Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 20 mín 25 sek síðan

Strákarnir úr leik í Unglingadeildinni

Fim, 28/11/2019 - 11:28

Sameiginlegt lið ÍA/Kára/Skallagríms í 2. flokki karla er fallið úr leik í Unglingadeild UEFA, eftir 4-1 tap gegn Derby County í Englandi í gær. Fyrri leik liðanna hér heima lauk með 2-1 sigri Englendinganna.

Heimamenn voru mun öflugri í fyrri hálfleik og skoruðu þrjú mörk fyrstu 45 mínútur leiksins. Skagamönnum gekk mun betur í seinni hálfleik, komust betur í takt við leikinn og náðu að skapa sér ágætis marktækifæri. Englendingarnir skoruðu þó fjórða mark sitt áður en Skagamenn fengu vítaspyrnu eftir að brotið var á Eyþóri Aroni Wöhler. Sigurður Hrannar Þorsteinsson fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Lokatölur voru 4-1 og Derby sigraði viðureignina því samanlagt 6-2. Þar með eru þeir gulklæddu úr leik í Unglingadeildinni að þessu skipti, en þeir leika þar einnig að ári sem ríkjandi Íslandsmeistarar.

„Árangur strákanna hefur verið framúrskarandi á árinu og að komast í aðra umferð keppninnar var nokkuð sem öðru íslensku liði hafði ekki tekist áður,“ segir á vef KFÍA.

Framkvæmdir komnar á fullt við Norðurgarð

Fim, 28/11/2019 - 11:01

Framkvæmdir við stækkun Norðurgarðs í Grundarfjarðarhöfn er komnar á fullan skrið. Nú er mikil umferð vörubíla og vinnuvéla um hafnarsvæðið og fólk því beðið um að draga úr bryggjurúntum á meðan. Þessa dagana er verið að keyra á staðinn stórgrýti úr Grafarnámu. Það er Borgarverk sem er verktaki við framkvæmdirnar.

Eitt kort miðlar upplýsingum um ferðaaðstæður

Fim, 28/11/2019 - 10:02

Safetravel hefur tekið í notkun nýjung í miðlun upplýsinga um ferðaaðstæður. Nú er dregið úr flækjustigi með því að þurfa ekki lengur að beina ferðamönnum á nokkra staði til að afla sér upplýsinga um veður og færð, en eitt nýtt Íslandskort á að auðvelda ferðamönnum að sækja á því upplýsingar um t.d. færð á vegum, vindhviður við fjöll, aðstæður á ferðamannastöðum og snjóflóðaspá, svo dæmi séu tekin. Skref er því stigið í að efla öryggismál í landi þar sem aðstæður breytast skjótt og allra veðra er von. Aukin áhersla er nú lögð á rafræna miðlun upplýsinga til ferðamanna.

Ráðuneyti ferðamála og Íslandsstofa hafa ákveðið að draga úr stuðningi við rekstur upplýsingamiðstöðva, t.d. á landsbyggðinni, en efla í stað þess miðlæga, rafræna upplýsingagjöf. Af þeim sökum hefur t.d. verið ákveðið að loka upplýsingamiðstöð ferðamanna í Borgarnesi á næsta ári. Nýverið var skrifað undir samkomulag þess efnis að Landsbjörg fengi aukinn stuðning til reksturs Savetravel og fékk úthlutað um fjörutíu milljónum króna í þeim tilgangi.

Jólin geta verið erfiður tími fyrir syrgjendur

Fim, 28/11/2019 - 10:01

Halldór Reynisson hefur langa reynslu af samfylgd með syrgjendum. Í kvöld klukkan 20 mun hann miðla ráðum sem gefist hafa vel þegar kemur að því að halda jól í skugga ástvinamissis. Fyrirlesturinn verður haldinn á Grand Hotel í Reykjavík, en honum verður sömuleiðis streymt í beinni á Facebook fyrir þá sem ekki eru staddir í höfuðborginni. Slóðin á viðburðinn þar er:

https://www.facebook.com/events/2384083705035827/

Réðu ekki við Íslandsmeistarana

Fim, 28/11/2019 - 09:42

Snæfellskonur máttu játa sig sigraðar gegn Íslandsmeisturum Vals á heimavelli, 70-93, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gær.

Valskonur byrjuðu leikinn mun betur, skoruðu tólf stig gegn tveimur fyrstu fimm mínútur leiksins og leiddu með níu stigum eftir fyrsta leikhluta, 13-22. Þær héldu uppteknum hætti í öðrum fjórðungi, juku forskot sitt hægt en örugglega allt þar til hálfleiksflautan gall. Þá var staðan 34-55 fyrir Val og Íslandsmeistararnir komnir í enistaklega vænlega stöðu. Snæfellskonur náðu ekki að koma til baka eftir hléið, þvert á móti héldu Valskonur áfram að bæta við og leiddu 51-79 fyrir lokafjórðunginn. Snæfell náði aðeins að laga stöðuna í fjórða leikhluta en sigur Vals var þó aldrei í hættu. Gestirnir sigruðu að lokum með 23 stigum, 70-93.

Veera Pirttinen var stigahæst í liði Snæfells með 19 stig og sex fráköst. Chandler Smith skoraði 15 stig og tók sex fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir var með átta stig og Gunnhildur Gunnarsdóttir sjö stig og sjö stoðsendingar. Anna Soffía Lárusdóttir, Helga Hjördís Björgvinsdóttir og Emese Vida skoruðu sex stig hver, en Emes tók tólf fráköst að auki og Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði þrjú stig.

Kiana Johnson var besti maður vals í leiknum, skoraði 28 stig, gaf átta stoðsendingar, stal átta boltum og tók sjö fráköst. Dagbjört Samúelsdóttir skoraði 16 stig og tók sjö fráköst, Hallveig Jónsdóttir skoraði 14 stig og Helena Sverrisdóttir var með ellefu stig og fimm fráköst.

Snæfell situr í sjötta sæti með fjögur stig, jafn mörg og Breiðablik í sætinu fyrir neðan en fjórum stigum á eftir Haukum. Næsti leikur Snæfellskvenna er Vesturlandsslagur gegn Skallagrími í Borgarnesi á sunnudaginn, 1. desember næstkomandi.

Skallagrímssigur í Grindavík

Fim, 28/11/2019 - 09:31

Skallagrímskonur unnu góðan sigur á Grindavík, 63-73 þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna. Leikið var suður með sjó í gærkvöldi.

Borgnesingar voru mun betri í upphafsfjórðungnum, náðu mest ellefu stiga forskoti seint í leikhlutanum og leiddu með sjö stigum að honum loknum, 15-22. Grindavíkurkonur komu til baka í öðrum leikhluta og jöfnuðu metin þegar stutt var til hálfleiks. Liðin fylgdust að næstu andartökin í leiknu en það voru heimakonur sem áttu lokaorðið í fyrri hálfleik og leiddu með fimm stigum í hléinu, 41-36.

Skallagrímskonur náðu undirtökunum á nýjan leik í þriðja leikhluta. Þær náðu forystunni um miðjan leikhlutann og góður lokasprettur skilaði þeim síðan átta stiga forskoti fyrir fjórða leikhluta,48-56. Hann fór rólega af stað hjá Borgnesingum, sem skoruðu ekki fyrstu fjórar mínúturnar. Á meðan skoruðu Grindvíkingar hins vegar aðeins fjögur stig svo Skallagrímskonur héldu forystunni. Þær náðu góðri rispu um miðjan leikhlutann og sigruðu að lokum með tíu stigum, 63-73.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 29 stig, átta stoðsendingar, fimm fráköst og fimm stolna bolta. Emilie Hesseldal skoraði 13 stig og tók 15 fráköst, Maja Michalska var með ellefu stig, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði tíu stig, gaf ellefu stoðsendingar og tók níu fráköst og Árnína Lena Rúnarsdóttir skoraði tíu stig einnig.

Jordan Reynolds skoraði 22 stig fyrir Grindavík, tók 16 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Ingibjörg Jakobsdóttir var með níu stig og Bríet Sif Hinriksdóttir og Ólöf Rún Óladóttir skoruðu átta stig hvor en aðrar höfðu minna.

Skallagrímskonur sitja í þriðja sæti deildarinnar með tólf stig, jafn mörg og Keflavík í sætinu fyrir neðan en tveimur stigum á eftir KR. Næsti leikur liðsins er Vesturlandsslagur gegn Snæfelli á sunnudaginn, 1. desember. Sá leikur fer fram í Borgarnesi.

Færðu góðar gjafir

Fim, 28/11/2019 - 09:01

Kvenfélagið Hringurinn í Stykkishólmi, Lionsklúbbur Stykkishólms og Lionsklúbburinn Harpa komu færandi hendi á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Hólminum síðastliðinn fimmtudag. Færðu félögin endurhæfingardeildinni nýtt göngubretti að gjöf. Að sögn Helgu Guðmundsdóttur, formanns kvenfélagsins, hefur verkefnið staðið yfir í tvö ár. „Endurhæfingadeildin fagnaði 40 ára afmæli í fyrra og háls- og bakdeildin 25 ára afmæli 2017. Þá ákváðum við kvenfélagskonur að færa endurhæfingadeildinni peningagjöf og í framhaldinu af því kviknaði þessi hugmynd, því við vildum klára dæmið og safna allri upphæðinni sem svona göngubretti kostar,“ segir Helga í samtali við Skessuhorn. „Þegar við fórum að skoða málið, í samvinnu við Hrefnu Frímannsdóttur yfirsjúkraþjálfara, þá komumst við að því að svona bretti kostaði miklu meira en við réðum við. Þá fengum við Lionsmenn með okkur í þetta og áður höfðu Lionskonur gefið peningaupphæð sem einnig var nýttar til kaupanna. Það voru því kvenfélagið og Lionsklúbbarnir tveir sem tóku höndum saman við að gefa þessa gjöf,“ segir hún.

Sama dag afhentu kvenfélagskonur Dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi nýtt sjónvarp að gjöf. „Sjónvarpið, sem er 62 tommur að stærð, var sett upp í matsal dvalarheimilisins,“ segir Helga.

Að lokum má nefna að fyrsta sunnudag í aðventu, 1. desember, stendur kvenfélagið fyrir basar í Grunnskólanum í Stykkishólmi, venju samkvæmt. „Allur ágóði af basarnum mun renna til góðra málefna í Stykkishólmi eins og alltaf,“ segir Helga Guðmundsdóttir að endingu.

Hámarksgeymslutími kynfruma verður lengdur

Fim, 28/11/2019 - 08:01

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að breyta reglugerð um tæknifrjóvgun með þeim hætti að hámarksgeymslutími kynfruma verði lengdur úr tíu árum í tuttugu. Breytingin er einkum til hagsbóta fyrir ungt fólk sem af einhverjum ástæðum vilja geyma kynfrumur sínar lengur en nú er heimilt, til dæmis vegna illkynja sjúkóma, kynleiðréttingarferlis eða af öðrum ástæðum.

Ákvörðun heilbrigðisráðherra um að lengja hámarksgeymslutíma kynfruma styður við framkvæmd laga um kynrænt sjálfræði sem samþykkt voru á Alþingi í júlí síðastliðnum og snúa að því að tryggja réttindi trans- og intersex fólks. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði laganna vinna tveir starfshópar skipaðir af forsætisráðherra að því að skoða hvaða lagabreytingar þarf að gera í þessu skyni og eru þar m.a. til skoðunar lög nr. 55/1996 sem snúa meðal annars að tæknifrjóvgun.

Reglugerðarbreytingin verður send Stjórnartíðindum innan skamms og tekur gildi við birtingu.

Á leið á Norðurlandamót í sundi

Fim, 28/11/2019 - 07:01

Brynhildur Traustadóttir sundkona úr ÍA er í landsliðshópi Sundsambands Íslands sem keppir á Norðurlandameistaramóti í sundi sem haldið verður í Færeyjum um helgina. Á mótinu synda um 210 keppendur frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum Litháen, Lettlandi og Eistlandi. Þar af eru 25 keppendur frá Íslandi. Brynhildur hefur æft mjög vel í haust og á mótinu keppir hún í 200, 400 og 800m skriðsundi.

Ráðherra hélt kynningarfund um nýjan menntasjóð námsmanna

Fim, 28/11/2019 - 06:01

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra fór síðastliðinn mánudag til Hvanneyrar í þeim tilgangi að kynna fyrir háskólanemendum í héraðinu nýtt frumvarp um menntasjóð námsmanna. Fyrir fundinn fékk hún leiðsögn um starfsstöð Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og hófst ferðin á Mið-Fossum. Landsamtök íslenskra stúdenta (LÍS) kynntu einnig sínar kröfur og í kjölfarið voru pallborðsumræður. Í pallborði sátu Lilja Dögg, Sigrún Jónsdóttir forseti LÍS og Leifur Finnbogason formaður nemendafélagsins á Bifröst.

Í kynningu ráðherra kom m.a. fram að miklar breytingar eru að eiga sér stað í námslánakerfinu. Ljúki nemandi námi innan tiltekins tíma er 30% niðurfærsla á höfuðstól, námslán verða greidd út mánaðarlega, aukið val verður við endurfjármögnun og lægstu mögulegir vextir í boði. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir betri stuðningi við fjölskyldufólk, einstæða foreldra og námsmenn utan höfuðborgarsvæðisins.

Sigrún Jónsdóttir, forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta, fjallaði um kröfur stúdenta vegna frumvarps um Menntasjóð námsmanna. Aðalkrafa stúdenta er að þak verði sett á vexti en þeir segja að frumvarpið í núverandi mynd boði afnám vaxtahámarks sem sé að finna í reglum LÍN. Sigrún fór einnig yfir kröfur stúdenta er varða lánsrétt og skýrar lágmarks námsframvindukröfur.

Högni Egils og æska landsins í Borgarnesi

Miðv.d., 27/11/2019 - 17:45

Í Landnámssetrinu í Borgarnesi verður á föstudags- og laugardagskvöld í þessari viku boðið upp á skemmtilega tónleika. Tónleikarnir hefjast klukkan 20 bæði kvöldin. Þar koma fram Karólína Sif og Pétur Ernir auk Högni Egils úr hljómsveitinni Hjaltalín. „Meginþema okkar er fjölskyldan saman um jólin. Þetta eru tónleikar fjölskyldu og vina. Með ást og umhyggju fyrir hvort öðru búum við til okkar allra æskujól. Þetta er sennilega í fyrsta skipti sem þrír unglingar fara í skipulagðan jólatúr á aðventunni,“ segir Benni Sig skipuleggjandi tónleikanna, en auk þeirra Sifjar og Péturs er Ari Ólafsson með á sumum tónleikum Æskujóla, en verður ekki í Borgarnesi.

Karolína Sif er 18 ára stúlka frá Bolungarvík. Hún er efnileg söngkona og hefur gefið út eitt lag á Spotify með Jógvan Hansen sem nefnist ,,Þú ert sú eina“. Pétur Ernir er 19 ára Ísfirðingur. Hann er hálfgert undrabarn og framúrskarandi hæfileikaríkur listamaður. Hann bæði spilar á píanó á tónleikunum sem og syngur. Einnig sér hann um allar útsetningar. Heiðursgestur á tónleikunum í Borgarnesi er Högni Egilsson úr hljómsveitinni Hjaltalín. Nafn hans er þegar orðið vörumerki, segir Benni Sigu.

Mun tónlistarfólkið m.a. flytja frumsamið lag eftir Pétur og Karó. Að sjálfsögðu heitir lagið ,,Æskujól“. „Það er gæsahúðarlag fyrir allan peninginn,“ segir Benni Sig.

Aðgangur er ókeypis fyrir þau börn sem vilja sitja í fanginu á foreldrum/forráðamönnum. „Við teljum það mjög táknrænt fyrir tilgang tónleikanna, þe, að halda utan um börnin okkar. Þau eiga það skilið. Lokalagið verður Heims um ból sem verður almennur söngur og þá fáum við alla þá krakka sem mæta á tónleikana til að koma til okkar og syngja með okkur fyrir gesti,“ segir Benni. Miðaverð er kr. 4.500.

Ríkið láni tekjulágum fyrir útborgun í húsnæði

Miðv.d., 27/11/2019 - 16:48

„Fyrirhugað er að ríkið láni ákveðnum kaupendahópum fé fyrir hluta af útborguninni,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sem boðar frumvarp um svonefnd hlutdeildarlán að breskri fyrirmynd. Hann segir að frumvarp um hlutdeilarlán, þar sem ríkið getur lánað tekju- og eignalitlum fyrir meirihluta útborgunar í húsnæði, verði lagt fram á Alþingi í vetur. Ásmundur Einar fór yfir stöðu mála á Húsnæðisþingi félagsmálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs sem haldið var í dag og kynnti könnun Íbúðalánasjóðs sem sýnir að meirihluti leigjenda vill kaupa sína eigin fasteign. Vísaði hann þá til fyrstu kaupa. Þessu fólki mættu hins vegar töluverðar hindranir, einkum varðandi útborgun við kaup. Hann sagði að könnuð hefðu verið bæði svonefnd startlán að norskri fyrirmynd og hlutdeildarlán.

„Slík hlutdeildarlán eða eiginfjárlán eiga að brúa bilið fyrir þá sem eiga þess ekki kost að safna sér fyrir útborgun í íbúð.  Ríkið lánar ákveðnum kaupendahópum fé fyrir hluta af útborguninni og fær það svo endurgreitt við sölu eignarinnar eða þegar kaupandinn endurfjármagnar lánið,“ sagði Ásmundur Einar og bætti því við að framkvæmdin hjá Bretum hefði verið skoðuð ítarlega. Ætla má að þessi lán gætu numið 20-40 prósentum af kaupverði íbúðar.

„Ef við tökum raunhæft dæmi um íbúð sem kostar til dæmis 30 milljónir króna þá þarf kaupandi að leggja sjálfur fram um eina og hálfa milljón króna í eigið fé. Ríkið myndi lána sex milljónir og eftirstöðvarnar yrðu fjármagnaðar með óverðtryggðu húsnæðisláni, frá fjármálastofnun. Þegar eignin verður seld fær ríkið lánið endurgreitt og svarar endurgreiðslan þá til sama hlutfalls af verðmæti eignarinnar og upphaflega lánið. Hafi eignin hækkað í verði hækkar greiðsla til ríkisins en hafi eignin lækkað verður greiðsla til ríkisins að sama skapi lægri,“ sagði Ásmundur Einar. Hann bætti því við að úrræði um skattaafslátt og tilgreinda séreign gætu jafnframt nýst til þess að lækka óverðtryggt húsnæðislán og auka þar með eignamyndun.

Fram kemur í skýrslu Íbúðalánasjóðs, Staða og þróun húsnæðismála, sem kom út í dag í tengslum við Húsnæðisþingið, að reikna megi með því að árlegur fjöldi hlutdeildarlána gæti numið allt frá 350 og upp í eitt þúsund árlega. Þetta fari eftir því hversu mikla áherslu byggingaraðilar koma til með að leggja á íbúðir sem uppfylla skilyrði um þessi lán.

Jöfnun dreifikostnaðar raforku er réttlætismál

Miðv.d., 27/11/2019 - 16:38

Sérstök umræða um jöfnun dreifikostnaðar á raforku fór fram á Alþingi síðastliðinn mánudag. Málshefjandi var Halla Signý Kristjánsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, en til andsvara var Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra. Halla Signý benti á að landsmenn sitja ekki við sama borð þegar kemur að flutningi raforku til síns heima og að núverandi jöfnunargjald sé langt frá því að jafna verðmuninn á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Hún minntist á nýlega skýrslu starfshóps á vegum ráðuneytisins um raforkuflutning í dreifbýli, þar sem fram koma tillögur um hvernig hægt sé að ráða bót á þessu. Benti hún á að jöfnun dreifikostnaðar á raforku væri réttlætismál. Matvælaframleiðsla færi t.d. að mestu leyti fram í dreifbýli en núverandi kerfi væri þar dragbýtur. „Þegar við tölum bara um samkeppnishæfni atvinnurekenda í landinu hljótum við að þurfa að tala um þá alla í einu mengi,“ sagði hún

Í andsvörum sínum benti Þórdís Kolbrún á að nokkrar leiðir væru færar til að jafna verðmuninn milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Það væri t.d. hægt að afnema skilin milli dreibýlisgjaldskrár og þéttbýlisgjaldskrár og sameina þær, hækka jöfnunargjaldið, eða nýta fjármuni og arðgreiðslur frá Rarik og Orkubúi Vestfjarða tímabundið til að fjármagna það sem upp á vantar.  Starfshópurinn á vegum ráðherra hefur skilað tillögum að úrbótum. Það kemur fram yfirlýstur vilji stjórnvalda til að bæta flutnings- og dreifikerfi raforku þannig að það mæti betur þörfum atvinnulífs og almennings á öllu landinu.

Hjörtur fer yfir sögu Kiwanisklúbbsins Jökla

Miðv.d., 27/11/2019 - 14:44

Í Skessuhorni sem kom út í dag rifjar Hjörtur Þórarinsson fyrrum skólastjóri upp sögu Kiwanisklúbbins Jökla í Borgarfirði, allt frá stofnun hans 1973 og þar til starfinu lauk. Á sinni tíð var klúbburinn kraftmikill og bætti samfélagið. Rifjar Hjörtur upp helstu verkefni og fjáraflanir, en klúbburinn fjármagnaði meðal annars kaup á björgunarbíl fyrir björgunarsveitina Ok og snjóbíl fyrir björgunarsveitina Heiðar. Auk þess studdi klúbburinn við fjölmörg önnur verkefni.

Nú er starfsemi Kiwanisklúbbins Jökla hætt en farið er yfir söguna í bundnu og óbundnu máli í Skessuhorni sem kom út í dag.

 

Veitur boða til íbúafundar í Borgarbyggð í næstu viku

Miðv.d., 27/11/2019 - 13:46

Töluverðrar óánægju gætir meðal íbúa í Borgarnesi með það misræmi sem felst í hærra verði fyrir vatns- og fráveitugjöld í samanburði við sambærileg gjöld í nágrannasveitarfélögunum Akranesi og Reykjavík. Íbúar hafa ítrekað vakið máls á þessu misræmi og nú síðast Guðmundur Ingi Waage eldri borgari í Borgarnesi. Hann bendir á að Borgnesingar séu nú að greiða 32 til 62 prósentum hærra vatns- og fráveitugjald til Veitna, en t.d. Akurnesingar og Reykvíkingar til sama fyrirtækis. Þennan verðmun má rekja til eigendasamnings Borgarbyggðar frá 2005, en Borgarbyggð á tæplega eins prósents eignarhlut í Orkuveitu Reykjavíkur á móti Akraneskaupstað og Reykjavíkurborg. Þegar samið var um eignarhlutinn og gjöld í OR árið 2005 kaus þáverandi sveitarstjórn Borgarbyggðar fremur að halda í eignarhlut sinn en skuldbundu íbúa og fyrirtæki í staðinn til að greiða hærri gjöld fyrir vatns- og fráveitu. Akraneskaupstaður ákvað hins vegar að lækka eignarhlut sinn til að tryggja sömu gjöld og íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru að greiða. Nú er krafa íbúa í Borgarnesi skýr, og þar á meðal Guðmundar Inga Waage, að Borgarbyggð geri eitthvað í þessum hróplega verðmun.

Til að svara óánægjuröddum hafa Veitur nú auglýst kynningarfund um veitumál og fer hann fram á Hótel B-59 í Borgarnesi miðvikudaginn 4. desember nk. klukkan 19:30. Þar verða málefni vatns-, hita- og fráveitu í Borgarbyggð rædd. Í auglýsingu í Skessuhorni í dag kemur fram að fulltrúar Veitna muni fara yfir málin, áskoranir sem hafa verið í rekstrinum og framtíðarhorfur. „Á fundinum gefst bæjarbúum tækifæri til að fá svör við spurningum sem brenna á þeim varðandi starfsemi Veitna í bæjarfélaginu,“ segir í auglýsingunni. Fulltrúar í sveitarstjórn Borgarbyggðar munu auk þess sitja fyrir svörum.

Verulegar fjárfestingar hafa átt sér stað

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær voru gjaldskrármál íbúa í Borgarnesi til umfjöllunar. Þar sagði Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, formaður byggðarráðs Borgarbyggðar og áheyrnarfulltrúi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, að sveitarstjórn hafi fullan skilning á óánægju íbúa. „Við höfum rætt þetta innan sveitarstjórnar, innan byggðarráðs, og ég hef lagt fram fyrirspurnir í stjórn Orkuveitunnar og þetta hefur komið inn á eigendafundi. Þannig að þetta kemur mjög reglulega upp,“ sagði Halldóra í kvöldfréttum RUV.

Fram kom í frétt RUV að Borgarbyggð þyrfti af líkindum að greiða út töluverða fjárhæð, eða um fjóra milljarða króna, til að lækka vatns- og fráveitugjöldin til samræmis við nágrannabyggðarlög. Það er sú upphæð sem Veitur hafa til dæmis sett í fráveituframkvæmdir í Borgarnesi, Hvanneyri, Bifröst, Varmalandi og Reykholti. Að öðrum kosti þarf sveitarfélagið að selja eignarhlut sinn til meðeigenda sinna, ef takast á að lækka vatns- og fráveitugjöld til samræmis við Akranes og Reykjavík.

Tveir buðu í ljósleiðaranet Hvalfjarðarsveitar

Miðv.d., 27/11/2019 - 13:01

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti samhljóða á fundi sínum í byrjun september að auglýsa til sölu ljósleiðaranetið sem liggur heim að húsum og býlum í sveitarfélaginu. Með sölu á kerfinu er vilji sveitarstjórnar að draga úr ýmsum kostnaði við umsýslu og rekstur á dreifikerfinu. Þeim rekstri verði komið í hendur rekstraraðila sem sérhæfir sig í slíkum rekstri sem ekki er á kjarnasviði sveitarfélaga. Litið er svo á að sú sérhæfing og sérþekking sé ekki til staðar í dag. Í framhaldi ákvörðunar um að bjóða kerfið til sölu auglýsti sveitarfélagið eftir tilboðum og bárust tvö fyrir tilskilinn frest. Í frétt á vefsíðu sveitarfélagsins 18. nóvember segir að hærra boðið sé frá Mílu og hljóði það upp á 83,7 milljónir króna. Sú upphæð jafngildir um 350 þúsund krónum fyrir hverja tengingu í sveitarfélaginu. Gagnaveita Reykjavíkur átti lægra boðið; 49,2 milljónir króna. Á dagskrá fundar sveitarstjórnar síðdegis í gær var málið til umræðu og ákveðið að fresta ákvörðun um framhaldið.

Nú er lag til afskriftar

Lokið var við lagningu ljósleiðara um Hvalfjarðarsveit haustið 2015. Samanlagður kostnaður við verkefnið var um 370 milljónir króna og var framkvæmdin að fullu greidd úr sveitarsjóði enda hófst verkefnið áður en ríkið fór að styrkja lagningu ljósleiðara um landið. Íbúar sem tóku inn ljósleiðara skulbundu sig hins vegar til viðskipta í tvö ár en greiddu ekki stofngjald, líkt og íbúar í dreifbýli Borgarbyggðar þurfa t.d. að gera nú þegar lagning ljósleiðara er í gangi þar. Ef af sölu ljósleiðara Hvalfjarðarsveitar verður nú þarf sveitarsjóður Hvalfjarðarsveitar að afskrifa um þrjú hundrað milljónir króna sem er bókfært virði ljósleiðaranetsins í reikningum sveitarsjóðs. Frá þeirri tölu dregst hins vegar söluverð kerfisins, 84 milljónir króna samkvæmt framansögðu, ef hærra tilboðinu verður tekið. Sveitarstjórn telur að nú sé lag til þeirrar afskriftar þar sem einskiptis tekjur þessa árs verða miklar sökum áhrifa dóms sem féll fyrr á árinu þar sem Jöfnunarsjóði var gert að greiða fimm sveitarfélögum í landinu alls 683 milljónir króna og þar af Hvalfjarðarsveit 303 milljónir. Um var að ræða jöfnunarframlög sem tengist tekjutapi vegna lækkunar tekna sveitarfélaganna af fasteignaskatti og vegna launakostnaðar við kennslu í grunnskólum auk annars kostnaðar.

Óbreytt þjónusta og svipað verð

„Nú þegar borist hafa tilboð í ljósleiðarakerfið og fjárhæðir liggja fyrir er unnt að meta áhrif þeirra á rekstur sveitarfélagsins auk þess að skoða gjaldskrár- og þjónustukvaðir tilboðsgjafa.  Hærri tilboðsgjafinn, Míla, er í ljósi aðstæðna sinna á markaði háð ýmsum takmörkunum, bæði hvað varðar þjónustugjaldskrár og þjónustukvaðir og það þarf að skoða í samhengi við kröfur sveitarfélagsins hvað það varðar. Við í sveitarstjórn höfum lagt upp með að tryggja að þó veitan verði seld mun þjónustu- og gjaldskrá ekki verða umbylt og aðgengi tryggt,“ segir Björgvin Helgason oddviti Hvalfjarðarsveitar í samtali við Skessuhorn. Gjaldskrá fyrir notkun ljósleiðara í Hvalfjarðarsveit hefur ekkert breyst frá upphafi. Að sögn Lindu Bjarkar Pálsdóttur sveitarstjóra er gjaldskráin svipuð og gjaldskrá Mílu, en þó sá munur að Míla innheimtir virðisaukaskatt af þjónustunni, en það hefur Hvalfjarðarsveit ekki gert í innheimtu mánaðargjalda frá upphafi. Gjald fyrir ljósleiðaratengingu í Hvalfjarðarsveit hefur verið 2.375 krónur á mánuði en í gjaldskrá Mílu er gjald fyrir tengingu á landsbyggðinni 2.300 krónur auk virðisaukaskatts.

Vill íbúafund um málið

Jóhanna Harðardóttir í Hlésey vekur máls á sölu ljósleiðarans á íbúasíðu á Facebook. Óttast hún að í kjölfar sölunnar muni notendagjöld fyrir ljósleiðara hækka. „Ég skora því á sveitarstjórn að standa við loforð sín og halda íbúafund áður en ákvörðun er tekin, þar sem rök með og móti sölu verði kynnt og efnt til almennrar atkvæðagreiðslu um málefnið í kjölfarið,“ skrifar Jóhanna. Margir íbúar taka undir sjónarmið Jóhönnu. Aðspurð útilokar Linda sveitarstjóri ekki að boðað verði til íbúafundar um söluna.

Farþegaskipið Akranes verður gert út á sjóstangveiði og hvalaskoðun

Miðv.d., 27/11/2019 - 11:40

Í slippnum í Vestmannaeyjum er nú verið að leggja lokahönd á lagfæringar á farþegaskipinu Akranesi. Skipið er í eigu Loðnu ehf. en að því félagi standa Gunnar Leifur Stefánsson og viðskiptafélagar hans. Að sögn Gunnars Leifs fer skipið úr slipp í næstu viku. „Þetta er skip sem hefur leyfi til að flytja 100 farþega og við hyggjumst gera það út á sjóstangveiði og hvalaskoðun frá Akranesi. Þetta er gríðarlega gott sjóskip og hentar prýðilega til ferðaþjónustu af þessu tagi,“ segir Gunnar Leifur í samtali við Skessuhorn. Hann segir að áætlað sé að sigla Akranesi til heimahafnar á Akranesi með hækkandi sól. „Nú verður farið að vinna að markaðsmálum og undirbúningi fyrir útgerð skipsins og ferðir frá Skaganum. Þá eigum við von á öðrum báti til viðbótar frá Póllandi, en sá verður einnig gerður út til hvalaskoðunar. Ég trúi á, eins og ég hef lengi gert, að framtíðin sé í ferðaþjónustu. Hér á Akranesi byrjaði sjóstangveiðin hér við land, með útgerð Andreu fyrir þrjátíu árum eða svo,“ segir Gunnar Leifur sem segja má að hafi verið frumkvöðull á þessu sviði ferðaþjónustu hér á landi.

Skipið Akranes er sterkbyggt skip en það var upphaflega smíðað til að þola siglingar í ís. „Skipið var fyrst notað sem slökkvibátur fyrir sænska herinn og var einnig skólaskip um tíma. Því var svo breytt í túristaskip fyrir rúmum áratug. Hét þá í fyrstu Ísafold en eftir það Víkingur og gert út frá Vestmannaeyjum. Það hefur nú fengið nafnið Akranes og verður gert út af Loðnu ehf. á Akranesi.“

Gunnar Leifur kveðst bjartsýnn á að nú sé ferðaþjónusta á Akranesi að taka við sér og því sé lag að auka þjónustu. „Við sjáum hvað gamli vitinn hefur verið að laða til sín marga gesti og nú Guðlaug á þessu ári. Ég hef enn fulla trú á að Akranes eigi mikið inni þegar ferðaþjónusta er annars vegar og skora á fólk að flýta annarri uppbyggingu og styrkja þannig stoðirnar. Það vantar til dæmis hótel og ýmsa aðra þjónustu í bæjarfélagið,“ segir Gunnar Leifur að endingu.

Barist með Beggu

Miðv.d., 27/11/2019 - 11:01

Crossfit stöðin Box 7 efndi til samróðurs til styrktar Berglindi Rósu Jósepsdóttur sem er 33 ára tveggja barna móðir í Grundarfirði, í sambúð með Sigurbirni Hanssyni. Begga greindist með krabbamein í upphandlegg síðasta sumar og hefur verið í lyfja- og geislameðferðum síðan þá. Forsvarsmenn Box 7 vildu því leggja sitt af mörkum með þessari söfnun.

Upphaflega átti að róa 500 kílómetra og var byrjað af krafti klukkan átta laugardagsmorguninn 23. nóvember síðastliðinn. Fljótlega kom í ljós að eljusemin í ræðurum var það mikil að tekið var á það ráð að hækka kílómetrafjöldann í 800 og seinna um daginn upp í 1000 kílómetra. Mikill fjöldi fólks kom og reri til styrktar Beggu og fjölskyldu og svo voru einnig margir sem komu færandi hendi með veitingar og bakkelsi fyrir ræðara. Blaklið Grundarfjarðar var í keppnisferð á Norðurlandi og lagði sitt af mörkum og réru 25 kílómetra og annarsstaðar á Húsavík réru ættingjar Berglindar, þar á meðal 85 ára gömul amma hennar, 43 kílómetra. Ein róðravélin var fyrir krakka og var róið 49 kílómetra á henni en krakkarnir voru á aldrinum 4 til 12 ára. Einnig voru nokkrir einstaklingar sem voru með sjálfsáskorun en þær Sigurborg Knarran Ólafsdóttir og Freydís Bjarnadóttir réru maraþon eða 42,2 kílómetra. Þá reri Vignir Már Runólfsson 50 kílómetra. Þegar yfir lauk voru kílómetrarnir nákvæmlega 1003 sem er alveg ótrúlegur árangur. Söfnuninni mun ljúka 1. desember næstkomandi og því enn hægt að leggja henni lið.

Hægt er að leggja inn á reikning: 0321 – 13 – 161444. Kt. 250868-4999.

Sjá myndir úr áheitaróðrinum í Skessuhorni sem kom út í dag.

Nýr Bárður SH á leið til landsins

Miðv.d., 27/11/2019 - 09:58

Nýr Bárður SH-81 er nú á siglingu til landsins. Komið var við í Þórshöfn í Færeyjum í gær en áætlað var að sigla af stað til Íslands í dag. Báturinn var smíðaður í Rødbyhavn í Danmörku fyrir Pétur Pétursson útgerðarmann í Ólafsvík. Nýr Bárður SH er glæsilegt skip eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Hann er 26,9 metra langur, sjö metra breiður og með 2,5 m. djúpristu. Stærð hans gerir hann því að stærsta trefjaplastbáti sem smíðaður hefur verið fyrir íslenska útgerð.

Meðfylgjandi myndir af Bárði í höfninni í Þórshöfn tók Finn Gærdbo fyrir Skessuhorn.

Vilhjálmur Egilsson kveður Bifröst í vor

Miðv.d., 27/11/2019 - 09:01

Vilhjálmur Egilsson lætur af störfum sem rektor Háskólans á Bifröst næsta vor, en hann hefur gegnt starfinu síðan 2013. „Meiningin er að ég hætti í lok skólaársins. Ég var upphaflega ráðinn 2013 og fyrsta ráðningin var til fjögurra ára. Hún var síðan framlengd um þrjú ár. Ástæðan er sú að ég verð 67 ára núna í desember og er að færast á lífeyrisaldur. Að minni hálfu snerist málið um að finna heppilegan tímapunkt til að stíga inn í þennan nýja kafla í lífi mínu. Þá urðu allir ásáttir um að ég framlengdi til þriggja ára og samningurinn minn rennur því út eftir þetta skólaár sem nú er hafið, sem er bara mjög viðeigandi að mínum dómi,“ segir Vilhjálmur í samtali við Skessuhorn.

Rætt er við hann í Skessuhorni sem kom út í dag.

Síður