið fjárfest umtalsvert í tækjum og búnaði. Strax og án nokkurs tilkostnaðar eru miklir möguleikar fyrir nýja eigendur að auka veltuna til muna með lengri opnunartíma. Hægt að vera með íþróttaleiki á kvöldin og um helgar.“

Snæfell tapaði gegn Blikum

mánud., 25/11/2019 - 09:46

Snæfellskonur töpuðu naumlega gegn Breiðabliki, 73-68, þegar liðin mættust í spennandi leik í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik. Leikið var í Kópavogi á laugardaginn.

Jafnt var á með liðunum í upphafi leiks, en Snæfell náði síðan góðri rispu og sex stiga forystu um miðjan fyrsta leikhluta. Blikar svöruðu fyrir sig og komust yfir, en Snæfellskonur áttu lokaorðið í upphafsleikhlutanum og leiddu með einu stigi að honum loknum, 20-21. Leikurinn var í járnum og liðin skiptust á að leiða þar til seint í fyrri hálfleik. Breiðablik kláraði annan leikhluta af krafti og leiddi með fjórum stigum í hléinu, 33-29.

Heimaliðið hélt síðan forystunni allan þriðja leikhlutann, en Snæfellskonur voru þó aldrei langt undan. Fimm stigum munaði fyrir lokafjórðunginn, 57-52 og leikurinn galopinn. Snæfellskonur komu mjög ákveðnar til fjórða leikhluta og voru ekki lengi að gera forskot Breiðabliks að engu. En Blikar náðu yfirhöndinni á nýjan leik. Góður kafli skilaði þeim átta stiga forystu þegar þrjár mínútur lifðu leiks. Snæfellskonur minnkuðu muninn í þrjú stig en nær komust þær ekki. Leiknum lauk því með fimm stiga sigri Breiðabliks, 73-68.

Gunnhildur Gunnarsdóttir var stigahæst í liði Skallagríms með 30 stig og tók hún fimm fráköst að auki. Veera Pirttinen skoraði 17 stig og tók sjö fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir var með átta stig og sjö fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði sjö stig, Tinna Guðrún Alexandersdóttir var með fjögur stig og Emese Vida skoraði tvö stig og tók tíu fráköst.

Danni Williams var atkvæðamest í liði Breiðabliks með 36 stig og 13 fráköst og Paula Tarnachowicz skoraði tíu stig og tók sjö fráköst.

Snæfell situr í sjötta sæti deildarinnar með fjögur stig, jafn mörg og Breiðablik sem er í sætinu fyrir neðan en fjórum stigum á eftir Haukum í sætinu fyrir ofan. Næsti leikur Snæfells er miðvikudaginn 27. nóvember, þegar liðið mætir Íslandsmeisturum Vals í Stykkishólmi.

Stórsigur Skallagrímskvenna

mánud., 25/11/2019 - 09:23

Skallagrímskonur völtuðu yfir Hauka, 55-83, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik. Leikið var í Hafnarfirði á föstudagskvöld.

Skallagrímskonur voru mjög öflugar í upphafsfjórðungnum, komust í 3-20 og leiddu með 17 stigum eftir fyrsta leikhluta, 5-22. Það var þessi góða byrjun Borgnesinga sem lagði grunn að öruggum sigri liðsins. Í öðrum leikhluta héldu Skallagrímskonur uppteknum hætti, skoruðu 19 stig gegn 13 og leiddu 18-41 í hálfleik.

Skallagrímskonur slógu ekkert af eftir hléið. Þær léku vel í þriðja leikhluta, skoruðu 28 stig gegn 19 stigum Hauka og höfðu 32 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn. Haukar náðu aðeins að laga stöðuna í lokafjórðungnum, minnkuðu forystu Skallagríms um fimm stig áður en lokaflautan gall. Leiknum lauk með stórsigri Skallagríms, 55-83.

Emilie Sofie Hesseldal átti stórleik fyrir Skallagrím. Hún skoraði 23 stig, tók 14 fráköst og stal fimm boltum. Keira Robinson setti upp þrennu með 14 stig, ellefu stoðsendingar og tíu fráköst og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með 13 stig, tólf fráköst og sex stoðsendingar. Árnína Lena Rúnarsdóttir og Clara Colding-Poulsen skoruðu sjö stig hvor, Gunnhildur Lind Hansdóttir og Maja Michalska skoruðu fjögur stig hvor og Arna Hrönn Ámundadóttir skoraði tvö stig.

Jannetje Guijt skoraði 14 stig fyrir Hauka og Rósa Björk Pétursdóttir var með tólf stig og tíu fráköst en aðrar höfðu minna.

Eftir leiki helgarinnar eru Skallagrímskonur komnar upp í þriðja sæti deildarinnar með tíu stig, jafn mörg og Keflavík í sætinu fyrir neðan en tveimur stigum á eftir KR. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Grindavík á miðvikudaginn, 27. nóvember.

Roðagylla heiminn í sextán daga átaki gegn ofbeldi á konum

mánud., 25/11/2019 - 09:01

Í dag, mánudaginn 25. nóvember, er dagurinn sem Sameinuðu þjóðirnar hafa valið til að varpa ljósi á að ofbeldi gegn konum er alþjóðlegt vandamál sem kemur upp í öllum samfélögum og menningarheimum. Ofbeldi gegn konum er aldrei einkamál heldur samfélagslegt vandamál sem hefur áhrif á milljónir kvenna.

Frá 25. nóvember til 10. desember vekja Soroptimistar á Íslandi athygli á vitundarvakningu um kynbundið ofbeldi gegn konum. Þetta 16 daga átak vekur athygli á málunum með myllumerkinu #rodagyllumheiminn – #orangetheworld. „Vitundarvakningin nær til alls landsins, Evrópu og heimsins enda ekki vanþörf á ef litið er til þess að yfir 35% allra kvenna í heiminum mun upplifa ofbeldi á lífsleiðinni.  Á sumum svæðum allt að sjö af hverjum tíu konum. Meira en 600 milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki bannað og allt að 50% alls kynferðisofbeldis á sér stað gagnvart stúlkum undir 16 ára aldri. Þá eru 250 milljónir kvenna víðsvegar um heiminn giftar áður en þær verða 15 ára og 200 milljónir kvenna í dag hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi,“ segir í tilkynningu.

Soroptimistar um allan heim leggja lóð á vogarskálina til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi, helst með því að fræða konur um alvarleika og birtingarmyndir kynbundins ofbeldis en einnig að vekja samfélög til meðvitundar um þetta vandamál með því að roðagylla heiminn, #orangetheworld. Soroptimistar á Íslandi eru um 600 talsins, konur um allt land í 19 klúbbum og eru a.m.k.14 þeirra með einhverskonar vakningu þessa daga sem átakið stendur yfir.

Blásið er til viðburða víða á landinu í dag, 25. nóvember, sem leiddir eru af Soroptimistum. Ljósagöngur farnar víða, kirkjur og byggingar lýstar upp í roðagylltum lit, fyrirlestrar og samkomur ýmisskonar. Allt til þess að auka vitneskju fólks um allskonar birtingamyndir kynbundins ofbeldis gegn konum og stúlkum.

Hægt er að sjá verkefni ólíkra klúbba á landinu á heimasíðunni: www.soroptimist.is

Þorsteinsmótið var spilað á laugardaginn

mánud., 25/11/2019 - 08:01

Síðastliðinn laugardag var Þorsteinsmótið í tvímenningi í bridds haldið í Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum, fyrrum vinnustað kennarans Þorsteins Péturssonar frá Hömrum sem mótið er til minningar um. Metþátttaka var að þessu sinni, en alls voru 42 pör sem tóku þátt. Mótið er silfurstigamót líkt og fyrri ár. Öflugir briddsspilarar mættu og öttu kappi við heimamenn og aðra, en mót þetta er með sterkustu briddsmótum sem haldin eru utan höfuðborgarsvæðisins ár hvert.

Úrslit urðu þau að sunnanmennirnir Gunnlaugur Karlsson og Kjartan Ingvarsson sigruðu með 59,6% skori. Í öðru sæti voru heimamenn í Bridgefélagi Borgarfjarðar, þeir Eyjólfur Kristinn Örnólfsson og Lárus Pétursson með 57,4% skor. Í þriðja sæti urðu Vigfús Vigfússon og Jóhanna Gísladóttir sömuleiðis með 57,4% skori en stigi minna í farteskinu. Úrslit í heild sinni má finna á bridge.is. Auk peningaverðlauna fyrir þrjú efstu sætin á mótinu, voru útdráttarverðlaun sem fyrirtæki í heimabyggð og fleiri gáfu vinninga í. Kvenfélag Reykdæla sá svo um kaffiveitingar og voru spilarar sem blaðamaður ræddi við á einu máli um að margrómað hlaðborð kvenfélagskvenna ætti sinn þátt í góðri mætinu á þetta mót.

Sigurvegarar í mótinu: F.v. Gunnlaugur Karlsson og Kjartan Ingvarsson hampa hér veglegum farandbikar, en að auki fengu þeir peningaverðlaun. Ljósm. ág.

Síður