Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 28 mín 14 sek síðan

Tvö ný Akranesmet og fjöldi verðlauna

5 klukkutímar 59 mín síðan

Tvö Akranesmet í sundi féllu á Gullmóti KR sem haldið var í Laugardalslaug um helgina. Sundfélag Akraness sendi 31 sundmann til keppni. Þátttaka í mótinu var mjög góð þar sem yfir 490 keppendur af landinu öllu tóku þátt.

Enrique Snær Llorens setti nýtt Akranesmet í 200 m skriðsundi í flokki fullorðinna, en hann synti á tímanum 2.01,79 mín. Þar með bætti hann 15 ára gamalt met Gunnars Smára Jónbjörnssonar um rúma sekúndu. Guðbjarni Sigurþórsson setti nýtt met drengja í 50 m flugsundi á tímanum 30,42 sek. Bætti hann met Hrafns Traustasonar frá 2006 um tólf sekúndubrot.

Fjórir keppendur Sundfélags Akraness syntu sig inn í Superchallenge í 50 m flugsundi. Það voru Guðbjarni sem hafnaði í öðru sæti í 13-14 ára flokki og Víkingur Geirdal sem hafnaði í áttunda sæti. Ragnheiður Karen Ólafsdóttir og Guðbjörgu Bjartey Guðmundsdóttir syntu í Superchallenge í 15-17 ára flokki. Ragnheiður hafnaði í fimmta sæti og Guðbjörg í því sjöunda.

Lið Sundfélags Akraness sigraði í boðsundi í flokki pilta 13-14 ára. Liðið skipuðu Víkingur, Guðbjarni, Bjarni Snær Skarphéðinsson og Mateuz Kuptel.

Í flokki 13-14 ára stúlkna varð boðsundsveitin í þriðja sæti sæti í báðum sundum sínum, en hana skipuðu þær Íris Arna Ingvarsdóttir, Auður María Lárusdóttur, Karen Káradóttir og Aldís Thea Daníelsdóttir Glad.

Boðsundsveit stúlkna 15 ára og eldri vann til tveggja bronsverðlauna, en þá sveit skipuðu þær Lára Jakobína Ringsted, Guðbjörg Bjartey Lárusdóttir, Ragnheiður Karen Ólafsdóttir og Svava Magnúsardóttir.

„Sundmenn frá SA stóðu sig gríðarlega vel og bættu sig mjög mikið yfir helgina og margir sundmenn að stíga sín fyrstu skref á svona stóru móti í 50 m laug. Allir krakkar 10 ára og yngri fengu þátttökuverðlaun fyrir sína frábæru frammistöðu,“ segir í tilkynningu frá sundfélaginu.

Samið við meistaraflokk

8 klukkutímar 6 mín síðan

Mánudaginn 10. febrúar síðastliðinn var í fyrsta skipti í sögu Fimleikafélags Akraness undirritaður samningur við iðkendur meistaraflokks félagsins, en um er að ræða iðkendur 18 ára og eldri. Í þeim hópi eru þær Aþena Ósk Eiríksdóttir, Harpa Rós Bjarkadóttir, Marín Birta Sveinbjörnsdóttir, Sóley Brynjarsdóttir, Sylvía Mist Bjarnadóttir, Valdís Eva Ingadóttir og Ylfa Claxton. Það voru þær Friðbjörg Eyrún Sigvaldadóttir, formaður FIMA og Þórdís Þráinsdóttir yfirþjálfari sem skrifuðu undir samninginn fyrir hönd fimleikafélagsins. „Félagið er virkilega stolft af því að hafa þessar ungu og efnilegu stelpur í okkar hópi og með þennan áfanga í sögu félagsins,“ segir í frétt á vef FIMA.

Þá má geta þess að meistaraflokkur FIMA keppti á GK mótinu á Selfossi um liðna helgi og hafnaði þar í þriðja sæti. Fimleikafélag Akraness er eitt af þremur félögum landsins sem á meistaraflokk í A deild.

Mikið tjón á Þórisstöðum í óveðrinu

8 klukkutímar 52 mín síðan

Mikið tjón varð á bænum Þórisstöðum í Svínadal í óveðrinu síðastliðinn föstudag. Í sumarhúsabyggð ofan við bæinn fauk eitt sumarhús og dreifðist brak úr því um hlíðina. Niður við bæinn er stöðuhýsabyggð þar sem mikið tjón varð á hjólhýsum og bílum sem þar voru. Að sögn Jóns Valgeirs Pálssonar staðarhaldara varð tjón á alls sjö hjólhýsum og ferðavögnum sem þar stóðu. Yfirbygging á einu hjólhýsinu hreinlega splundraðist af grindinni og féll brakið á önnur ferðahýsi og stórskemmdi þau. Gler brotnaði í rútu, bíll fauk á hliðina og þakplötur fuku af hlöðuþaki. Jón Valgeir segir tjónið því verulegt. Mildi þykir að enginn slasaðist í veðurofsanum.

Þrír dómar vegna vörslusviptingar sauðfjár og innheimtu gjalda við slátrun

10 klukkutímar 6 mín síðan

Að undanförnu hafa þrír dómar fallið, í þremur héraðsdómum, er varða störf Matvælastofnunar. Annars vegar dómur um skaðabótaskyldu stofnunarinnar vegna vörslusviptingar sem fór fram á sauðfé og hins vegar tveir dómar í málum sem sláturleyfishafi höfðaði vegna innheimtu gjalda við kjötmat og heilbrigðisskoðun með slátrun. Eftirfarandi frétt byggir á fréttatilkynningu frá Matvælastofnun:

Vörslusvipting sauðfjár

„Gerð var krafa um skaðabætur að fjárhæð 12,5 milljóna króna auk dráttarvaxta vegna vörslusviptingar á sauðfé sem Matvælastofnun framkvæmdi haustið 2014. Stofnunin hafði um nokkurt skeið, eða allt frá vori 2013, viðhaft sérstakt eftirlit vegna ófullnægjandi aðbúnaðar. Þannig voru hús opin og ófrágengin, gólf blaut og skítug, brynning ófullnægjandi og lýsingu áfátt. Þá voru sumir gripir vanfóðraðir. Þegar ljóst var að úrbætur höfðu ekki verið gerðar vorið 2014 gaf stofnunin umráðamanni viðbótarfrest til haustsins 2014 til að ljúka úrbótum. Þegar úrbætur höfðu ekki verið gerðar um haustið tók stofnunin féð í sína vörslu og flutti í kjölfarið í sláturhús. Taldi stofnunin að fóðrun, brynning og aðbúnaður fjárins væru ófullnægjandi og ekki hefði verið hægt að una við slíkt áfram. Umráðamenn fjárins töldu að stofnunin hefði farið offari og kröfðust skaðabóta.

Héraðsdómur féllst ekki á skaðabótakröfu vegna fjárhagstjóns. Taldi dómari matsgerð sem var lögð fram við rekstur málsins ekki skapa grundvöll að bótakröfum vegna fjárhagstjóns og að veigamiklar vísbendingar væru um að framlegð af búskapnum hefði í raun verið neikvæð í efnahagslegu tilliti. Hins vegar var íslenska ríkinu gert að greiða tveimur umráðamönnum fjárins 1,5 milljón króna hvorum í miskabætur. Taldi dómurinn að þótt fullt tilefni hefði verið til að fylgjast grannt með búfjárhaldinu og fylgja eftir athugasemdum og að frestir hefðu verið eðlilegir, þá séu heimildir stofnunarinnar til að láta aflífa dýr, sem stofnunin hafi umráð yfir vegna vörslusviptingar, háðar því að hvorki stofnuninni né eiganda takist að finna viðeigandi aðstæður eða aðbúnað fyrir dýrin. Stofnunin hafi að mati dómsins verið búin að taka ákvörðun um slátrun áður en vörslusvipting gripanna fór fram. Þannig hafi tímasetning vörslusviptingar verið miðuð við það að stofnunin hefði vörslur fjárins í lágmarkstíma áður en því væri ráðstafað til slátrunar í tæka tíð áður en sauðfjárslátrun lyki það haustið. Aðgerðin hafi því ekki verið í samræmi við ákvæði um vörslusviptingu og meðalhóf. Þá hafi skammt verið eftir af framkvæmdatíma við fjárhús þannig að knýja hefði mátt fram verklok eða að minnsta kosti gefa umráðamönnunum frekari frest  á eigin ábyrgð og kostnað til að ljúka byggingunni þó vörslusvipting hefði farið fram. Það hefði verið í betra samræmi við skyldur stofnunarinnar til meðalhófs. Málskostnaður milli aðila var felldur niður.

Innheimta gjalda vegna heilbrigðisskoðunar í sláturhúsum

Gerð var krafa um endurgreiðslu að fjárhæð tæplega 109 milljóna króna auk vaxta og dráttarvaxta vegna eftirlitsgjalds sem lagt var á sláturleyfishafa árin 2014 til 2018 skv. þágildandi lögum nr. 96/1997 og gjaldskrá Matvælastofnunar. Álagning eftirlitsgjaldsins var byggð á kostnaði stofnunarinnar við daglegt lögbundið heilbrigðiseftirlit dýralækna.

Héraðsdómur sýknaði íslenska ríkið og taldi að túlkun sláturleyfishafans á hugtakinu „raunkostnaður“ væri of þröng og líta megi til kostnaðar sem almennt hljótist af því að veita umrædda þjónustu og innheimta þjónustugjald samkvæmt því. Ekki var talið að setning gjaldsins í gjaldskrá stofnunarinnar hafi verið óforsvaranleg m.t.t. áskilnaðar laganna. Þá hafi legið fyrir ítarleg gögn um útreikninga raunkostnaðar hjá sláturleyfishafanum og hann hafi ekki getað hrakið þá útreikninga, né heldur að þeir kostnaðarliðir sem lágu fyrir ættu ekki við. Taldi dómurinn að gjaldið væri í öllu falli ekki hærra en útreikningar stofnunarinnar. Málskostnaður milli aðila var felldur niður.

Innheimta gjalda vegna kjötmats

Gerð var krafa um endurgreiðslu að fjárhæð rúmra 9 milljón króna auk vaxta og dráttarvaxta vegna álagningar við yfirmat hjá sláturleyfishafa á árunum 2014 til 2018. Í málinu var deilt um eðli gjaldtökunnar skv. 16. gr. þágildandi laga nr. 96/1997. Álagning gjaldsins var byggð á því að sérstaklega væri tilgreint í lagaákvæðinu hverjir væru gjaldskyldir, þ.e. sláturleyfishafar, við hvað gjaldið miðist, þ.e. innvegið magn kjöts í sláturhúsi og hver fjárhæð gjaldsins sé. Matvælastofnun væri þannig ekki falin ákvörðun um meginatriði innheimtunnar.

Niðurstaða héraðsdóms var að næg rök væru fyrir því að um gilda lagaheimild til skattlagningar, sbr. 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, væri að ræða og sýknaði íslenska ríkið af kröfu sláturleyfishafans. Málskostnaður milli aðila var felldur niður.“

„Ekki liggur fyrir hvort þessum málum verði áfrýjað en stofnunin mun fara yfir forsendur fyrst nefnda málsins með Ríkislögmanni og meta framhald þess máls,“ segir í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Borgfirskir þjálfarar á verðlaunapalli

11 klukkutímar 20 mín síðan

Úrslit Geysisbikars karla og kvenna í körfuknattleik fóru eins og kunnugt er fram á laugardaginn. Karlalið Stjörnunnar og kvennalið Skallagríms hömpuðu bikar, Stjarnan eftir sigur á Grindavík og Skallagrímur á KR. Heiðar Lind Hansson sagnfræðingur og grúskari benti á áhugaverða staðreynd: „Það er skemmtileg staðreynd að þjálfarar karlaliðs Stjörnunnar og kvennaliðs Skallagríms, sem hömpuðu Bikarameistaratitlum í Laugardalshöllinni, eru allir úr Borgarfirði! Arnar Guðjónsson aðalþjálfari Stjörnunnar er úr Reykholtsdalnum, Hörður Unnsteinsson aðstoðarþjálfari Stjörnunnar er frá Borgarnesi líkt og Guðrún Ósk Ámundadóttir aðalþjálfari Skallagríms og Atli Aðalsteinsson aðstoðarþjálfari Skallagríms sem einnig eru úr Nesinu,“ skrifaði Heiðar Lind sem óskar sigurvegurunum innilega til hamingju.

Arnar og Hörður.

Síðustu sprengingarnar í dag og á morgun

12 klukkutímar 6 mín síðan

Að undanförnu hefur Borgarverk ehf. þurft að sprengja vegna fyrirhugaðrar gatnagerðar nýrrar götu sem nefnist Sóleyjarklettur, suðaustan við kaupfélagið við Egilsholt í Borgarnesi. Fyrir hverja sprengingu hefur verið gefið hljóðmerki.  Í tilkynningu frá Borgarbyggð segir að íbúar eru beðnir velvirðingar á þeim óþægindum sem sprengingarnar kunna að valda. Síðustu sprengingar vegna framkvæmdarinnar verða í dag, 17. febrúar klukkan 11 og 16 og á morgun 18. febrúar á sama tíma.

Gera klárt fyrir nýtt gólfefni á Æðarodda

14 klukkutímar 6 mín síðan

Félagar í hestamannafélaginu Dreyra á Akranesi standa í stórræðum þessa dagana. Síðastliðinn laugardag var gamalt parket á gólfi félagsheimilins á Æðarodda tekið upp og um næstu helgi verður lagt nýtt parket á um 140 fermetra. Starfsemi er mikil í félagsheimilinu, bæði á vegum hestamanna sjálfra en einnig er talsvert um útlán á húsinu fyrir veislur og mannfagnaði.

Banaslys á Akranesi

sun, 16/02/2020 - 14:19

Kona á fertugsaldri lést á Akranesi síðastliðinn fimmtudag. Féll hún úr stiga og er talið að hún hafi lent á höfðinu.

Fréttavefur Ríkisútvarpsins greinir frá.

 

 

Skallagrímskonur eru bikarmeistarar

lau, 15/02/2020 - 20:44

Geysisbikar kvenna verður í Borgarnesi næsta árið hið minnsta, eftir magnaðan sigur Skallagrímskvenna á KR í úrslitaleiknum sem lauk nú í kvöld, 66-49. Skallagrímur er því bikarmeistari í körfuknattleik í fyrsta skipti og er þetta fyrsti stóri titill félagsins frá því Borgnesingar urðu Íslandsmeistarar kvenna árið 1964.

Vörnin vinnur titla

Grunninn að sigrinum lögðu Skallagrímskonur á eigin vallarhelmingi. Þær léku frábæra vörn allan leikinn og héldu sterku liði KR undir 50 stigum, eitthvað sem engu liði hefur tekist að gera í vetur, hvorki í deild né bikar.

Spennustigið var hátt og lítið skorað framan af leiknum, en mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. KR leiddi 11-13 eftir fyrsta leikhltuann og leikurinn var í járnum í öðrum fjórðungi. Skallagrímskonur náðu undirtökunum undir lok fyrri hálfleiksins og leiddu með þremur stigum í hléinu eftir að hafa sett niður flautuþrist úr horninu, 27-24.

Skallagrímskonur skoruðu fyrstu sjö stig síðari hálfleiksins og náðu þar með tíu stiga forystu. Vesturbæjarliðinu gekk illa að fóta sig í sókninni gegn sterkri vörn Borgnesinga, sem héldu þeim í tíu stigum í þriðja leikhluta. Þær náðu þó smá rispu og minnkuðu muninn í fjögur stig, en Skallagrímskonur svöruðu og gott betur en það. Þær enduðu þriðja leikhlutann á mjög góðum kafla og stóðu með pálmann í höndunum fyrir lokafjórðunginn, ellefu stigum yfir, 45-34.

Skallagrímskonur stigu ekki feilspor í lokaleikhlutanum. Þær léku góða vörn og gekk vel í sókninni. Þegar skammt var eftir af leiknum voru þær komnar 21 stigi yfir og sigurinn í höfn. KR-ingar löguðu stöðuna aðeins undir lokin en það breytti engu um úrslitin. Skallagrímskonur eru bikarmeistarar kvenna í körfuknattleik 2020!

Keira maður leiksins

Keira Robinson tók stjórn leiksins í sínar hendur í síðari hálfleik og var valin mikilvægasti leikmaður úrslitaleiksins. Hún skoraði 32 stig fyrir Skallagrím og tók ellefu fráköst. Mathilde Colding-Poulsen skoraði ellefu stig, Emilie Hesseldal skoraði tíu stig og tók átta fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með níu stig og 14 fráköst og Maja Michalska skoraði fjögur stig.

Danielle Rodriguez var atkvæðamest í liði KR með 22 stig og sjö fráköst. Hólmarinn Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði tíu stig og tók sjö fráköst, Unnur Tara Jónsdóttir var með sjö stig og sex fráköst, Sanja Orozovic skoraði fjögur stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar og þær Sóllilja Bjarnadóttir, Perla Jóhannsdóttir og Þóra Birna Ingvarsdóttir skoruðu tvö stig hver.

 

„Bikarinn yfir brúna“

Guðrún Ósk Ámundadóttir, þjálfari Skallagríms, var að vonum ánægð með leik sinna kvenna þegar Skessuhorn ræddi við hana rétt eftir að bikarinn fór á loft. Hún sagði tilfinninguna að verða bikarmeistari með Skallagrími afar góða. „Þetta er geggjuð tilfinning, sérstaklega góð tilfinning að ná að gera þetta fyrir heimabæinn sinn,“ sagði Guðrún að leik loknum. Blaðamaður hafði orð á því að Skallagrímur hefði leikið afar vel í leik dagsins. Þjálfarinn mótmælti því ekki og kvaðst afar ánægð með frammistöðu liðsins. „Ég er með svakalega einbeitta leikmenn og atvinnumenn í mínu liði sem eru forréttindi. Markmiðið var að halda í við þær fram að hálfleik og byrja mjög sterkt í þriðja leikhluta. Sem tókst og við gáfum svo bara í í þeim fjórða,“ segir hún. „Nú tökum við bikarinn yfir brúna og það verður fagnað í kvöld,“ segir Guðrún Ósk ánægð að endingu.

Bikarinn á leiðinni í Borgarnes!

lau, 15/02/2020 - 18:10

Kvennalið Skallagríms var rétt í þessu að landa sigri í úrslitaleik Geysisbikarsins í körfubolta 2020. Báru stelpurnar sigurorð af KR með stigatölunni 66-49. Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik, en í upphafi þess síðari sigldu Borgnesingar framúr og litu aldrei til baka, sömuleiðis sá KR liðið ekki til sólar. Bikarinn er því á leið í Borgarnes í fyrsta skipti, en síðasti stóri titill meistaraflokks var árið 1964 þegar liðið varð Íslandsmeistari. Því er von á gríðarlegum fagnaðarlátum í Borgarnesi í kvöld, en þannig hittir á að Þorrablót Skallagríms er einmitt haldið í Hjálmakletti í kvöld.

Keira Robinson var valin maður leiksins, en hún setti 32 stig í leiknum. Sömuleiðis átti Sigrún Sjöfn Ámundadóttir fantagóðan leik, en hún hirti meðal annars 14 fráköst og stjórnaði leiknum af festu. Systir hennar Guðrún Ósk er þjálfari liðsins en saman hafa þær systur og fjölskylda þeirra lyft grettistaki fyrir kvennakörfuboltann í Borgarnesi á undanförnum árum.

Til hamingju Skallagrímur!

Hreinsa seltu af tengivirki á Brennimel

fös, 14/02/2020 - 21:01

Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar, ásamt Slökkviliði Borgarbyggðar, hafa í kvöld unnið við að hreinsa seltu af spennum í tengivirki Landsnets á Brennimel og einnig í tengivirkinu á Klafastöðum. Selta í tengivirkinu á Brennimel snemma í kvöld varð þess valdandi að rafmagnslínur leysti út og mikið högg kom á kerfi Landsnets og flökt kom á rafmagn víða um land. Straumlaust varð um tíma hjá Norðuráli og Elkem af þessum sökum. Aðstæður voru metnar þannig að nauðsynlegt væri að kalla slökkviliðin á svæðið til að hreinsa seltuna. Norðurál og Elkem eru að keyra upp rekstur eftir seltuhreinsunina, segir á síðu Landsnets nú rétt í þessu.

Heitavatnsdælum slær út og spara þarf vatn

fös, 14/02/2020 - 20:14

Miklar rafmagnstruflanir hafa verið á Vesturlandi undanfarna tíma. Þær valda því að dælur veitukerfa Veitna á suðurhluta Vesturlands slá sífellt út og starfsfólk Veitna situr við að slá þeim inn aftur. Þetta hefur áhrif á það magn sem hægt er að dæla af heitu vatni og nú er staðan á því þannig að loka þarf sundlaugunum á Akranesi og í Borgarnesi til að tryggja nægt heitt vatn til húshitunar. „Við vonum að þetta skapi ykkur ekki of mikil óþægindi,“ segir í tilkynningu frá Veitum.

Eignatjón og einn slasaður í óveðrinu

fös, 14/02/2020 - 14:06

Björgunarsveitir um landshlutann allan hafa staðið í ströngu frá því snemma í morgun, sem og aðrir viðbragðsaðilar. Að sögn lögreglu er mest um minniháttar eignatjón af völdum óveðrusins. Eitt slys er bókað í landshlutanum að sögn lögreglu. Maður féll fyrir utan bíl sinn á Kalmansvöllum á Akranesi kl. 6:50 og er líklega handleggsbrotinn. Lögregla var kölluð á vettvang ásamt sjúkrabíl, sem flutti manninn á sjúkrahús til aðhlynningar. Lögregla telur líklegt að maðurinn hafi fallið í rokinu með fyrrgreindum afleiðingum.

Hjólhýsi fauk og splundraðist við Þórisstaði í Svínadal rétt fyrir kl. 9:00 í morgun. Staðarhaldari þar var kominn ásamt fólki inn í golfskála eftir skjóli. Þakplötur fuku við gamla bæinn við Nýhöfn undir Hafnarfjalli. Þak fauk af verkfæraskúr við sumarhús í Svínadal um tíuleytið.

Á Akranesi hefur verið tilkynnt um ýmiss konar minniháttar eignatjón. Hurðir hafa fokið upp, þak hefur fokið af skúr, hluti af palli, tunnur og ýmislegt fleira smálegt fokið í rokinu. Þakplötur hafa verið að losna og þakkantar. Dæmi eru um að rúður hafi brotnað í bílum og einn fauk af stað snemma í morgun. Kom í ljós að gleymst hafði að setja hann í gír eða handbremsu. Var honum ýtt aftur í stæði og settur í gír og handbremsan fest. Þá losnaði klæðning af bensíndælu við eldsneytisstöð N1 á Akranesi. Lögregla fór um kl. 5:00 í morgun og festi stillansa sem voru farnir að hreyfast ásamt húsráðanda og smiðum, skömmu áður en óveðrið skall á.

Kaplar tóku að losna af gömlu mastri á lögreglustöðinni á Akranesi í rokinu. Að sögn lögreglu er mastrið ekki í notkun og þyrfti helst að taka það niður. Pottlok fauk af heitum potti á Akranesi. Eigandi gerði viðvart en veit ekki hvar lokið er niður komið. Þá fauk trampólín við Grundartún þar í bæ um tíuleytið í morgun. Tíðindamaður Skessuhorns sá enn fremur rútu á hliðinni við Höfðasel á Akranesi og brotnar rúður í félagsheimilinu í Æðarodda.

Í Borgarnesi voru björgunarsveitarmenn að festa niður grindverk, binda tunnur og brotna fánastöng. Gámur fauk af stað í Árdal í Borgarfirði og hafnaði úti í á. Hurð fauk af fjósi á Gunnlaugsstöðum í Stafholtstungum og þakgluggar fuku einnig. Þá var tilkynnt um þakplötur að fjúka á Fosshótel Stykkishólmi í morgun.

 

Undir áhrifum í brjáluðu veðri

Lögregla var kölluð að umferðaróhappi undir Akrafjalli í hádeginu í dag. Ökumaður hafði þar misst bíl sinn út af veginum. Eftir að lögregla kom á vettvang vaknaði grunur um að ástand ökumanns væri ekki í lagi. Er hann grunaður um ölvun við akstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og var handtekinn og færður á lögreglustöð. Lögregla vinnur nú í málinu.

 

Hótel Hafnarfjall til sölu

fös, 14/02/2020 - 14:01

Hótel Hafnarfjall hefur verið auglýst til sölu. Hótelið er sem kunnugt er staðsett við þjóðveg 1 skammt sunnan Borgarness. Alls er húsið 661 fermetri að stærð á tveimur hæðum með 22 herbergjum, 41 fermetra stúdíóíbúð, 50 manna veitingasal, eldhúsi, starfsmannaaðstöðu og öðru sem við kemur hótelrekstri. Fimm smáhýsi hafa verið reist við hótelið á síðustu árum. Ásett verð er 195 milljónir króna.

Myndin „Hvernig á að vera klassa drusla“ frumsýnd í byrjun apríl

fös, 14/02/2020 - 14:01

Gamamyndin „Hvernig á að vera klassa drusla“ eftir Ólöfu Birnu Torfadóttur verður frumsýnd 3. apríl í Smárabíói í Kópavogi. Þetta er fyrsta kvikmynd Ólafar í fullri lengd en áður hefur hún gert skemmtilegar stuttmyndir. Kvikmyndin er tekin upp í Hvalfjarðarsveit og á Akranesi og fjallar um tvær vinkonur sem ákveða að fara að vinna á sveitabæ yfir sumarið. Önnur vinkonan er þrælvön sveitastelpa en hin er algjört borgarbarn sem varla hefur farið út fyrir höfuðborgina. Borgarbarnið veit lítið um sveitastörfin og þegar hún hefur fengið nóg af því að vera aðhlátursefnið í sveitinni biður hún vinkonuna um að kenna sér að vera frakkari og láta álit annarra ekki hafa áhrif á sig. Það hefur í för með sér spaugilegar afleiðingar.

Sjá viðtal við Ólöfu Birnu í Skessuhorni vikunnar.

Öryggismyndavélar við alla stærri bæi

fös, 14/02/2020 - 13:01

Stefnt er að því að setja upp öryggismyndavélar við alla stærri þéttbýliskjarna í landshlutanum. Það er Lögreglan á Vesturlandi, sveitarfélögin í landshlutanum og Neyðarlínan sem vinna að verkefninu í sameiningu. Að sögn Jóns S. Ólasonar, yfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á Vesturlandi, hefur uppsetning slíkra myndavéla verið samþykkt á Akranesi, í Borgarbyggð og Stykkishólmi. Þá sé til athugunar að koma slíkum myndavélum fyrir víðar í landshlutanum, svo sem í Grundarfirði, Snæfellsbæ og jafnvel á enn öðrum stöðum.

„Um er að ræða myndavélar sem munu fylgjast með allri umferð sem fer framhjá þeim. Þær geta lesið á skráningarnúmer bifreiða og upptakan gengur bara inn í gagnabanka,“ segir Jón í samtali við Skessuhorn. Hann telur að myndavélarnar komi til með að styðja vel við allt almennt eftirlit lögreglu og auðvelda vinnu hennar. Myndavélar sem þessar hafi þegar verið settar upp á höfuðborgarsvæðinu og við bæi á Suðurlandi. „Þær hafa reynst mjög vel,“ segir Jón og tekur dæmi: „Ef bíl er stolið í Reykjavík og til hans hefur sést ekið í átt að Selfossi, þá getur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haft samband við kollegana sína á Selfossi. Þeir kíkja í myndavélarnar hjá sér og sjá strax hvort bíllinn hefur farið þar í gegn eða ekki,“ segir hann. En verða myndavélarnar þá settar upp við allar inn- og útgönguleiðir stærri þéttbýliskjarna landshlutans? „Það hefur ekki verið endanlega ákveðið en hugmyndin er að þær verði við allar leiðir inn og út úr bæjum,“ segir Jón.

„Aðeins ef þörf krefur“

Spurður um kostnaðinn sem af þessu mun hljótast segir Jón að áætlanir Neyðarlínu geri ráð fyrir að hver staur með myndavél komi til með að kosta um 1,5 milljón króna. Kostnaður við tengingar geti þó verið mismunandi eftir stöðum og bætist við stofnkostnaðinn. Þá sé misjafnt eftir bæjum hve margar vélar þurfi að setja upp á hverjum stað. „Sveitarfélögin kaupa vélarnar og bera kostnað af uppsetningu þeirra. Lögregla kaupir miðlægan búnað sem veitir aðgang að upplýsingunum sem myndavélarnar safna og Neyðarlínan annast framkvæmd við verkefnið,“ útskýrir hann.

En hvenær mega íbúar þessarra bæja búast við því að myndavélarnar verði settar upp? „Málið er lengst komið á Akranesi og styst í að vélarnar verði settar upp þar. En ég get ekki nefnt neina dagsetningu enn, það kemur bara í ljós hversu langan tíma þetta tekur,“ segir Jón og bætir því við að lokum að lögregla muni ekki fylgjast með vélunum frá degi til dags. „En ef eitthvað kemur upp á verður hægt að sækja upplýsingarnar,“ segir hann. „Aðeins lögregla mun hafa aðgang að þessum upplýsingum og einungis ef þörf krefur,“ segir Jón S. Ólason að endingu.

Stjórnvöld tryggi að ekki verði dregið úr snjómokstri

fös, 14/02/2020 - 11:01

Á fundi stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi í síðustu viku var rætt um snjómokstur á Vesturlandi og mikilvægi þess að ekki verði dregið úr mokstri þrátt fyrir að fjárveitingar hafi ekki tekið mið af þeim aðstæðum sem verið hafa í vetur. Stjórn SSV samþykkti bókun þess efnis:

„Stjórn SSV skorar á Vegagerðina og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að tryggja að ekki verið dregið úr snjómokstri og annarri vetrarþjónustu þrátt fyrir að aðstæður í vetur hafi leitt til þess að fjárveitingar til verkefnisins hafi ekki tekið mið af þeirri stöðu sem uppi er. Það væri algerlega óforsvaranlegt að ætla að skerða vetrarþjónustu þar sem greiðar samgöngur eru lífæð landsbyggðarinnar.“ Á fundi stjórnar SSV var sömuleiðis lögð fram umsögn SSV um samgönguáætlun 2020-2024, sem nú hefur verið send umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Sló í 71 metra á sekúndu við Hafnarfjall

fös, 14/02/2020 - 10:45

Býsna hvasst er nú um vestanvert landið samhliða því að skil lægðarinnar færast norðar. Nú á ellefta tímanum í morgun fór vindhraði í hviðum upp í 71 metra á sekúndu í sjálfvirka vindhraðamælinum við Hafnarfjall. Á meðfylgjandi mynd má sjá þróunina frá því veður tók að versna í gær. Gert er ráð fyrir að veður fari heldur að hægjast eftir hádegi í dag.

Skuldir Ísfisks metnar 160 milljónum króna umfram eignir

fös, 14/02/2020 - 10:01

Greint var frá því í síðustu viku að stjórn Ísfisks hf. hafði þá óskað eftir að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Héraðsdómur Vesturlands hefur samþykkt gjaldþrotaskipti og Ingi Tryggvason hdl. hefur verið skipaður skiptastjóri. Fram kemur í beiðni um skipti að eignir búsins eru taldar 627 milljónir króna en skuldir 788 milljónir og taldi skuldari útilokað að félagið gæti staðið í skilum með greiðslur. „Ljóst er eftir 39 ára samfellda starfsemi Ísfisks hf. að komið er að leiðarlokum. Ísfiskur hefur verið framleiðslufyrirtæki á fiski allan þennan tíma án þess að vera með útgerð eða kvóta,“ sagði í tilkynningu sem Albert Svavarsson framkvæmdastjóri sendi Skessuhorni fyrir hönd fyrirtækisins. Hjá fyrirtækinu störfuðu á Akranesi um fimmtíu manns þegar mest var og því ljóst að brottfall þess af sjónarsviðinu er mikið áfall fyrir atvinnulíf í bæjarfélaginu.

Ísfiskur var lengst af til húsa í Kársnesinu í Kópavogi en þurfti að rýma húsnæði sitt þar og selja vegna uppbyggingar íbúðabyggðar á þessum eftirsótta stað. Tekin var ákvörðun um flutning starfseminnar á Akranes 2017 eftir að skrifað hafði verið undir kaupsamning um hluta fiskvinnsluhúsa HB Granda við Bárugötu 8-10 á Akranesi. Ráðist var í flutninga, en þrátt fyrir mikla vinnu tókst ekki að ljúka fjármögnun húsnæðiskaupanna og fór svo að lokum að Ísfiskur hf. var lýstur gjaldþrota. „Stjórn Ísfisks er svekkt yfir þessum málalokum og harmar þau í ljósi stöðu atvinnulífs og þess umhverfis rekstrar sem stjórnvöld hafs sett okkur í um áratuga skeið. Reynt var í nokkra mánuði að loka fjármögnun á félaginu en út af stóð að það gekk ekki að fjármagna fasteignina á Akranesi. Leitað var til nokkurra aðila með það, en án árangurs,“ segir Albert í samtali við Skessuhorn. „Ísfiskur vill þakka starfsfólki sínu þolinmæði og samstöðu í okkar garð. Einnig bæjarstjórn á Akranesi, bæjarstóra og samfélaginu öllu sem tók okkur vel. Við hörmum að hafa brugðist ykkur,“ segir hann.

Fyrirtæki sem keypti á frjálsum markaði

Albert Svavarsson er að vonum vonsvikinn með að 39 ára samfelldri starfsemi Ísfisks hf. sé nú lokið. Rekur hann í samtali við Skessuhorn ástæður þess. „Ísfiskur hefur alla tíð verið framleiðslufyrirtæki á fiski án þess að vera með útgerð eða kvóta. Við höfum einkum sérhæft okkur í vinnslu á ýsu og selt inn á góðan markað, einkum í Ameríku. Starfsemina höfum við byggst á kaupum á fiski af fiskmörkuðum og eru markaðirnir nánast jafngamlir Ísfiski, hófu starfsemi fyrir nærri 35 árum. Ljóst er með gjaldþroti okkar að þar raðast upp enn eitt fyrirtækið sem hefur byggt sín kaup á fiski á frjálsum markaði. Við bætumst nú í stækkandi hóp fyrirtækja sem illa hefur farið fyrir og endað í þroti. Þar má nefna önnur millistór og stór fyrirtæki svo sem Toppfisk og Frostfisk,“ segir Albert.

Brot á samkeppnislögum?

Hann segir að í ljósi þess að fyrirtæki sem keypt hafi hráefni á mörkuðum fari nú í þrot þurfi að leita skýringa. Hvað brást – brugðust stjórnvöld? Þessa spurningu setur hann fram án þess þó að firra Ísfisk ábyrgð. Engu að síður séu þetta spurningar sem almenningur hafi rétt á að fá svör við. „Þessi fyrirtæki seldu öll afurðir inn á sterka og góða markaði. Sum hver á ferskfiskmarkaði sem þau byggðu upp sjálf með erlendum kaupendum. Þeir markaðir eru enn að kaupa fisk, en nú njóta aðrir framleiðendur þessarar uppbyggingar sem við höfum staðið fyrir. Ég fullyrði hins vegar að öll þessi fyrirtæki voru rekin af ráðdeild. Ljóst er að í tilfellum allra þessara fyrirtækja; Ísfisks sömuleiðis, er meginástæðan að okkar mati aðgerðaleysi stjórnvalda. Þau hafa ekki sinnt sínu hlutverki að skapa þessum fyrirtækjum eðlilegt og sanngjarnt rekstrarumhverfi. Stjórnvöld hafa valið að taka sér grófa stöðu á móti fyrirtækjum sem einungis eru í vinnslu og er það í mínum huga ófyrirgefanlegt og andstætt hagsmunum fyrirtækjanna og almennings. Mun þessi ákvörðun líklega einnig koma niður á starfsemi fiskmarkaða þegar fram líða stundir,“ segir Albert sem heldur því fram að þetta megi rekja til tómlætis íslenskra stjórnvalda. „Þetta skýrist af þeirri umgjörð sem ríkir um samkeppnismál og heimilaða tvöfalda verðmyndun á hráefni. Þrætuepli sem nú enn og aftur stendur styr um, samanber makrílumræðu og fleira. Þessi umræða verður ekki kveðin niður nema á þessu verði tekið með löggjöf. Það að stjórnvöld leyfi undirverðlagningu hráefnis, að þau verð fylgi ekki markaðslögmálum í eigin innri viðskiptum, er að okkar mati brot á samkeppnislögum. Allavega í löndum með þroskaða löggjöf um viðskipti sem víðast á við í hinum vestræna heimi.“

Líklega væri réttast að undirbúa málsókn

Albert segir að lönd þar sem svo vanþroskuð löggjöf sé við lýði kallist bananalýðveldi. „Til dæmis var tekið á þessum misbresti í Bandaríkjunum fyrir hundrað árum með svokölluðum Antitrust-lögum. Á undanförnum árum hefur verið lagt í margar ferðir til Samkeppniseftirlitsins til að knýja fram breytingar um málefnið, en án árangurs. Síðast birti eftirlitið álit árið 2012, fyrir ríflega sjö árum, þar sem stjórnvöld fengu ákúrur. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins þá var að þetta þyrfti að laga og lagði það meira að segja fram fjórar tillögur og ábendingar til sjávarútvegsráðherra sem hefðu dregið úr þessari mismunun. Ráðherrar málaflokksins hafa ekkert gert í því allan þennan tíma. Þetta álit má lesa á vef Samkeppniseftirlitsins. Á sama tíma hefur sú afleiðing komið fram, sem ég hef hér rakið. Fyrirtækin fara í gjaldþrot. Líklega væri réttast að eigendur þessara fyrirtækja og annarra sem verða fyrir barðinu á þessum ólögum að skoða skaðabótamálsókn á hendur hinu opinbera með hliðsjón að tómlætinu sem ríkið hefur sýnt.“

Bankar eiga sinn þátt einnig

Alberti segir þannig ljóst að rekstur fyrirtækja sem einungis stundi fiskvinnslu, en ekki útgerð, hafi að hluta staðið svona illa vegna þessarar stöðu í samkeppnismálum. „Hins vegar má rekja afdrif Ísfisks og fleiri fyrirtækja nú að einhverju leyti til afstöðu banka og fjármálastofnana til lánveitinga. Að einhverju leyti er afstaða banka skiljanleg í ljósi áður umgetinnar stöðu okkar þótt alhæfingar bankafólks séu kannski of miklar, enda þekking innan bankakerfisins ekki nægjanlega mikil á einstaka málum. Síðan ber að nefna að fyrirgreiðsla bankastofnana almennt á Íslandi er óáreiðanleg og enginn veit morgundaginn þegar kemur að slíkum ákvörðunum. Fólk getur skoðað sögu ísenskra banka þessa öld og velt fyrir sér hvílíkan rússíbana þeir hafa sent fyrirtæki í gegnum á þessum tveimur áratugum. Með óhóflegum og ómarkvissum lánveitingum og með forgöngu við ranga skráningu krónunnar, hvort tveggja fyrir hrun, og með því að skrúfa fyrirvaralítið fyrir lántökur til fjölda traustra fyrirtækja eins og virðist raunin þessa mánuðina. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra“

Viljum við ekki læra af öðrum þjóðum?

Albert segir að það að reka banka sé vandasamt, viðkvæmt og valdamikið hlutverk, sem menn hafi ekki náð að standa nægjanlega vel undir undanfarna tvo áratugi. „Uppbygging fyrirtækja með framtíðarsýn þarfnast banka að bakhjarli sem lánar byggt á þeim grunni að hann hafi ávallt getu til þess. Vont er að vera með banka sem bakhjarl sem að geta ekki lánað vegna eigin vandamála. Við slíkt er ekki hægt að una. Ljóst er að skaðinn sem bankar hafa skapað mörgum fyrirtækjum á síðustu 20 árum er mikill sé hann tekinn saman. Bönkum hefur mistekist við að hjálpa þessari þjóð að ná jafnvægi í efnahag og rekstri fyrirtækja. Umsögn Ragnars Önundarsonar í grein frá í síðustu viku um að bankar séu „innviðir“ eru orð að sönnu og þarft að líta til við ákvarðanir um umgjörð þeirra meðal annars eignarhald þeirra. Óhjákvæmilega hafa bankar ríka grunnskyldu. Ragnar nefnir einnig að Norðmenn séu búnir að komast að þessari niðurstöðu eftir slæma skelli. En kannski er málið að hvorki viljum við Íslendingar né getum lært af öðrum þjóðum? Við erum nú einu sinni bestir í heimi í svo mörgu, meðal annars sjávarútvegi,“ segir Albert.

 

Þrátt fyrir aukið hlutafé

Ísfiskur hf. hefur nú reynt í allmarga mánuði að endurfjármagna rekstur og eignir félagsins. „Okkur gekk þetta vel að hluta eins og gagnvart birgjum og Byggðastofnun. Þaðan kom góður meðbyr og skilningur og erum við þessum aðilum þakklátir fyrir það. Út af stóð þó að fjármagna kaup fasteignarinnar sem við keyptum við Bárugötu á Akranesi. Eftir umleitanir við núverandi lángjafa á húsinu, umræðu um það við fjóra banka sem og fleiri varð ljóst að það myndi ekki ganga. Það er ekki hægt að reka fyrirtækið án eðlilegrar lánafyrirgreiðslu vegna fasteigna og fastafjármuna. Því var ekki lengra hægt að halda þrátt fyrir að eigendur hafi ávallt og hingað til stutt félagið gríðarlega vel. Meira að segja betur en hægt var að ætlast til miðað það samkeppnisumhverfi sem við búum við. Við uppbyggingu og flutning Ísfisks á Akranes var hlutafé í félaginu aukið mikið. Voru eigendur tilbúnir að leggja enn meira fram við verkefnið ef gengi að ná fram eðlilegri heildarfjármögnun. En eins og áður sagði féll félagið þar sem þetta atriði náðist ekki í höfn. Því er tap eigenda og kröfuhafa verulegt. Það er því með sorg í hjarta og trega sem við gefumst upp,“ segir Albert.

 

Gangi ykkur vel!

Albert Svavarsson segir að eigendur Ísfisks hafi ákveðið að koma með fyrirtækið á Akranes þegar samfélagið þar var í sárum eftir að stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafði ákveðið að yfirgefa bæjarfélagið vegna hagræðingarástæðna. „Því voru miklar væntingar á Akranesi um okkar gengi, sérstaklega hjá fólkinu sem fékk þar vinnu eftir að hafa nýverið tapað henni hjá HB Granda. Fólk sem vildi, kunni og gat hugsað sér að vinna í fiski. Fólk sem nú bíður heima eftir atvinnu á meðan fiskurinn sem það hefði verið að vinna fer óunninn til Bretlands og er unninn þar. Viljum við taka fram að þetta fólk, starfsfólkið, á okkar þakkir skildar fyrir samstöðuna og þolinmæðina við að bíða eftir því hvort við fyndum lausn. Sama á við um þjónustuaðila á Akranesi sem urðu fyrir sama áfalli við brotthvarfið. Þeir tóku okkur sömuleiðis vel. Að lokum viljum við færa bæjarstjórn, verkalýðsfélaginu og bæjarstjóra sérstakar þakkir fyrir trúna á okkur og stuðninginn við að reyna að koma upp góðu vinnslufyrirtæki í bænum þótt það hafi mistekist. Það er ekki þeim að kenna og ekki okkur heldur. Stundum er sagt „veldur hver á heldur“. Það finnst okkur spurning í þessu tilfelli. Við lýsum miklum leiða og vonbrigðum með þessi málalok. Gangi ykkur vel, Skagamenn, um framtíð alla,“ segir Albert Svavarsson að endingu.

Bikarúrslitin bíða Skallagríms

fös, 14/02/2020 - 09:37

Skallagrímskonur mæta KR í úrslitaleik Geysisbikarsins á morgun, eftir frækinn sigur á Haukum, 86-79, í undanúrslitum bikarsins í gærkvöldi.

Skallagrímskonur mættu ákveðnar til leiks í Laugardalshöllinni og voru mun sterkara lið vallarins í upphafsfjórðungnum. Keira Robinson fór þar fremst í flokki, en hún skoraði 15 af 27 stigum Skallagríms í fyrsta leikhluta. Borgnesingar léku afar góða vörn í fyrsta leikhlutanum og samhliða góðum sóknarleik skilaði það þeim ellefu stiga forystu eftir fyrstu tíu mínútur leiksins, 27-16. Haukar gerðu hins vegar lítið annað en að safna villum í upphafsfjórðungnum, sem átti eftir að reynast þeim dýrkeypt síðar í leiknum.

Haukakonur voru þó ekkert á buxunum að leggja árar í bát. Þær gerðu áhlaup í öðrum leikhluta og tókst að minnka muninn í fimm stig þegar stutt var eftir af fyrri hálfleik, 41-36. Þá tóku Skallagrímskonur góða rispu og endurheimtu ellefu stiga forskot sitt með flautukörfu undir lok fyrri hálfleiks, 49-38.

Hafnfirðingar virkuðu staðráðnir í að vinna sig aftur inn í leikinn eftir hléið. Um miðjan þriðja leikhluta hafði liðið minnkað muninn í þrjú stig, en nær komust þær ekki. Þær voru komnar í villuvandræði, þar sem þrír byrjunarliðsmenn voru komnir með fjórar villur í þriðja leikhlutanum. Dró nokkuð af Haukum undir lok leikhlutans og Skallagrímskonur nýttu sér það. Með snörpum kafla tókst þeim að auka forystuna í níu stig, 66-57, fyrir lokafjórðunginn. Það bil náðu Hafnfirðingar aldrei að brúa og Skallagrímskonur unnu glæsilegan sigur, 86-79, eftir að hafa haft yfirhöndina nánast frá fyrstu mínútu.

Keira Robinson átti risaleik fyrir Skallagrím og skoraði 44 stig, tók fimm fráköst og stal fjórum boltum. Emilie Hesseldal var sömuleiðis frábær á báðum endum vallarins. Hún skoraði 27 stig, tók tíu fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal fimm boltum. Mathilde Colding-Poulsen skoraði sex stig og tók fimm fráköst, Maja Michalska skoraði sex stig einnig og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði þrjú stig og tók níu fráköst.

Þóra Kristín Jónsdóttir, fyrirliði Hauka, var atkvæðamest Hafnfirðinga með 22 stig og níu fráköst. Randi Brown skoraði 21 stig og gaf fimm stoðsendingar og Rósa Björk Pétursdóttir var með 13 stig og fimm fráköst.

Skallagrímur mætir KR í bikarúrsiltaleiknum á morgun, en KR-ingar sigruðu Val í hinum undanúrslitaleik gærdagsins. Bikarúrslitaleikurinn hefst kl. 16:30 í Laugardalshöllinni.

Síður