Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 24 mín 13 sek síðan

Óbreyttir stýrivextir

Fim, 12/12/2019 - 07:55

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað á miðvikudag að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, jafnan kallaðir stýrivextir, verða því áfram 3%.

Hagvöxtur var 0,2% fyrstu níu mánuði ársins, sem er aðeins meiri vöxtur en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í nóvember. Í meginatriðum hefur efnahagsþróun það sem af er ári hins vegar verið í samræmi við nóvemberspána. Verðbólga mældist 2,7% í nóvember og hefur hjaðanað milli mánaða, sem og undirliggjandi verðbólga. Verðbólguhorfur hafa lítið breyst frá síðasta fundi nefndarinnar og verðbólguvæntingar eru við markmið. Lítið hefur því breyst frá síðasta fundi peningastefnunefndar.

Jólablaðið í næstu viku

Fim, 12/12/2019 - 06:00

Miðvikudaginn 18. desember kemur Jólablað Skessuhorns út. Það er stærsta blað ársins hjá útgáfunni og jafnframt síðasta tölublað ársins.

Vegna umfangs blaðsins eru lesendur hvattir til að senda efni tímanlega inn til birtingar, á netfangið skessuhorn@skessuhorn.is. Þarf það að berast í síðasta lagi föstudaginn 13. desember. Sömuleiðis þurfa auglýsingapantanir að berast fyrir sama tímafrest. Netfangið er: auglysingar@skessuhorn.is og síminn sem fyrr 433-5500.

Fyrsta tölublað á nýju ári kemur svo út 8. janúar 2020.

Rafmagnslaust í Dölum frá kl. 17:00

Miðv.d., 11/12/2019 - 16:38

Rafmagnsnotendur í Dalabyggð, það er að segja í Búðardal, Laxárdal, Suður-Dölum og Skógarströnd, mega búast við því að straumlaust verði í 30 til 45 mínútur frá kl. 17:00 núna á eftir vegna viðgerðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rarik.

Þar segir einnig að þegar rafmagn kemur aftur á um Skógarstrandarlínu megi búast við að skammta þurfi rafmagn á svæðinu, þar til rafmagnsafhending frá Hrútatungu kemst í lag.

Síðasta jólatréð frá Drammen

Miðv.d., 11/12/2019 - 15:30

Víða um landshlutann voru jólaljós tendruð á jólatrjám fyrstu vikuna í aðventu. Hólmarar söfnuðust saman og kveiktu ljósin á trénu frá Drammen í Hólmagarði síðasta miðvikudag. Veðrið var með besta móti og margt um manninn. Tónmenntanemar Grunnskólans í Stykkishólmi sungu jólalög, kvenfélagskonur seldu heitt súkkulaði og smákökur, jólasveinarnir kíktu í heimsókn og gáfu börnunum mandaríur og að sjálfsögðu var stiginn dans í kringum jólatréð.

Um árabil hafa Hólmarar fengið jólatré að gjöf frá vinabænum Drammen í Noregi. Í ávarpi bæjarstjóra þegar ljósin voru tendruð kom fram að tréð í ár væri það síðasta. Drammen mun líklegast sameinast öðru sveitarfélagi á næstu misserum og óljóst hvað verður um formlegan vinskap bæjanna. Í ljósi þess samþykkti bæjarráð Stykkishólms fyrir skemmstu að þetta yrði síðasta jólatréð sem bæjaryfirvöld þiggja að gjöf frá Norðmönnum. Bæjarstjóri tók þó fram að hefðir Hólmara lifðu áfram og að áfram yrðu tendruð ljós á jólatrjám í bænum þó þau væru ekki fengin frá Noregi.

Margir á netinu í óveðrinu

Miðv.d., 11/12/2019 - 15:13

Gagnaumferð um ljósleiðara Gagnaveitu Reykjavíkur var rúmum fjórðungi meiri en venjulega í óveðrinu á þriðjudagskvöld. Náði umferðin hámarki kl. 21:25. Þá var straumur gagna um ljósleiðarann 26,1% meiri en á sama tíma en tæpri viku fyrr, miðvikudagskvöldið 3. desember og hefur aldrei verið meiri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá veitum.

„Ljósleiðarinn nær til um 100.000 heimila og á umferðartölum um netið í gær sést að fólk var fyrr komið heim og byrjað að nýta nettengingu heimilisins fyrir símana sína, sjónvarpið eða tölvuna. Fólk virðist hafa sótt sér fréttir af framvindu mála í gríð og erg strax eftir að heim var komið því um þrjúleytið var umferðin eins og gjarna sést undir kvöldmat á virkum dögum. Þetta hélt áfram og náði gagnaumferðin hámarki rétt fyrir klukkan hálftíu,“ segir í tilkynningunni.

Ert þú á lista yfir óþekka?

Miðv.d., 11/12/2019 - 14:30

Skyrgámur og Bjúgnakrækir verða í KM þjónustunni í Búðardal á morgun, föstudaginn 13. desember, þar sem þeir ætla að taka stöðuna í upphafi vertíðar.

Í tilkynningu sem Skyrgámur sendi Skessuhorni hvatti hann bræður þeirra ennig til að mæta. „Það eru nokkur atriði sem við þurfum að fara í gegnum, til dæmis óþekktarlistann, en þar hefur orðið töluverð breyting frá í fyrra,“ segir Skyrgámur í tilkynningunni. Þá segir hann einnig að þeir þurfi að ákveða hvernig farið verður með kertin sem Kertasníkir kemur með til baka á jólanótt. „Þið munið hvernig fór í fyrra, þegar við vorum nærri búnir að kveikja í bílskúrnum hjá Gilbert því gastækin hans voru of öflug til að kveikja á kertunum,“ segir Skyrgámur og bætir því við að einnig þurfi að taka ákvörðun um skiptingu arðs. „Vonumst til að þið sjáið ykkur fært að mæta drengir. En þeir ykkar sem ekki komast, þá er einnig í boði að tala saman í gegnum Facebook síðuna mína,“ segir Skyrgámur í skilaboðum til bræðra sinna.

Öllum er frjálst að koma og hitta bræðurna í KM þjónustunni á milli kl 16 og 17 á föstudaginn og verða þeir jafnvel með eitthvað góðgæti í poka fyrir gesti. Þeir sem eru hræddir um að vera á listanum yfir óþekka geta tékkað á því og reynt að fá það leiðrétt. Listinn yfir óþekka verður hengdur upp í KM þjónustunni miðvikudaginn 11. desember.

Bláa ský er fyrsta bók Sólveigar Ásgeirsdóttur

Miðv.d., 11/12/2019 - 13:30

Gefur hollvinasamtökum allan ágóðann af sölunni

Sólveig Ásgeirsdóttir í Stykkishólmi sendi í lok nóvember frá sér sína fyrstu bók. Ber hún heitið Bláa ský og er safn prósaljóða og smásagna sem Sólveig hefur skrifað í áranna rás. „Ég hef lengi verið að skrifa en hingað til hefur það lent ofan í skúffu, eins og hjá mörgum,“ segir Sólveig létt í bragði í samtali við Skessuhorn. „Síðan gerðist það að ein góð vinkona mín, Hanna Jónsdóttir, hvatti mig til að sækja um styrk hjá lista- og menningarsjóði Stykkishólmsbæjar. Ég gerði það, fékk styrk um síðustu áramót og þá bara bretti ég upp ermarnar. Ég átti fullt af efni, en þurfti auðvitað að fara yfir það allt og fínpússa og svona,“ segir hún.

 

Peningarnir gagnist íbúunum

Ekki nóg með að Sólveig hafi aldrei gefið út bók áður, heldur lætur hún allan ágóðann af sölu hennar renna til góðs málefnis. „Allur ágóðinn af sölunni rennur óskiptur til Hollvinasamtaka Dvalarheimlis aldraðra hér í Stykkishólmi. Ég vann þar í mörg ár og vil með þessu þakka fyrir mig og láta gott af mér leiða,“ segir hún.

Agnar Jónasson, formaður Hollvinasamtaka Dvalarheimilis aldraðra í Stykkishólmi, vill koma á framfæri þakklæti fyrir gjöfina frá samtökunum. „Þetta er frábær gjöf og við hjá samtökunum erum innilega þakklát fyrir hana og fyrir það hvað fólk hugsar vel til okkar,“ segir Agnar í samtali við Skessuhorn.

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.

Skallagrímskonur mæta ÍR í bikarnum

Miðv.d., 11/12/2019 - 12:30

Dregið var í átta liða úrslit Geysisbikars karla og kvenna í körfuknattleik í hádeginu í gær. Leikið verður í átta liða úrslitum dagana 19. og 20. janúar næstkomandi. Sigurvegarar þessara leikja komast í fjögurra liða úrslit sem fara fram í Laugardalshöll dagana 13. og 14. febrúar næstkomandi.

Skallagrímskonur voru einar eftir í pottinum af Vesturlandsliðunum. Munu þær mæta ÍR á útivelli í átta liða úrslitum. Keflavík tekur á móti KR, Valur fær Breiðablik í heimsókn og Haukar taka á móti Grindavík.

Í átta liða úrslitum karla fær Fjölnir lið Keflavíkur í heimsókn, Sindri tekur á móti Grindavík, Stjarnan fær Val í heimsókn og Tindastóll tekur á móti Þór Ak.

Rannsakar sögutækni og tölvuleikjaþróun í Sílikondal

Miðv.d., 11/12/2019 - 11:45

Elín Carstensdóttir tók nýlega við starfi lektors í UC Santa Cruz í Kaliforníu

 

 

Elín Carstensdóttir ólst upp á Akranesi  Hún gekk í Brekkubæjarskóla og síðan Fjölbrautaskóla Vesturlands þar sem hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut. Eftir það lá leiðin í Háskóla Reykjavíkur þar sem Elín lærði tölvunarfræði og útskrifaðist með BS gráðu vorið 2013. Leiðin lá því næst til Bandaríkjanna þar sem henni var boðið í masters- og doktorsnám í tölvunarfræði við Northeastern University í Boston á fullum styrk og með niðurfelld skólagjöld. Það var tilboð sem ekki var hægt að hafna og þar hefur hún verið í doktorsnámi undanfarin ár. Í maí á þessu ári var hún síðan ráðin sem lektor (e. assistant professor) í UC Santa Cruz í Kaliforníu. Skessuhorn heyrði í Elínu og ræddi við hana um lífið í Bandaríkjunum.

Elín er dóttir Bryndísar Bragadóttur og Carstens Kristinssonar. Hún er alin upp á miklu listaheimili á Akranesi, og lærði að spila að bæði píanó og harmonikku. Hún æfði sund í mörg ár, synti fyrir ÍA og hafði mjög gaman af því. Eftir fjölbrautaskóla ákvað hún að setja meiri einbeitingu í námið og hætti í tónlistarnáminu. Áður hafði sundið verið lagt til hliðar. „Ég var  alltaf að lesa og alltaf á bókasafninu,“ segir Elín.

 

Áhugi á gervigreind

„Eins fyndið og það er þá hafði ég alltaf meiri áhuga á bókmenntum og heimspeki en raungreinum. En ég hafði líka mikinn áhuga á gervigreind sem er ástæðan fyrir að ég fór í tölvunarfræði, mig langaði að læra meira um það. Ég var mátulega áhugasöm um forritun og tæknilega hluta námsins en fannst mikilvægt að læra það líka svo ég gæti lært meira um gervigreind og skilið hana betur,“ segir Elín.

Hún segist í raun hafa fundið fleiri heimspekileg og breiðari sjónarhorn á tölvunarfræðina í náminu í HR og það vakti áhuga hennar á frekara námi. „Það eru miklir möguleikar á því að skoða nýjar hliðar á alls konar fræðigreinum og listformum í gegnum gervigreind, sem hefur ekki verið mikið skoðað hingað til. Gagnvirkar sögur eru bara eitt dæmi. Mig langaði frekar að fara á ókannaðar slóðir heldur en að fara til dæmis í nám í bókmenntum til að skoða aftur kannaðar slóðir,“ útskýrir Elín.

Nánar er rætt við Elínu í Skessuhorni sem kom út í dag.

Vesturland slapp vel frá veðrinu

Miðv.d., 11/12/2019 - 10:54

Aftakaveður gekk yfir landið í gær og gengur enn yfir landið í dag, en spáð hafði verið mesta óveðri síðustu ára. Víða um land varð mikið eignatjón og björgunarsveitir sinntu meira en tvö hundruð útköllum í gær og í nótt. Versta veðrið er nú gengið niður hér um vestanvert landið en slæmt veður er fyrir austan.

Veðrið byrjaði að versna vestanlands síðdegis í gær og fór versnandi með kvöldinu. Skólahald raskaðist víða vegna veðurs, verslunum var lokað fyrr sem og allmörgum vinnustöðum. Voru viðbragðsaðilar í startholunum áður en veðrið skall á.

Færð spilltist mjög víða. Lokað var um Kjalarnes, Hafnarfjall, Bröttubrekku, Fróðárheiði og Holtavörðuheiði og ófært var frá Borgarnesi í Norðurárdal og á sunnanverðu Snæfellsnesi, svo fáein dæmi séu nefnd.

Veðrið tók síðan að ganga niður í nótt og undir morgun. Leiðirnar um Kjalarnes og Hafnarfjall hafa verið opnaðar að nýju og ekki er lengur ófært í Borgarfirði og á sunnanverðu Snæfellsnesi. Brattabrekka og Holtavörðuheiði eru þó enn lokaðar og Fróðárheiði er ófær.

Að sögn Ásmundar Kr. Ásmundssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á Vesturlandi, virðist óveðrið ekki hafa haft mikil áhrif í landshltuanum. „Við virðumst hafa sloppið einna best hér í þessum landshluta,“ segir Ásmundur Kr. Ásmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Skessuhorn. „Merkilegast fannst mér eftir nóttina að einhver náði að keyra of hratt og láta hraðamyndavél á þjóðveginum taka af sér mynd, í vitlausu veðri,“ segir hann.

Ásmundur segir lögreglu hafa fengið tilkynningu um lausar þakplötur og flasningar á húsi á Akranesi í morgun. Þá hafi fokið upp hurð í húsnæði Öldunnar og Rafta í Borgarnesi. Fyrst var talið að um innbrot væri að ræða, en þegar lögregla athugaði málið kom í ljós að hurðin hafði fokið upp. Þakplötur tóku að fjúka á húsi við Hafnarbraut á Akranesi í gær. Haft var samband við björgunarsveit sem kom og negldi plöturnar niður. Þá var tilkynnt um stórar lausar þakplötur í Álfalundi á Akranesi sem fólk hafði áhyggjur af að fykju á næstu hús. Verktaki kom á staðinn og fergdi plöturnar. Einnig barst lögreglu tilkynning um að slárnar sem notaðar eru til að loka Bröttubrekku væru farnar af veginum. Ekki er vitað hvers vegna, en líklegast er talið að þær hafi einfaldlega fokið, að sögn lögreglu.

„Að vera slökkviliðsstjóri er gríðarlegt ábyrgðarstarf“

Miðv.d., 11/12/2019 - 10:00

– segir Þráinn Ólafsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar

 

„Ég var skipaður í Slökkvilið Akraness af bæjaryfirvöldum árið 1974 en tók við starfi slökkviliðsstjóra í september 2005, eftir skyndilegt fráfall Guðlaugs Þórðarsonar, forvera míns í starfi,“ segir Þráinn Ólafsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar, í samtali við Skessuhorn.

Nú hillir undir starfslok Þráins. Hann er orðinn 67 ára gamall og stígur til hliðar á áramótum eftir hvorki fleiri né færri en 45 ár í slökkviliðinu og þar af 14 ár við stjórnvölinn.

„Að vera slökkviliðsstjóri er gríðarlegt ábyrgðarstarf,“ segir Þráinn og heldur áfram; „Slökkviliðsstjóri ber ábyrgð á því gagnvart bæjarstjórn að staðið sé við lög og reglur um allt sem viðkemur slökkvistarfi, brunavörnum, eldvarnaeftirliti, mengunarvörnum og fleiru,“ segir hann. „Honum ber skylda til að hafa eftirlit með brunavörnum á starfssvæðinu og koma á framfæri athugasemdum um það sem þarf að laga. Þá hefur slökkviliðsstjóri rækt þær skyldur sínar. Hann ber einnig ábyrgð á menntun sinna slökkviliðsmanna og öryggi þeirra á vettvangi þegar farið er í útkall,“ nefnir Þráinn sem dæmi.

„Núna er ný brunavarnaáætlun til umfjöllunar hjá bæjaryfirvöldum. Hún er mjög ítarleg og samhliða henni er gerð viðbragðsáætlun. Slökkviliðsstjóri kemur að allri þeirri vinnu. Eldvarnareftirlitið er líka mjög umfangsmikið. Á starfssvæði Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar eru margir staðir sem þarf að hafa reglulegt eftirlit með. Hér eru þrír grunnskólar, fimm leikskólar, sjúkrahús og stórt dvalarheimili, mörg samkomuhús og gististaðir, að ógleymdu stóriðjusvæðinu á Grundartanga, olíubirgðastöðinni í Hvalfirði og auðvitað Hvalfjarðargöngum. Fjölmargir staðir sem þarf að heimsækja reglulega og skila skýrslu um,“ segir slökkviliðsstjórinn. „Þess utan annast slökkviliðið mengunarvarnir og aðstoð við fólk sem er klemmt inni í bílflökum, sem er töluvert umfangsmikið verkefni líka,“ bætir hann við. „Það má ekkert fara úrskeiðis í starfi slökkviliðsstjórans. Ef eitthvað misferst getur það stofnað lífi og heilsu fólks í hættu.“

Nánar er rætt við Þráinn í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.

Ekki var það Stekkjastaur

Miðv.d., 11/12/2019 - 09:01

Lögreglunni á Vesturlandi barst tilkynning frá ökumanni rétt fyrir kl. 3:00 aðfaranótt þriðjudags. Kvaðst hann vera hræddur við að mæta ökumanni sem kom á móti honum á vespu við hringtorgið inn á Akranes. Aðilinn á vespunni stöðvaði nokkuð fjarri ökumanninum sem hringdi inn tilkynninguna og var þar með ruslapoka fullan af alls kyns jólaskrauti.

Ekki var þetta þó Stekkjastaur að koma fyrr til byggða heldur reyndist þetta vera maður sem var að sækja ruslapoka sem hann hafði einhverra hluta vegna skilið eftir þarna í vegkantinum. Eitthvað þótti ökumanni bílsins þetta undarlegt og sá ástæðu til að hafa samband við lögreglu.

Lögreglumenn á Akranesi fóru á vettvang og hittu manninn á vespunni. Kom á daginn að reyndist alveg ástæðulaust að óttast hann.

Jólablaðið í næstu viku

Miðv.d., 11/12/2019 - 08:01

Miðvikudaginn 18. desember kemur Jólablað Skessuhorns út. Það er stærsta blað ársins hjá útgáfunni og jafnframt síðasta tölublað ársins. Vegna umfangs eru lesendur hvattir til að senda efni tímanlega inn til birtingar, á netfangið skessuhorn@skessuhorn.is. Þarf það að berast í síðasta lagi föstudaginn 13. desember. Sömuleiðis þurfa auglýsingapantanir að berast fyrir sama tímafrest. Netfangið er: auglysingar@skessuhorn.is og síminn sem fyrr 433-5500. Fyrsta tölublað á nýju ári kemur svo út 8. janúar 2020.

Fjárhagsáætlun samþykkt í Snæfellsbæ

Miðv.d., 11/12/2019 - 06:00

Fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar fyrir árið 2020 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 5. desember. Þar kemur fram að útsvarsprósenta í Snæfellsbæ haldist óbreytt en breytingar vorur gerðar á álagningarprósentu fasteignagjalda. „Álagningarprósenta vatnsgjalds húseigna í A-flokki lækkar um 9% og álagningarprósenta fráveitugjalds húseigna í A-flokki lækkar um 6,25%. Þetta er gert til að koma til móts við íbúa Snæfellsbæjar þannig að heildarfasteignagjöld hækki ekki á milli ára þrátt fyrir hækkun á fasteignamati,“ segir í frétt á vef Snæfellsbæjar. Smávægileg hækkun varð á gjaldskrám í bæjarfélaginu. Fram kemur að bæjarstjórn ætli að halda áfram að veita góða þjónustu í sveitarfélaginu. „Styrkir til félagasamtaka hækka á árinu 2020 og verða 64.515.000,“ segir í fréttinni, en hæstu styrkirnir fara til íþrótta- og ungmennastarfs og mun Snæfellsbær áfram bjóða upp á frístundastyrk til tómstundastarfs ungmenna.

Fram kemur að um 18 milljónum verði varið í verkefnið Betri Snæfellsbær á árinu 2020. Það verkefni hófst á haustmánuðum 2019 þar sem íbúar komu með margar góðar tillögur að því sem mætti gera til að gera Snæfellsbæ enn betri og fer peningurinn í að koma hluta af þeim tillögum í framkvæmd. Á árinu 2020 er gert ráð fyrir miklum framkvæmdum í Snæfellsbæ og er gert ráð fyrir að fjárfestingar verði um 423 milljónir króna og þar af 195 milljónir hjá bæjarstjóði Snæfellsbæjar og 228 milljónir hjá hafnarsjóði. Stærsta framkvæmdin verður lengin Norðurgarðs í Ólafsvík.

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er góð og árið 2019 tókst að greiða upp lán og engin ný lán tekin á árinu, þrátt fyrir miklar framkvæmdir. „Ekki er gert ráð fyrir hækkun skulda á árinu 2020, sem er gott. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall Snæfellsbæjar fari ekki yfir 65% í A-hluta, en skv. sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfallið ekki fara yfir 150% og þá er Snæfellsbær vel innan marka,“ segir í fréttinni. Einnig kemur fram að Hafnarsjóður Snæfellsbæjar er vel rekinn. Miklar framkvæmdir á hans vegum eru framundan árið 2020, eins og áður hefur komið fram. „Hafnarsjóður er fjárhagslega vel stæður og skuldar engin langtímalán.“

Víða ófært eða lokað

Þri, 10/12/2019 - 18:34

Vegna aftakaveðurs sem nú gengur yfir hefur vegum í landshlutanum víða verið lokað, eða þeir ófærir.

Lokað er um Kjalarnes, Bröttubrekku, Fróðárheiði og Holtavörðuheiði. Þá er þjóðvegur 1 um norðanverðan Borgarfjörð ófær vegna óveðurs. Þröskuldum hefur einnig verið lokað og þá er ófært um bæði Hjallaháls og Klettsháls. Snjóþekja eða hálka er á nánast öllum öðrum vegarköflum í landshlutanum, sem ekki eru ófærir eða lokaðir vegna veðurs, eins og sést ef yfirlitskort Vegagerðarinnar er skoðað.

Stefnir í eitt mesta óveður sem gengið hefur yfir landið síðustu ár. Vart þarf að taka fram að fólki er ráðlagt að vera ekki á ferðinni. „Aftakaveður gengur nú yfir landið. Fylgist vel með viðvörunum og veðurspám,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Club 71 afhentu Kristni Jens styrk

Þri, 10/12/2019 - 15:13

Árlegur jólafundur hjá félögum í Club 71 á Akranesi var nýlega haldinn, en Club71 samanstendur af Skagmönnum sem flestir eru fæddir árið 1971. Hópurinn reynir að láta gott af sér leiða með að halda menningarviðburði og safna styrkjum til góðra málefna tengdum Akranesi. Stærsti viðburðurinn sem hópurinn heldur ár hvert er Þorrablót Skagamanna sem haldið er í samvinnu við dömurnar í árgangnum. Ágóði þorrablótsins hefur runnið til íþrótta- og góðgerðamála á hverju ári og hefur upphæðin verið rúmlega þrjár milljónir.

Á jólafundi Club71 að þessu sinni voru tveir heiðursgestir, annars vegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem kom og hélt stórskemmtilega hátíðarræðu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Club71. „Við þetta tækifæri afhenti klúbburinn smávægilegan styrk til hins heiðursgestsins, Kristins Jens Kristinssonar (Kidda), Skagamanns sem hefur undanfarið barist við illvíg þrálát veikindi,“ segir í tilkynningunni.

Svartolía bönnuð í landhelgi Íslands

Þri, 10/12/2019 - 13:09

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir reglugerð um hertar kröfur um notkun eldsneytis í íslenskri landhelgi, sem í raun reynd bannar notkun svartolíu innan hennar. Bann við notkun svartolíu í landhelgi Íslands er liður í því að framfylgja aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

Svartolía er í raun samheiti yfir þungar og seigar olíur sem hafa ákveðna eiginleika og geta innihaldið hátt hlutfall brennisteins. Svartolía meðal annars notuð í skipasiglinum og mengar meira en annað eldsneyti, að því er fram kemur í tilkynningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þegar hún brennur losnar mikið af sóti út í andrúmsloftið. „Með þeim breytingum sem ég hef skrifað undir verður Ísland með einar ströngustu kröfur í heimi hvað varðar svartolíu,“ segir Guðmundur Ingi. „Sambærilegar kröfur munu gilda um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti í íslenskri landhelgi og nú gilda á svokölluðum ECA-svæðum í Eystrasalti og Norðursjó þar sem kröfurnar eru strangastar. Þar er um ákveðin svæði að ræða en hér á landi látum við reglurnar ná til allrar landhelginnar,“ segir ráðherrann.

Auk ætlaðs ávinnings fyrir loftslagið er breytingunni einnig ætlað að stuðla að betri loftgæðum við strendur landsins og hvetja til notkunar á loftslagsvænni orkugjöfum í siglingum. Með breytingunni verður leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti á Íslandi aðeins 0,1% innan landhelginnar og á innsævi. Í dag er leyfilegt innihald 3,5%.

Breytingar þessar taka gildi á áramótum og sama dag taka þær gildi innan mengunarlögsögunnar. Utan landhelginnar mun brennisteins innihald í skipaeldsneyti lækka niður í 0,5%, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

Brennisteinsinnihald í svartolíu sem markaðsett var hér á landi árið 2017 var á bilinu 0,64 til 1,94%, en meðaltal á heimsvísu var 2,59%, skv. gögnum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Breytingarnar hafa því í för með sér að notkun svartolíu í íslenskri landhelgi er útilokuð, nema skip noti viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun brennisteinsdíoxíðs.

Heimild er veitt til 1. september 2020 til að klára ónýttar birgðir af skipaeldsneyti með hærri brennisteinsinnihaldi sem eru til staðar í brennsluolíutönkum skipa þegar reglugerðin tekur gildi. Þó er skilyrði fyrir því er að útgerð skips tilkynni Umhverfisstofnun fyrir 1. janúar um hvert það skip sem nýta skal heimild fyrir og hvert uppsafnað magn eldsneytis á tönkum skipanna er.

Dreifing á Skessuhorni gæti frestast vegna veðurs

Þri, 10/12/2019 - 11:22

Útlit er fyrir aftakaveður á landinu öllu í dag og fram á morgun, eins og kunnugt er og búist er við lokunum á vegum. Landið vestanvert er þar engin undantekning.

Vegna veðurs er má reikna með að ekki verði hægt að sækja Skessuhorn í prentsmiðju Landsprents í kvöld eins og venja er á þriðjudögum. Verður blaðið þess í stað sótt um leið og veðrið gengur niður á morgun, miðvikudag. Því má búast við að dreifing á blaðinu til áskrifenda fresist af þessum sökum.

Skessuhorn biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem af þessu kunna að skapast.

Óvissustig vegna aftakaveðurs

Þri, 10/12/2019 - 10:45

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi í landinu vegna þess aftakaveðurs sem spáð er að gangi yfir landið í dag og þangað til í fyrramálið. Ákvörðunin er tekin í samráði við alla lögreglustjóra í landinu og í samræmi við veðurspá Veðurstofu. „Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað. Samráð á milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar er aukið,“ segir í tilkynningu á vef Almannavarna.

Þá hefur verið lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi. Búist er við því að snjóflóðahætta geti skapast í fjalllendi í Skagafirði, Tröllaskaga og austur fyrir Eyjafjörð, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Landsmönnum er bent á að fylgjast með frekari upplýsingum á Facebook-síðu almannavarna, veðurspá www.vedur.is, færð á vef Vegagerðarinnar og upplýsingum á textavarpinu.

Jólamorgunstund í Brekkubæjarskóla

Þri, 10/12/2019 - 10:24

Löng hefð er fyrir því að nemendur í Brekkubæjarskóla á Akranesi haldi nokkrar morgunstundir á hverju skólaári og þar af er ein jólamorgunstund sem haldin var síðastliðinn föstudagsmorgun. „Líkt og venjulega sáu nemendur um öll skemmtiatriði og þau léku undir öllum söng,“ segir Hjörvar Gunnarsson, kennari í Brekkubæjarskóla.

Að þessu sinni voru það nemendur í fyrsta, sjöunda og áttunda bekk sem fluttu atriði fyrir foreldra og aðra gesti sem komu til að njóta stundarinnar með nemendum. Auk þess sem húsbandið, skipað nemendum af unglingastigi, lék undir hópsöng. „Fyrsti bekkur söng Jólasveinninn kemur í kvöld, sjöundi bekkur söng Enn jólin og áttundi bekkur söng Ég hlakka svo til. Auk þess söng kór Brekkubæjarskóla lagið Dansaðu vindur. Það voru þær Heiðrún Hámundardóttir og Gunnhildur Vilhjálmsdóttir sem sáu um stjórn húsbands og kórs og höfðu umsjón með æfingum,“ segir Hjörvar og bætir því við að nemendur hafi einnig fengið afhentar viðurkenningar fyrir að iðka góðar dygðir á árinu. „Hefð er fyrir því að nemendur og starfsfólk endi á dansi og engin breyting var á því. Í lok Morgunstundar tóku allir upp hald og dönsuðu enskan vals,“ segir Hjörvar.

Síður