Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 7 mín 48 sek síðan

Samsýning kvenna með tengingu við Borgarfjörð

42 mín 43 sek síðan

Hvað þýðir sagan um Brák fyrir sjálfsmynd kvenna og hugmyndina um kvenleika á Íslandi? Þetta er ein af þeim spurningum sem velt er upp í samsýningu Elísabetar Haraldsdóttur, Hörpu Einarsdóttur, Ingibjargar Huldar Halldórsdóttur og Óskar Gunnlaugsdóttur í Safnahúsinu í Borgarnesi, sýningu sem einfaldlega hefur fengið titilinn Brák, eftir fóstru Egils Skallagrímssonar. Þar gefur að líta breitt svið listrænnar tjáningar; leirlist, stór akrýl- og vatnslitaverk, krosssaum, innsetningu og skúlptúr. Brák var uppi á 10. öld. En hún horfði eins og nútímakonan til fjallanna á Vesturlandi sem hafa ekkert breyst í tímanna rás.

Konur Íslendingasagnanna eru yfirleitt sjálfstæðar, megnugar og viljasterkar. Samt eru þær oft í fjötrum, ánauð, vegna þess að þær eru konur. En það syrtir í álinn ef konur eru líka þrælar, það er eins og tvöföld ánauð. Þetta gætu verið hugrenningarnar tengdar sögu Brákar.

Þrátt fyrir að erfitt sé að gera sér í hugarlund hvernig Brák hefur verið innanbrjósts, má vera að þræðir fortíðarinnar myndi tengingar til nútímakvenna á óbeinan hátt og veki okkur þess vegna til umhugsunar enn þann dag í dag. En ambáttin eins og hún birtist á sýningunni er auðvitað líka miklu meira en bara þessi ímynd – hún er styrkur, blíða, sorg og von og lætur engan ósnortinn.

Elísabet Haraldsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík, er búsett á Hvanneyri. Hún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Universität der Angewandte Kunst í Vínaborg auk þess að hafa kennsluréttindi frá LHÍ. Hún hefur tekið þátt í fjöldamörgum einka- og samsýningum bæði hérlendis og erlendis. Elísabet hefur verið í samstarfi um rekstur Gallerís Langbrókar og Gallerís Meistara Jakobs auk stundakennslu við Myndlista- og handíðaskólann og kennslu og skólastjórnun á Hvanneyri. Hún var menningarfulltrúi á Vesturlandi í 13 ár, samhliða þess að sinna leirlistinni.

Harpa Einarsdóttir er fædd og uppalin í Borgarnesi. Hún útskrifaðist sem fatahönnuður úr LHÍ árið 2005 og starfar sem listamaður undir nafninu Ziska. Hún hefur unnið við margvísleg skapandi verkefni í gegnum árin og haldið nokkrar einkasýningar á verkum sínum og tekið þátt í fjölda samstarfsverkefna og listahátíða. Harpa hefur einnig starfað við kvikmyndagerð og  búningahönnun en einbeitir sér nú alfarið að myndlist og hönnun fyrir MYRKA.

Ingibjörg Huld Halldórsdóttir er fædd og uppalin í Borgarnesi og Stafholtstungum. Hún lærði arkitektúr og skipulag í Lyon í Frakklandi og við Listaakademíuna í Kaupmannahöfn, en hefur einbeitt sér að listsköpun síðustu ár. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum einka- og samsýningum í Danmörku og hér heima. Ingibjörg vinnur með faldar eða bannaðar tilfinningar, skömm, misnotkun og fráhverfingu í myndverkum sínum.

Ósk Gunnlaugsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík með annan fótinn í Grímsnesinu. Hún lauk BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands og starfar nú sem myndlistakona í Reykjavík. Ósk vinnur með málverkið sem miðil á óhefðbundinn hátt. Blandar saman hefðbundnum burðarefnum málverksins og silkiprentsins. Leysir hörinn undan klöfum hins tvívíða forms blindrammans, stífar hann og mótar þar til hann verður að sínu eigin burðarvirki. Beygður, bugaður, beyglaður, kraminn, kreystur og knúsaður fær hörinn þrívítt form sem verður jafnvel að skúlptúr.

Opnun sýningarinnar verður á morgun, laugardaginn 23. nóvember klukkan 13.00.

-fréttatilkynning

Telur Play ætla að hefja starfsemi með undirboðum á vinnumarkaði

1 klukkutími 13 mín síðan

Á fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands nýverið var m.a. rætt um undirboð á markaði. Hið væntanlega flugfélag Play barst meðal annars í tal. Í pistli Drífu Snædal segir um málið: „Það þótti tíðindum sæta að nýtt flugfélag var stofnað hér á landi og fréttir berast af því að kostnaði verði haldið í lágmarki með öllum ráðum, m.a. með því að halda launum niðri. Fyrirtækið hefur ekki birt kjarasamning sem það þykist hafa gert um störf flugliða og fær fólk sem sækir um störf varla að vita kaup og kjör. Þær vísbendingar sem okkur hafa borist hníga í þá átt að greiða á grunnlaun langt undir því sem almennir kjarasamningar segja til um,“ skrifar Drífa. Hún hvetur fyrirtækið til að birta kjarasamninginn og leggja allt á borðið. „Ekki aðeins á fólk sem hyggst sækja um störf hjá Play rétt á þessari vitneskju heldur skiptir það okkur öll máli ef verið er að stunda undirboð á vinnumarkaði. Ég ætlast líka til þess að fjárfestar og þeir sem eiga í viðskiptum við fyrirtækið krefji það um þessar upplýsingar. Það verður ekki liðið að fyrirtæki starfi á íslenskum vinnumarkaði með undirboðum,“ skrifar Drífa Snædal forseti ASÍ.

Anna tilnefnd til Grammy verðlaunanna

2 klukkutímar 43 mín síðan

Tónskáldið Anna Þorvaldsdóttir úr Borgarnesi hefur verið tilnefnd til Grammy-verðlauna í flokknum Best Engineered Album, Classical, fyrir hljóðvinnslu fyrir plötuna Aequa. Tilnefningarnanr voru kynntar fyrr í vikunni. Auk hennar er önnur íslensk kona, Hildur Guðnadóttir tónskáld, tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir tónlist sína í þáttunum Chernobyl. Grammy verðlaunahátíðin verður haldin 26. janúar á næsta ári.

Ríkið tapaði máli um eignarhald yfir Arnarvatnsheiði

3 klukkutímar 31 mín síðan

Héraðsdómur Vesturlandi kvað í morgun upp úrskurð í máli íslenska ríkisins gegn landeigendum á Arnarvatnsheiði. Ríkið höfðaði málið og beindi kröfu sinni gegn Sjálfseignarstofnun um Arnarvatnsheiði og Geitland annars vegar en hins vegar eigendum Kalmanstungu I og II. Gerði ríkið kröfu um að felldur yrði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar nr. 4/2014 þess efnis að Arnarvatnsheiði, Geitland ásamt Langjökli tilheyrði sjálfseignarstofnuninni og landeigendum Kalmanstungu I og II. Þá krafðist ríkið þess jafnframt að viðurkennt yrði fyrir dómi að landsvæðið yrði túlkað sem þjóðlenda. Héraðsdómur Vesturland sýknaði landeigendur af öllum kröfum ríkisins. Málskostnaður var felldur niður og allur gjafsóknarkostnaður stefndu skal greiðast úr ríkissjóði.

Reykholtsverkefnið verður gert upp á samkomu í Snorrastofu

3 klukkutímar 43 mín síðan

Þriðjudaginn 26. nóvember næstkomandi stendur Snorrastofa fyrir kvölddagskrá kl. 19:30 í Bókhlöðunni, þar sem mörkuð verða lok Reykholtsverkefnisins. Það hefur verið undir stjórn Snorrastofu í 20 ár, allt frá árinu 1999. Reifað verður hvert mat sé hægt að leggja á verkefnið og hver framtíð verkefna í sama dúr geti orðið. Reykholtsverkefnið er þverfaglegt, alþjóðlegt miðaldarannsóknarverkefni á sviði bókmennta, fornleifafræði, landafræði og sagnfræði. Það leiddi saman fjölda fræðimanna og var þátttakendum ætlað að glíma við sömu viðfangsefni, Snorra Sturluson, ævi og störf og Reykholt í tíð hans. Sameiginlegur rammi verkefnisins varð hugtakið „miðstöð“ og hvernig Snorri hafi mótað þá miðstöð í Reykholti. Fornleifarannsóknir í Reykholti hafa vakið mesta athygli verkefnisins, sem var annars afar fjölþætt og hefur vakið umræður á mörgum sviðum. Um það vitnar m.a. margháttuð útgáfa innan ramma verkefnisins um bókmenntir, sögu og náttúru, auk fornleifa. Á samkomunni verður kynnt ný bók Guðrúnar Sveinbjarnardóttur, Reykholt í ljósi fornleifanna og fram fara pallborðsumræður þar sem litið verður til fortíðar og framtíðar.

Fyrst flytur Guðrún Sveinbjarnardóttir fyrirlesturinn, Reykholt í ljósi fornleifanna og að honum loknum verða umræður undir stjórn Bjarna Guðmundssonar á Hvanneyri, sem lengi sat í stjórn Snorrastofu. Í umræðunum taka þátt Benedikt Eyþórsson sagnfræðingur, Egill Erlendsson landfræðingur, Guðrún Gísladóttir landfræðingur, Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur og Helgi Þorláksson sagnfræðingur.

Aðstandendur Reykholtsverkefnisins bjóða til kaffiveitinga á þessum ánægjulegu tímamótum og enginn aðgangseyrir verður innheimtur. Ástæða er til að vekja athygli á að kvöldið hefst klukkan hálf-átta.

-fréttatilkynning

Matarhátíð á Hvanneyri á morgun

4 klukkutímar 42 mín síðan

Matarmarkaður, matarhandverk, úrlit í matarkeppni og matur beint frá býli er meginþema á Matarhátíð sem fram fer á morgun, laugardaginn 23. nóvember, á gömlu torfunni á Hvanneyri. Opið hús verður í Landbúnaðarsafni Íslands og Ullarselinu en auk þess útstilling á keppnisvörum í Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki, en úrslitin verða kynnt klukkan 14.

Dagskráin hefst klukkan 12 með REKÓ afhendingu, en hálftíma síðar mun Hlédís Sveinsdóttir kynna hvað felst í REKÓ. Klukkan 13 verður kynning á verkefnum Matís undir heitinu Krakkar kokka. Eva Margrét Jónudóttir mun klukkan 13:30 fjalla um aukið virði hrossakjöts, gæði og tækifæri sem felast í vinnslu og markaðssetningu þess.

Klukkan 14 verður verðlaunaafhending í Askinum, Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki, sem Matís stendur fyrir.

Klukkan 15 munu þau Gerald og Katharina segja frá austurrískum búskaparháttum og sauðaostagerð.  Klukkan 15:30 mun Vífill Karlsson flytja erindið „Gott er að mjólka gulrótina..“ Þar kynnir hann landfræðilegt og efnahagslegt litróf garðyrkju á Íslandi. Dagskrá lýkur svo með stuttum kynningum og erindum.

Allir eru velkomnir á Hvanneyri á hátíð Matar.

Segin saga hraðaksturs

5 klukkutímar 16 mín síðan

Það er segin saga að hraðakstur er áberandi í umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi. Var liðin vika engin undantekning þar á, að sögn aðstoðaryfirlögregluþjóns. Ökumaður var stöðvaður að morgni þriðjudagsins 12. nóvember á 131 km/klst. á Vesturlandsvegi við Galtarholt. Var honum gert að greiða fjársekt að upphæð 115 þúsund krónur. Þá var einn stöðvaður í vikunni á 124 km/klst. hraða við Búðardal og segir lögregla enn allt of algengt algegnt að sjá hraðaksturstölur milli 110 og 120 km/klst. í umdæminu.

VÍS kærir forsendur útboðs í Borgarbyggð

5 klukkutímar 41 mín síðan

Vátryggingafélag Íslands hefur kært útboð Borgarbyggðar á vátryggingum sveitarfélagsins. Kærunefnd útboðsmála tilkynnti um að kæran hefði verið lögð fram með bréfi dags. 13.11 síðastliðinn. Gerð er krafa um að útboðið verði stöðvað þar til búið verður að taka afstöðu til kærunnar. Ástæðan er krafa um rekstur tryggingaumboðs í sveitarfélaginu, en VÍS hætti slíkum rekstri á síðasta ári og lokaði umboðsskrifstofu sinni. Í útboðsgögnum Borgarbyggðar sagði um þann þátt: „Bjóðandi starfræki starfsstöð í Borgarbyggð með starfsmanni a.m.k. 16 tíma á viku. Starfsstöð í Borgarbyggð skuli að lágmarki vera komin sex mánuðum eftir að samningur er undirritaður við viðkomandi bjóðanda um verkið og skal hún starfrækt a.m.k. út samningstímann.“

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í gær var samþykkt að fela sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að svara erindinu.

Aftur á sigurbraut

6 klukkutímar 27 mín síðan

Skallagrímur er kominn aftur á sigurbraut í 1. deild karla eftir sigur á Sindra, 85-71. Liðin mættust í Borgarnesi í gærkvöldi.

Skallagrímsmenn skoruðu fyrstu sex stig leiksins en gestirnir frá Hornafirði jöfnuðu metin og komust síðan yfir. Borgnesingar áttu lokaorðið í upphafsfjórðungnum og leiddu með þremur stigum að honum loknum, 18-15. Þeir voru síðan sterkari í öðrum leikhluta, náðu snemma að slíta sig frá gestunum og höfðu tíu stiga forskot í hléinu, 42-32.

Sindramenn mættu ákveðnir til síðari hálfleiks, minnkuðu forystu Skallagríms um helming fyrstu þrjár mínúturnar en þá tóku Borgnesingar við sér. Þeir skoruðu 23 stig gegn átta það sem eftir lifði þriðja leikhluta og leiddu með 20 stigum fyrir lokafjórðunginn, 67-47. Þar héldu Skallagrímsmenn uppteknum hætti. Mest leiddu þeir með 27 stigum, um miðjan fjórða leikhluta. Gestirnir náðu aðeins að laga stöðuna það sem eftir lifði leiks, en sigur Skallagríms var aldrei í hættu. Lokatölur voru 85-71, Skallagrími í vil.

Kenneth Simms var stigahæstur í liði Skallagríms með 16 stig og tíu fráköst að auki. Davíð Guðmundsson og Kristján Örn Ómarsson skoruðu 13 stig hvor, Arnar Smári Bjarnason var með tíu stig og sex stoðsendingar, Almar Örn Björnsson skoraði níu stig og tók sjö fráköst, Isaiah Coddon skoraði níu stig einnig, Marinó Þór Pálmason var með átta stig og Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði sjö stig og tók tíu fráköst.

Ignas Dauksys skoraði 18 stig og tók tólf fráköst fyrir Sindra, Stefan Knazevic var með 18 stig sömuleiðis og ellefu fráköst og Árni Birgir Þorvarðarson skoraði tólf stig.

Skallagrímur lyfti sér með sigrinum upp í sjötta sæti deildarinnar. Eftir átta leiki hafa Borgnesingar fjögur stig, jafn mörg og Selfoss í sætinu fyrir neðan en tveimur stigum á eftir Álftnesingum, en bæði liðin eiga þó leik til góða á Skallagrím um helgina.

Næsti leikur Borgnesinga er síðan gegn Álftnesingum í Borgarnesi á fimmtudaginn, 28. nóvember.

Sóttu gildrur og búnað Blíðu

6 klukkutímar 43 mín síðan

„Bergvíkin kom og hjálaði okkur í fjóra daga í síðustu viku að sækja allt sem við áttum og koma því í land,“ segir Ólafur Jónsson, annar tveggja skipstjóra Blíðu SH-27, sem sökk á beitukóngsveiðum norður af Langeyjum á Breiðafirði 5. nóvember síðastliðinn, en Ólafur var í fríi þegar skipið sökk. „Við tókum allt sem við áttum úti í land. Þetta voru 20 strengir, samtals um tvö þúsund gildrur,“ bætir hann við. „Við í áhöfn Blíðu fórum með þeim út, strákunum á Bergvíkinni, að tína þetta upp. Það gekk allt í sóma, var mikil vinna í stuttan tíma en við fengum gott veður og þetta er allt komið í land,“ segir hann og bætir því við að allir séu búnir að jafna sig eftir að Blíðan sökk.

Á laugardag fór Ólafur ásamt fleirum út í Rif og sótti Báru SH-027. Hún er nú komin suður til Njarðvíkur þar sem henni verður breytt í beitukóngs- og ígulkerjabát, sem sagt til sömu veiða og stundaðar voru á Blíðu. Ólafur kveðst þó ekki vita hvenær hann og áhöfnin kemst aftur til veiða. „Það mun taka einhvern tíma, vikur eða jafnvel mánuði, að útbúa þennan bát áður en við getum farið að veiða á honum. Það þarf að að smíða allt nýtt á dekkið á Bárunni, því það er ekkert í henni sem við notum til þessarra veiða. En að öðru leyti er hún mjög góður bátur,“ segir Ólafur Jónsson að endingu.

Héldu dag íslenskrar tungu hátíðlegan

7 klukkutímar 43 mín síðan

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur 16. nóvember á hvert. Nemendur í Grunnskóla Snæfellsbæjar tóku forskot á sæluna og héltu daginn hátíðlegan síðastliðinn föstudag. Voru haldnar samkomur á sal hjá 1. til 4. bekk á Hellissandi og 5. til 7. bekk í Ólafsvík.

Á Hellissandi sungu nemendur íslensk lög og tilkynnt var um úrslit í smásagnasamkeppni bekkjanna en nemendur 4. bekkjar sáu um að kynna dagskrána. Eftirfarandi nemendur unnu til verðlauna fyrir sögur sínar: Aron Eyjólfur Emanúelsson í 1. bekk, Viktor Adam Jacunski í 2. bekk, Jenný Lind Samúelsdóttirí 3. bekk og Kristján Mar Yilong Traustason í 4. bekk og hlutu þau öll bækur eftir íslenska höfunda í verðlaun. Allir þátttakendur í sögusamkeppninni fengu viðurkenningarskjöl. Í Ólafsvík komu nemendur einnig saman á sal, fluttu verkefni sem öll tengdust Jónasi Hallgrímssyni en dagur íslenskrar tungu er eins og flestir vita haldinn hátíðlegur á afmælisdegi Jónasar. Nemendur 5. bekkjar lásu upp ljóðin Ég bið að heils, Laxinn og Helvíti. Öll eru þau eftir Jónas Hallgrímsson. Nemendur 6. bekkjar lásu söguna Stúlkan í turningum og kynntu einni nokkur af þeim nýyrðum sem Jónas smíðaði. Nemendur 7. bekkjar kynntu svo Jónas Hallgrímsson og einn nemandi las upp ljóðið Ólafsvíkurenni eftir Jónas. Hátíðir sem þessar eru árlegir viðburðir og mikilvægur hluti af skólastarfi þar sem auk þess að koma saman, læra nemendur um Jónas Hallgrímsson ásamt því að fá þjálfun í að koma fram og minna sig og aðra á að við verðum sjálf að halda tungumálinu okkar á lofti.

Apótek Vesturlands er fyrst til að taka í sölu CBD vörurnar

9 klukkutímar 43 mín síðan

Heildsalan Ozon er fyrsta fyrirtækið hér á landi sem hefur innflutning á snyrtivörum sem innihalda virka efnið CBD sem unnið er úr hampi. Það er Sigurður Hólmar Jóhannesson, framkvæmdarstjóri Ozon og sonur hans Viktor Snær sem standa á bakvið innflutninginn á vörunum. Sigurður kynntist CBD fyrst fyrir nokkrum árum vegna dóttur sinnar sem er með sjaldgæfan taugasjúkdóm sem kallast AHC. „Þetta er svo sjaldgæfur taugasjúkdómur að aðeins einn á móti milljón fá hann. Þetta er ólæknandi sjúkdómur sem er oft kallaður móðir allra taugasjúkdóma því hann hefur öll einkenni allra annarra taugasjúkdóma,“ útskýrir Sigurður. „Við höfum prófað óteljandi lyf fyrir hana sem flest virka ekkert en svo kynntumst við CBD vörum fyrir nokkrum árum og uppgötvuðum þar hvað þetta efni er stórkostlegt. Við fórum að kynna okkur hampinn betur og komumst að því að þessi planta er alveg mögnuð. Það er hægt að vinna svo mikið úr henni sem gerir okkur gott. Í kjölfarið fórum við að flytja inn hampvörur og núna nýlega var leyfður innflutningur á snyrtivörum sem innihalda CBD svo við byrjuðum að flytja þær inn líka. Vonandi verður í framtíðinni leyfilegt að flytja inn fæðubótaefni með CBD,“ segir Sigurður.

CBD einstakt efni

Vörurnar sem Sigurður flytur inn er hægt að kaupa í vefversluninni www.hempliving.is auk þess sem Apótek Vesturlands er fyrsta apótek landsins til að setja vörurnar í sölu. „Þetta eru gæðavörur sem eru framleiddar af svissneska fyrirtækinu Cibdol. Við erum með allskonar snyrtivörur; handáburð, varasalva, krem við exemi, psoriasis og bólum. En þetta er bara það sem við erum að byrja með og ætlunin er að bæta við vörum,“ segir Sigurður. Spurður hvað sé frábrugðið við vörur sem innihalda CBD segir hann það fyrst og fremst vera þá einstöku virkni sem CBD hefur. „CBD er efni sem bindur sig við okkar mólikúl og örvar endurnýjun fruma í líkamanum,“ svarar Sigurður og bætir því við að í líkama okkar séu svokallaðir cb viðtakar sem taka vel við þessu efni því það sé náttúrulegt og líkaminn okkar veit nákvæmlega hvernig hann getur notað efnið, sem á ekki alltaf við um efni sem búin eru til á tilraunastofum.

Ekki vímugjafi

Þá tekur Sigurður fram að CBD sé unnið úr iðnaðarhampi sem inniheldur aðeins örlítið brot af vímuefninu THC. „Efnið sem gefur fólki vímu er THC en í iðnaðarhampi er aðeins um 0,3% THC á móti um 15-30% sem er í marijuana. Svo þegar efnin í iðnaðarhampinum eru unnin meira þá er hægt að taka út THC og í þessum vörum er alveg búið að taka þennan vímugjafa úr. Fólk tengir gjarnan saman vörur með CBD og vímuefni og þess vegna hefur verið svona erfitt að fá leyfi fyrir því að flytja inn og selja vörur með þessu efni. Kannabisplantan er bara svo margbreytileg og það er margt við hana sem getur gert okkur mjög gott og tengist vímugjafanum THC ekki neitt,“ útskýrir Sigurður.

Staða sveitarstjóra verður auglýst

Fim, 21/11/2019 - 15:45

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í morgun var tekið til umræðu hvaða ferli verði viðhaft við ráðningu nýs sveitarstjóra. Eins og kunnugt er sagði sveitarstjórn Gunnlaugi A Júlíussyni upp störfum sveitarstjóra í síðustu viku. Samþykkt var á fundinum að afla verðhugmynda frá þremur ráðningarstofum vegna væntanlegs auglýsingarferlis, úrvinnslu umsókna og ráðningu í starfið. Eiríki Ólafssyni sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs var falið að hafa samband við ráðningarstofurnar.

Æsispennandi blakleikur í Grundarfirði

Fim, 21/11/2019 - 14:01

Ungmennafélag Grundarfjarðar tók á móti Ými í fyrstu deild kvenna í blaki fimmtudaginn 14. nóvember síðastliðinn. Liðin voru í sitthvorum hluta deildarinnar en Ýmir er við toppinn á meðan Grundarfjörður er í neðri hlutanum. Ljóst var frá byrjun að heimamenn ætluðu að selja sig dýrt og byrjuðu af miklum krafti. Grundfirsku stelpurnar komust í 9-2 áður en gestirnir tóku við sér og náðu að jafna hrinuna 9-9. Liðin skiptust svo á að leiða en UMFG tókst svo að lokum að sigra 25-21 og komast í 1-0 í leiknum. Í annarri hrinu var nokkuð jafnræði með liðunum en gestirnir höfðu þó yfirhöndina í restina og unnu aðra hrinu 25-20 og jöfnuðu þar með leikinn 1-1. Í þriðju hrinu voru Ýmiskonur með yfirhöndina allan tímann og leiddu nokkuð örugglega. Þeirri hrinu lauk með 25-16 sigri gestanna og þær því komnar með forystu 2-1 í leiknum. Í fjórðu hrinu komu Grundfirðingar grimmari til leiks og var hrinan í járnum allt til loka en heimamönnum tókst að jafna metin 2-2 með því að sigra fjórðu hrinuna 25-21 og því þurfti oddahrinu til að fá úrslit. Oddahrinan var í járnum allan tímann þangað til í lokin er gestirnir voru komnir í 14-10 og þurftu því aðeins 1 stig til að sigra leikinn. Heimamenn reyndu hvað þær gátu og náðu að minnka muninn í 14-12 en þá náðu Ýmisstúlkur að skora síðasta stigið og sigruðu því í æsispennandi viðureign 3-2 og skutust því í toppsætið.

Ungmennafélag Grundarfjarðar er í 9. sæti af 12 og leggur land undir fót um næstu helgi og ferð norður til að etja kappi við Völsung á Húsavík 23. nóvember og daginn eftir halda þær á Siglufjörð og sækja lið BF heim. Það verður því nóg um að vera um næstu helgi hjá liðinu.

Mættu ofjörlum sínum

Fim, 21/11/2019 - 13:25

Snæfellskonur mættu ofjörlum sínum þegar þær sóttu Keflavík heim í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Heimakonur náðu undirtökunum í fyrri hálfleik og unnu að lokum öruggan sigur, 89-66.

Keflvíkingar voru sterkari framan af fyrsta leikhluta en Snæfellskonur voru þó aldrei langt undan. Seint í leikhlutanum náði Keflavík tíu stiga forskoti sem Snæfell minnkaði niður í sex stig áður en upphafsfjórðungurinn var úti, 23-17. Í öðrum leikhluta juku heimakonur forskot sitt jafnt og þétt allt þar til flautað var til hálfleiks. Keflavík leiddi með 15 stigum í hléinu, 52-37.

Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta og forysta Keflavíkurkvenna breyttist lítið. Þær leiddu með 16 stigum fyrir lokafjórðunginn, 68-52. Heimakonur byrjuðu fjórða leikhlutann betur og komust meira en 20 stigum yfir áður en Snæfell minnkaði muninn í 15 stig þegar fjórar mínútur lifðu leiks. Keflavík átti hins vegar lokaorðið og sigraði að endigu með 23 stigum, 89-66.

Chandler Smith skoraði 15 stig og tók ellefu fráköst í liði Snæfells og Anna Soffía Lárusdóttir var með 15 stig einnig. Veera Annika Pirttinen skoraði ellefu stig og tók tíu fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir var með níu stig og átta fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir níu stig og sjö fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði fimm stig og Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði tvö.

Daniela Wallen Morillo fór mikinn í liði Keflvíkinga. Hún skoraði 31 stig, tók tólf fráköst, gaf átta stoðsendingar og stal sex boltum. Irena Sól Jónsdóttir var með 13 stig, Katla Rún Garðarsdóttir tólf og þær Anna Ingunn Svansdóttir og Emelía Ósk Gunnarsdóttir skoruðu tíu stig hvor.

Snæfellskonur sitja sem stendur í sjötta sæti deildarinnar með fjögur stig, fjórum stigum á eftir næstu liðum fyrir ofan og tveggja stiga forskot á Breiðablik, sem þær mæta einmitt í næstu umferð. Leikur Snæfells og Breiðabliks fer fram í Kópavogi á laugardaginn, 23. nóvember.

Margt um manninn á Malavímarkaði

Fim, 21/11/2019 - 13:12

Árlegur Malavímarkaður var haldinn í Grundaskóla á Akranesi í hádeginu í dag. Nemendur og starfsfólk skólans höfðu undibúið markaðinn með að búa til og safna saman munum til að selja. Allur ágóði af sölunni rennur til styrktar skólastarfi í Malaví, sem er eitt fátækasta ríki heims. Settir voru upp sölubásar um skólann þar sem meðal annars voru seld handverk eftir krakkana, notuð föt, ýmislegt góðgæti og fleira, auk þess sem gestum bauðst að kaupa vöfflur og kaffi eða pylsur á meðan hægt var að hlýða á tónlistaratriði nemenda. Markaðurinn er alltaf mjög vel sóttur og var engin breyting þar á. Mikill fjöldi fólks kom í skólann og styrktu málefnið.

Endurómur íslenska sönglagsins

Fim, 21/11/2019 - 13:01

Hildigunnur Einarsdóttir messósópran og Guðrún Dalía Salómonsdóttir píanóleikari halda tónleika í Vinaminni á Akranesi, sunnudaginn 24. nóvember kl. 16. Á þessum tónleikum verður íslenska sönglagið skoðað allt frá fyrsta íslenska sönglaginu sem vitað er um, til tónsmíða 20. aldar, til splunkunýrra tónsmíða Páls Ívans frá Eiðum sömdum sérstaklega fyrir þetta tilefni. Hann mun velta fyrir sér arfleifð íslenska sönglagins og enduróma það í samtímanum.

Hildigunnur Einarsdóttir og Guðrún Dalía hafa getið sér gott orð fyrir lifandi og einlæga túlkun íslenskra sönglaga. Þær hafa áður lagst í rannsóknarvinnu á sönglögum Karls Ottós Runólfssonar en í framhaldi af því kom út diskur með nýjum útsetningum Hjartar Ingva Jóhannsonar á þeim 2014. Báðar hafa þær einnig haft sérstakan áhuga á höfundarverki Jórunnar Viðar, Hildigunnur hefur flutt verk hennar m.a. á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Guðrún Dalía gefið út geisladisk með öllum útgefnum lögum tónskáldsins á 90 ára afmæli hennar. Nýverið fluttu Hildigunnur og Guðrún Dalía ljóðaflokkinn Svartálfadans eftir Jón Ásgeirsson á afmælisári hans. Þessi tónskáld eiga sérstakan sess á efnisskránni sem einnig skartar söngperlum Sigvalda Kaldalóns og Páls Ísólfssonar ásamt nýjum sönglagaflokki Páls Ivans Pálssonar.

Aðgangseyrir á tónleikana er kr. 3.000 og er miðasala við inngang. Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði.

-fréttatilkynning

Ósamræmi í þróun fjárveitinga í umhverfisgeiranum

Fim, 21/11/2019 - 12:01

Mikið ósamræmi er í þróun fjárveitinga til mismunandi verkefna sem falla undir verksvið umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, að því er fram kemur í upplýsingum sem Samtök náttúrustofa tóku saman úr fjárlögum áranna 2005-2019 og fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. „Þegar horft er á þróunina sést að meðalframlag til hverrar náttúrustofu lækkaði um 35% á núverandi verðgildi, þegar tekinn er munur á hæstu fjárveitingunni á tímabilinu, árið 2008, og fjárveitingunni árið 2019,“ segir Róbert A. Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands. „Skoðað á sama hátt lækkaði fjárveiting til verndar Breiðafjarðar um 44% frá árinu 2005-2019. Allt önnur mynd blasir við þegar litið er á aðrar stofnanir. Fjárveitingar hækkuðu um 50% til Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 2005-2019 og um 82% til Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, en fjárveitingar til Skógræktarinnar hækkuðu um 126% frá 2015-2019.“

Að sögn Róberts eru náttúrustofurnar átta dreifðar um allt land og hver um sig með sjálfstæðan fjárhag. „Þessi samanburður á meðalframlagi til náttúrustofa annars vegar og til nokkurra annarra stofnana á sviði umhverfismála hins vegar er sláandi. Við samgleðjumst kollegum okkar, enda er fullt tilefni til að efla rannsóknir á náttúru landsins. Aftur á móti erum við ósátt við lækkunina til náttúrustofa, sem nemur um það bil kostnaði við stöðugildi eins sérfræðings á hverri stofu. Á litlum stofnunum munar aldeilis um minna. Eftir hrun fengum við þær skýringar að um almenna aðhaldskröfu væri að ræða en í uppsveiflunni undanfarin ár á það auðvitað ekki við lengur og höfum við ekki fengið skýringar á því að þróunin hefur ekki verið sú sama á náttúrustofnunum og öðrum sambærilegum stofnunum. Þessi breyting byggir því ekki á stefnumótun um að veikja starfsemi náttúrustofnanna.“

Fyrstu nýju sjúkrabílarnir verða af gerðinni Benz Sprinter

Fim, 21/11/2019 - 11:16

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um kaup á 25 nýjum sjúkrabílum liggur fyrir í kjölfar útboðs Ríkiskaupa í haust. Þar með er endurnýjun sjúkrabílaflotans loks hafin í samræmi við samkomulag Sjúkratrygginga Íslands og Rauða krossins á Íslandi frá 11. júlí í sumar. Ekki er þó gert ráð fyrir að fyrstu bílarnir verði afhentir fullbúnir til notkunar fyrr en í september á næsta ári. Sjúkrabílaflotinn á landsvísu og þar með hér á Vesturlandi er orðinn verulega gamall og úr sér genginn, enda komust Sjúkratryggingar og Rauði krossinn ekki að samkomulaginu um endurnýjun samnings fyrr en í sumar eftir nokkurra ára tafs jafnvel þótt fyrir lægi að þörfin fyrir nýja bíla væri orðin aðkallandi. Um alvarleika þeirra tafa hefur verið fjallað í fjölda frétta í Skessuhorni á liðnum árum.

Það var Fastus sem átti tilboðið sem skoraði hæst í útboðinu og var því tekið. Bílarnir 25 eru af tegundinni Mercedes Benz Sprinter. Þeir eru stórir og rúmgóðir sem tryggir sjúklingum góðar aðstæður, auðveldar sjúkraflutningamönnum að sinna þeim um borð og eykur þannig öryggi þjónustunnar. Í útboðinu var áhersla lögð á að nýir bílar myndu uppfylla ströngustu kröfur sérfræðinga varðandi öryggi, aðbúnað og vinnuumhverfi.

Samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi Sjúkratrygginga og RKÍ er gert ráð fyrir að alls verði 68 sjúkrabifreiðar endurnýjaðar fyrir árslok 2022, en flotinn samanstendur af um 80 bílum. Samkomulagið gerir því ráð fyrir að á samningstímanum verði endurnýjun á stærstum hluta þeirra sjúkrabíla sem nú eru í notkun og að endurnýjaðir verði allir sjúkrabílar sem nú eru í fremstu röð viðbragðs.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þetta stóran og kærkominn áfanga: „Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er sérstök áhersla lögð á skilvirka og öfluga sjúkraflutninga sem lið í því að jafna aðgengi landsmanna að góðri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Endurnýjun sjúkrabifreiða og búnaðar skiptir þar miklu máli, til að halda uppi tilskildum gæðum, tryggja öryggi sjúklinga og sjúkraflutningamanna og standa undir umfangi þjónustunnar til framtíðar“ segir heilbrigðisráðherra.

Allir kvennaflokkar æfðu saman

Fim, 21/11/2019 - 10:58

Sameiginleg knattspyrnuæfing allra kvennaflokka ÍA var haldin í gær. Þar fengu ungar og upprennandi knattspyrnukonur frá 7. flokki og upp úr að æfa með fyrirmyndum sínum úr meistaraflokki. „Gaman var að sjá yngri iðkendur með fyrirmyndum sínum á æfingu,“ segir á vef KFÍA.

Æfingin var skipulögð af þjálfurum félagsins, sem fengu leikmenn meistaraflokks til að útskýra og sýna yngri iðkendum æfingarnar sem teknar voru fyrir þennan daginn. „Iðkendur okkar eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér. Þær eru duglegar og öflugar og stefna allar á að spila með meistaraflokki ÍA eftir nokkur ár.“

Síður