Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 28 mín 31 sek síðan

Afhenti VR tvö ný orlofshús í Svignaskarði

3 klukkutímar 6 mín síðan

Í síðustu viku afhenti Eiríkur J. Ingólfsson byggingaverktaki í Borgarnesi Orlofssjóði VR tvö 80,5 fm ný orlofshús í Svignaskarði í Borgarfirði. Það var Emil Gústafsson sem tók við lyklavöldunum en hann fer með eignaumsýslu fyrir félagið. Húsin sem um ræðir eru tvö, Svignaskarð 38 og 42, og hafa verið í byggingu síðustu níu mánuði. Bygging húsanna gekk vel að sögn Eiríks og framundan er smíði tveggja eða þriggja sambærilegra húsa í Svignaskarði í haust, bygging tveggja húsa við Hreðavatn auk fjölmargra annarra verkefna.

Stór útskriftardagur í framhaldsskólunum

3 klukkutímar 9 mín síðan

Nú er að ljúka mjög svo óvenjulegu skólaári í mennta- og fjölbrautaskólum í landshlutanum. Kórónaveiran hefur sett sinn svip á vorönnina og hafa nemendur þurft að aðlagast fjarkennslu og gjörólíkum kennsluháttum. Útskrifað verður úr þremur framhaldsskólum á Vesturalndi í dag. Skólastjórnendur hafa þurft að hagræða hátíðarhöldum í takti við reglur og takmarkanir sem í gildi eru í ljósi Covid-19. Til að mynda mun Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi og Fjölbrautaskóli Snæfellinga í Grundarfirði bjóða aðstandendum sem ekki komast í útskriftarathöfn, að fylgjast með athöfn í gegnum streymi á netinu.

Í dag fara fram útskriftarhátíðarhöld í Menntaskóla Borgarfjarða í Borgarnesi, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Allar hefjast þessar athafnir kl. 14. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri mun brautskrá garðyrkjufræðinga frá starfs- og endurmenntunardeild laugardaginn 30. maí klukkan 13 og fer sú athöfn fram í Hveragerðiskirkju. Búfræðingar verða útskrifaðir frá skólanum 5. júní kl. 13 í Hjálmakletti.

Árvekni með börnum í sundi

6 klukkutímar 10 mín síðan

„Ekki gleyma að fylgjast með mér“ er yfirskrift nýs árveknisátaks á sundstöðum sem Umhverfisstofnun ýtir úr vör í dag. Markmið átaksins er að minna foreldra, forráðamenn og aðra á að fylgjast vel með börnum yngri en tíu ára þegar þeir fara með þeim í sund. „Óhætt er að segja að landsmenn hafi tekið því fagnandi þegar sundstaðir voru opnaðir á ný á dögunum og má búast við að sundlaugar landsins verði vel sóttar í sumar. Þar, líkt og annars staðar, gera slysin ekki boð á undan sér og því er rík ástæða til að minna þá fullorðnu á að halda árvekni sinni gagnvart börnum sem þeir bera ábyrgð á í sundi,“ segir í tilkynningu.

Verðbólga mælist nú 2,6%

7 klukkutímar 10 mín síðan

Vísitala neysluverðs mældist 480,1 stig í maí mánuði samkvæmt nýjustu mælingu Hagstofunnar sem birt var á fimmtudaginn. Verðlag hækkaði um 0,54% milli mánaða og mælist verðbólga nú 2,6% á ársgrundvelli. Meiri hækkun mældist ef horft er fram hjá áhrifum húsnæðiskostnaðar, eða 0,88% milli mánaða, og mælist verðbólga án húsnæðis nú einnig 2,6%. Verð á mat- og drykkjarvörum hafði mest áhrif til hækkunar á vísitölunni í maí en alls hækkaði sá liður um 1,6% (0,24% vísitöluáhrif). Innfluttar vörur hækkuðu þó einnig skarpt, t.d. verð á nýjum bílum um 3,7% (0,2%) og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 2,9% (0,16%). Á móti lækkaði húsnæðiskostnaður, þ.e. reiknuð húsaleiga um 0,6% (-0,11%).

Viðhaldsstopp framlengt vegna stöðu á stálmörkuðum

8 klukkutímar 9 mín síðan

Slökkt verður á einum ofni járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga fram á sumarið. Þegar Skessuhorn heyrði í Einari Þorsteinssyni forstjóra fyrr í vikunni var reyndar slökkt á öllum þremur, en tveir þeirra voru aðeins úti vegna hefðbundinna þátta. „Einn ofn verður úti eitthvað lengur og búast má við því að hann verði það eitthvað vel fram á sumarið,“ segir Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem, í samtali við Skessuhorn. Slökkt var á þeim ofni til að ráðast í hefðbundið viðhald, en ákveðið að lengja stoppið til að gera viðhaldsvinnuna hagkvæmari. Hún verður þannig unnin í dagvinnu en ekki á vöktum allan sólarhringinn.

Spurður um áhrif þessa á starfsmannahald næstu mánuði segir Einar að færri sumarstarfsmenn verði ráðnir til starfa hjá Elkem nú í sumar en verið hefur undanfarin ár.

Erfitt ástand á mörkuðum

Ástæðan fyrir því að ákveðið var að lengja viðhaldsstopp ofnsins nú segir Einar vera ástand á mörkuðum, sem rakið er til Covid-19 faraldursins. „Ef ekki eru keyptir bílar og ekki verið að framkvæma þá á endanum vantar ekki stál. Þá geta stálverin ekki lengur framleitt sína vöru og þá vantar þau ekki hráefni sem við framleiðum,“ segir Einar, sem vonast vitaskuld til þess að markaðir fari að glæðast á nýjan leik áður en langt um líður. „Við krossleggjum fingur að það gangi vel að koma heiminum aftur í gang,“ segir hann. Það muni líklegast ekki gerast á einni nóttu, en þó það gerðist hratt segir forstjórinn fyrirtækið vel í stakk búið að takast á við það. Birgaðastaða af fullunninni vöru sé góð og hægt væri að þjóna markaðnum í töluverðan tíma áður en framleiðsla hæfist aftur með fullum afköstum. „En þetta er bara mjög sérkennileg staða sem nú er uppi í heiminum. Við erum, eins og sóttvarnalæknir hefur oft sagt, með allt í stöðugri endurskoðun,“ segir Einar Þorsteinsson að endingu.

Slysavarnadeild Dalasýslu gaf reiðhjólahjálma

10 klukkutímar 10 mín síðan

Slysavarnadeild Dalasýslu gaf nýverið öllum börnum í 5. og 6. bekk Auðarskóla reiðhjólahjálma og minnti um leið á mikilvægi þess að  nota hjálma þegar ferðast er um á reiðhjólum, línuskautum, hlaupahjólum og sambærilegum tækjum. Undir venjulegum kringumstæðum hefðu hjálmarnir verið afhentir í Auðarskóla en vegna Covid-19 og takmörkunar á umgengni í skólum fór hópur félaga úr Slysavarnadeildinni um héraðið og afhenti hjálmana. Hér má sjá hóp barna sem voru saman úti við leik þegar þær Björt Þorleifsdóttir og Dagný Lára Mikaelsdóttir mættu með gjafirnar á Sunnubraut í Búðardal.

Ljósm. Steina Matt.

Skvett úr klaufunum í Dölum um Hvítasunnuhelgina

Fim, 28/05/2020 - 15:16

Nokkrir ferðaþjónar í Dölum hafa tekið sig saman og búið til fínustu dagskrá fyrir komandi Hvítasunnuhelgi. Þangað er upplagt að fara, ekki síst fyrir fjölskyldufólk sem getur hæglega fundið eitthvað við sitt hæfi. Dagskráin nær frá föstudegi og til mánudagsins, 2. í Hvítasunnu. Meðal annars verður kúnum á Erpsstöðum hleyptu út með tilheyrandi bægslagangi, samverustund verður við varðeld á tjaldstæðinu í Búðardal, á Eiríksstöðum verður opið hús, tónleikar með Ívu og Má á Vogi, heimsókn í húsdýragarðinn á Hólum og dagskrá á Rjómabúinu á Erpsstöðum.

Nauðsynlegt að efla og stækka slökkvilið á landsbyggðinni

Fim, 28/05/2020 - 14:40

Átta opinber störf færast á Sauðárkrók á næstunni með breytingum á sviði brunavarna, en þær heyra undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) eftir sameiningu Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar um síðustu áramót. Sú eining sem sinnir skipulagningu brunaeftirlits verður þar með hluti af starfsstöð HMS á Sauðárkróki. Fyrir starfa þar um tuttugu manns við úthlutun húsnæðisbóta, í þjónustuveri og bakvinnslu fyrir húsnæðissvið HMS. Fjölgun þeirra sem sinna brunamálum er ein af þeim aðgerðum sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, leggur áherslu á til að að efla umgjörð brunamála og brunavarna á Íslandi. Um er að ræða bæði stjórnunarstörf og störf sérfræðinga og verða nokkur þeirra auglýst laus til umsóknar á næstunni.

Með þessu kveðst ráðherrann vera að bregðast við ábendingum í nýrri skýrslu um málaflokkinn sem gerð verður opinber á næstunni. Í skýrslunni, sem unnin var af starfshópi skipuðum af stjórn HMS, kemur m.a. fram að nauðsynlegt sé að efla og stækka slökkviliðin á landsbyggðinni. Einnig þurfi að uppfæra regluverk brunamála og gefa út leiðbeiningar um eftirfylgd reglugerða. Þá þurfi heilt yfir að efla stjórnsýslu málaflokksins.

Í skýrslu starfshópsins kemur m.a. fram að staða brunamála á Íslandi sé nokkuð góð í samanburði við nágrannalöndin. Tjón af völdum eldsvoða sé minna hér á landi, hvort sem litið sé til mannslífa eða eigna. Þó telja skýrsluhöfundar það áhyggjuefni að síðustu ár hafi tjón vegna bruna verið að aukast og brýnt sé að finna leiðir til að stöðva þá þróun. Nauðsynlegt sé að stórefla brunaeftirlit og gerð brunavarnaráætlana. Vilja skýrsluhöfundar koma í veg fyrir að tjón vegna eldsvoða aukist enn frekar hér á landi vegna stærri, flóknari og dýrari bygginga sem reistar hafa verið á síðustu árum.

Bílabúð Benna 45 ára

Fim, 28/05/2020 - 14:25

Bílabúð Benna er stofnað í maí árið 1975 og fagnar því 45 ára afmæli sínu í ár. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að upphafið á 45 ára sögu fyrirtækisins megi rekja til þess að Benedikt Eyjólfsson og Margrét Beta Gunnarsdóttir, þá bæði 17 ára gömul, höfðu komið sér upp aðstöðu fyrir bíla- og mótorhjólaviðgerðir, í óupphituðum skúr að Vagnhöfða 23 í Reykjavík. Hann gekk undir heitinu „Græni skúrinn“ og þar var lagður grunnur að rekstri, sem nú hefur staðið í 45 ár.

Að sögn Benedikts Eyjólfssonar framkvæmdastjóra mun fyrirtækið fagna þessum tímamótum með margvíslegum hætti í ár. „Þetta verður sannkallað afmælissumar hjá okkur, því svo skemmtilega vill til að afmælisárið ber upp á sama tíma og planið var að frumsýna virkilega spennandi nýja bíla frá Opel og Porsche,“ segir Benedikt. „Þar má nefna tímamótabílinn Porsche Taycan 100% rafbíl, metsölubílinn Opel Corsa, sem kemur nú 100% rafdrifinn og síðast en ekki síst, 300 hestafla 4X4, Opel Grandland X E Hybrid, sem er hreint magnaður jeppi fyrir fjölskylduna. „Afmælissumarið mun því einkennast af mörgum veglegum viðburðum og tilboðum og við hlökkum til að hitta sem flesta af gömlum og nýjum viðskiptavinum,“ segir Benedikt í tilkynningu til Skessuhorns.

Veitur hyggja á fjölmargar framkvæmdir á Vesturlandi í sumar

Fim, 28/05/2020 - 13:39

Á stjórnarfundi Veitna í vor samþykkti stjórn Veitna ýmsar aðgerðir til að bregðast við þeim afleiðingum sem kórónafaraldurinn hefur haft á atvinnulíf landsins. Fyrirtækið vill sýna samfélagslega ábyrgð og auka fjárfestingar í mannaflsfrekum verkefnum sem hafa munu mikil áhrif í samfélaginu, þar á meðal hér á Vesturlandi. „Leiðarljósið er að viðhalda atvinnustigi í landinu eins og kostur er en áætlað er að aðgerðirnar skapi hátt í 200 störf á starfssvæði Veitna á suðvesturhorni landsins,“ segir í tilkynningu. Samþykkt var að auka fjárfestingar Veitna um samtals tvo milljarða króna á þessu ári. Jafnframt var samþykkt að stefna að því að auka fjárfestingar á næsta ári um allt að fjóra milljarða króna. Þessar fjárfestingar bætast við áður fyrirhugaðar fjárfestingar Veitna sem nema um níu milljörðum króna árlega. Veitur munu því fjárfesta fyrir samtals ellefu milljarða króna á þessu ári og líklega 14 milljarða króna árið 2021.

Hér má sjá hvernig Veitur ráðgera að skipta framkvæmdum á starfssvæði sínu.

Fjölmörg verkefni á Vesturlandi

Veitur hafa undanfarið skilgreint mikilvæg verkefni á Vesturlandi sem ráðist verður í á næstu tveimur árum. Framkvæmdafé hefur verið aukið um 690 milljónir króna í ár og 570 milljónir króna á næsta ári. Samtals verður því 1.260 milljónum varið í viðbótarframkvæmdir á Vesturlandi á þessu ári og næsta.

Í Borgarbyggð er áformað að bora nýja neysluvatnsholu í Grábrókarhrauni og auka lýsingu á neysluvatni. Einnig verða endurbætur gerðar á vatnsbóli við Hvanneyri. Hitaveituframkvæmdir felast í endurnýjun safnlagna hitaveitu við Deildartungu og endurnýjun á Deildartunguæð við Grjóteyri og Hvanneyri. Mikil uppbygging hefur verið í fráveitu í Borgarnesi á síðustu árum og verður nú farið í að tengja síðustu húsin í bænum við hana. Gert er ráð fyrir að þessar framkvæmdir allar kosti 440 milljónir króna.

Á Akranesi er í bígerð að taka upp nýtt vatnsból og byggð verður ný starfsstöð Veitna á Vesturlandi og verður hún byggð í Flóahverfi á Akranesi. 620 milljónum króna verður varið í þessi verkefni.

Í Grundarfirði verður sett upp lýsingartæki við vatnsból og reistar girðingar til að tryggja gæði neysluvatns. Einnig verður farið í viðhald á vatnstanki. Áætlað er að þessi verkefni kosti um 60 milljónir króna.

Afla á viðbótarvatns í Stykkishólmi og koma upp varavatnsbóli fyrir bæinn. Það kostar 70 milljónir króna.

Auk þessara framkvæmda verður farið í ýmis minni verkefni á Vesturlandi til að bæta rekstraröryggi og þjónustu, efla vatnsvernd og tryggja auðlindir til framtíðar og verða um 200 milljónir króna settar í þau, samkvæmt tilkynningu frá Veitum.

Nýtt laugarhús verður byggt við Hreppslaug

Fim, 28/05/2020 - 12:13

Næsta haust og vetur stendur til að byggja nýtt laugarhús við Hreppslaug í Skorradal. Laugin sem byggð var á árunum 1928-29 var friðuð 2014 vegna sögulegs gildis hennar. Hafa félagar í Ungmennafélaginu Íslendingi hlúð vel að henni í áranna rás og hafa nú með stuðningi sveitarfélaganna á svæðinu ákveðið að ráðast í byggingu nýs laugarhúss og endurbætur á pottasvæðinu.

Kristján Guðmundsson tók nýverið við formennsku í Ungmennafélaginu Íslendingi sem á og rekur laugina. Hann segir í samtali við Skessuhorn að félagið muni standa að byggingu nýs laugarhúss í haust en opið verður í laugina fram yfir verslunarmannahelgi í sumar. Kristján segir að Skorradalshreppur leggi félaginu til myndarlegan stuðning vegna hússins. „Við byggjum 160 fermetra laugarhús á sama byggingarreit og núverandi laugarhús er, en það er um 100 fermetrar og orðið ansi lúið. 160 fermetrar er í rauninni lágmarksstærð á laugarhúsi til að standast allar nútímakröfur um mannvirki af þessu tagi. Markmið okkar er svo að verða tilbúin með húsið fyrir næsta sumar.“

Þá segir Kristján að pottasvæðið við laugin verði sömuleiðis endurnýjað og hafi sveitarfélagið Borgarbyggð ákveðið að leggja því verkefni lið.

Hreppslaug verður opnuð nú um hvítasunnuhelgina. Í sumar verður að sögn Kritjáns opið þriðjudaga til föstudaga klukkan 18-22 en laugardaga og sunnudaga kl. 13-22.

Skallagrímsmenn tilbúnir fyrir komandi tímabil

Fim, 28/05/2020 - 11:01

Sölvi G. Gylfason er nýr aðalþjálfari meistaraflokks Skallagríms í knattspyrnu en hann tók við liðinu ásamt Viktori Má Jónassyni á miðju síðasta tímabili en verður nú einn í brúnni. Sölvi sem er uppalinn Skallagrímsmaður og vel kunnugur liðinu segist fullur tilhlökkunar fyrir komandi tímabili. „Það leggst mjög vel í mig. Við erum með mun stærri og breiðari hóp en við höfum haft í langan tíma sem er frábært,“ segir Sölvi í samtali við Skessuhorn.

Nánar er rætt við Sölva í Skessuhorni vikunnar.

Skammvinn grásleppuvertíð er nú í gangi

Fim, 28/05/2020 - 10:01

Síðastliðinn miðvikudag hófust grásleppuveiðar í Breiðafirði samkvæmt sérstöku tímabundnu leyfi sem sjávarútvegsráðherra gaf til veiða þar, þegar hann tilkynnti að öðrum grásleppuveiðum yrði hætt 3. maí. Bátum með veiðireynslu á Breiðafirði er nú heimilt að veiða allt að 15 tonn á þessari stuttu vertíð. Jafnframt talaði ráðherra skýrt um það á fundi með grásleppuveiðimönnum í byrjun mánaðarins að veiðarnar yrðu stöðvaðar ef í ljós kæmi að þær yrðu óhóflegar eins og það var orðað.

Meðfylgjandi mynd var tekin í Stykkishólmshöfn á laugardaginn. Verið var að landa fallegri grásleppu úr Öbbu SH. Þeir sjómenn sem fréttaritari ræddi við sögðu veiðarnar ganga vel. Netin voru lögð miðvikudaginn 20. maí og voru flestir með löndun úr fyrstu vitjunum á föstudag eða laugardag.

Spíttbústaður

Fim, 28/05/2020 - 09:01

Umsjónarmenn sumarbústaðar í Hvalfirði höfðu samband við Lögregluna á Vesturlandi í vikunni sem leið. Bústaðurinn er leigður út til skamms tíma í senn og fundu leigusalarnir merki um fíkniefnaneyslu og fíkniefni í bústaðnum. Forprófun á efnunum gefur til kynna að þar sé um að ræða amfetamín, að sögn lögreglu. Málið er til rannsóknar.

Nýr bar opnaður innan tíðar á Akranesi

Fim, 28/05/2020 - 08:01

Nýr bar mun verða opnaður við Stillholt 16-18 á Akranesi á næstunni. Barinn hefur fengið nafnið Útgerðin bar og verður í húsnæði sem síðast hýsti Svarta Pétur. Að því er fram kemur á Facebook síðu barsins má gera ráð fyrir að þar verði flutt lifandi tónlist, karaoke auk syngjandi barþjóna. Fleira skemmtilegt verður í boði auk þess sem sýnt verður frá íþróttaviðburðum á stórum skjá.

Miklar endurbætur gerðar á Bjössaróló í Borgarnesi

Fim, 28/05/2020 - 06:01

Bjössaróló þekkja eflaust margir Borgfirðingar en rólóinn varð til þegar Björn Guðmundsson trésmíðameistari og þáverandi starfsmaður KBB smíðaði leiktæki sem hann setti upp fyrir utan heimili sitt í Borgarnesi. Hann byrjaði að smíða fyrstu leiktækin árið 1979 og bætti svo hægt og rólega við fleiri tækjum og hélt þeim eldri við. Leiktækin eru einstök en útlit þeirra er óhefðbundið því sem þekkist á leikvöllum almennt, en Bjössi smíðaði aðeins úr afgangs timbri sem ella hefði verið hent. Leiktækin eru nú komin til ára sinna en síðustu ár hefur Borgarbyggð haldið Bjössaróló við með reglubundnu viðhaldi á hverju ári. Þegar völlurinn var skoðaður til að taka út hvað þyrfti að gera á þessu ári kom í ljós að nokkur leiktæki voru ónýt og önnur þurftu töluvert viðhald. Var því ákveðið að fara vel yfir öll leiktækin. „Það voru þarna nokkur leiktæki sem voru tekin alveg í gegn frá grunni og önnur sem voru töluvert endurnýjuð,“ segir Hrafnhildur Tryggvadóttir, verkefnastjóri umhverfis- og skipulagssviðs Borgarbyggðar í samtali við Skessuhorn.

Halda í einkenni svæðisins

Ólafur Axelsson smiður hefur undanfarin ár séð um viðhald á Bjössaróló fyrir Borgarbyggð og tók hann einnig að sér þessar endurbætur ásamt sínu starfsfólki. Bjössaróló var lokað frá 22. apríl síðastliðnum og opnaður á ný föstudaginn 8. maí í mun betra ástandi. „Við létum fjarlægja eina klifurgrind sem Bjössi hafði ekki gert og var því ekki með í upprunalegu pælingunni hans. Önnur leiktæki eru núna komin í lag og svæðið allt orðið mun betra og við höfum heyrt að það sé mikil ánægja með þetta,“ segir Hrafnhildur og bætir við að næst verði stigi sem liggur frá Bjössaróló niður að íþróttasvæðinu í Borgarnesi endurnýjaður. „Það verður bara farið í það núna í vor og sumar. Við leggjum upp með að halda Bjössaróló við og halda vel í einkenni hans. En ég held að Bjössaróló sé alltaf að komast betur á kortið og fundum við það til dæmis á Covid tímum að það var mikil aðsókn á svæðið. Við viljum geta tekið á móti fólki á Bjössaróló í sumar og vonum að Íslendingar, og aðrir, verði duglegir að kíkja við,“ segir Hrafnhildur.

Sjúkraþjálfun Akraness opnuð

Miðv.d., 27/05/2020 - 16:09

Sjúkraþjálfun Akraness var opnuð í síðustu viku við Suðurgötu 126. Stofuna eiga og reka sjúkraþjálfararnir Gunnar Smári Jónbjörnsson, Einar Harðarson, Anna Sólveig Smáradóttir og Helga Sjöfn Jóhannesdóttir, en þau eru öll búsett á Akranesi og voru áður að starfa í Reykjavík. Það er því mikill fengur fyrir Skagamenn og nærsveitunga að fá þau öll til starfa á heimaslóðum. Aðstaðan á nýju stofunni er til fyrirmyndar en þar er rúmgóður æfingasalur með öllum helstu tækjum sem sjúkraþjálfararnir deila. Þá eru fjögur fullbúin herbergi sem hver sjúkraþjálfari notar en fimmta herbergið er laust og því möguleiki fyrir einn sjúkraþjálfara að bætast í hópinn. „Þetta eru ekkert smá flott og góð tæki, alveg það besta sem er í boði,“ segir Gunnar Smári og sýnir blaðamanni æfingatæki sem notast við loftmótstöðu í stað lóða. „Það eru því engin læti í lóðum að skella saman eða neitt svoleiðis,“ segir hann og brosir. „Það er svo gaman að opna svona nýja stöð, þar sem allt er glænýtt og flott,“ bætir hann við.

Aðspurður segir Gunnar Smári starfsemina hafa farið rólega af stað. „Við byrjuðum á að taka út allt svona byrjendavesenið og nú er það allt frá,“ segir hann og hlær. „Það getur allt farið að detta almennilega í gang hjá okkur núna,“ heldur hann áfram. Þá segir hann að fólk geti komið í allt að sex skipti til þeirra án þess að vera með beiðni læknis. Þær Anna Sólveig og Helga Sjöfn eru að auki með fyrirtækið Hreyfistjórn og á hæðinni fyrir neðan Sjúkraþjálfun Akraness eru þær með sal fyrir hreyfinámskeið. Einnig stendur til boða að leigja salinn fyrir jóga eða aðra hóptíma. „Við getum svo nýtt salinn sjálf í allskonar hópatíma en við förum örugglega af stað með svoleiðis með haustinu,“ segir Gunnar Smári.

Hægt er að hafa samband við Sjúkraþjálfun Akraness í síma 422-1122.

Sjá ennfremur hér

Metaðsókn í meistaranám við Háskólann á Bifröst

Miðv.d., 27/05/2020 - 15:56

„Horfur eru á því að á árinu 2020 hefji hátt í 200 manns meistaranám við Háskólann á Bifröst.   Í byrjun árs hófu 32 nemendur meistaranám við skólann og á sumarönn bættust 14 nemendur í hópinn.  Miðað við fjölda umsókna má reikna með að 130 – 150 nýir nemendur komi inn á haustönn,“ segir í tilkynningu frá skólanum.

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá áhuga fólks á náminu okkar. Sumarskólinn hefur slegið í gegn og umsóknir í meistaranám hafa aldrei verið fleiri. Nýnemum hefur fjölgað undanfarin ár svo það kemur okkur ekki á óvart að þróunin haldi áfram en ástandið í samfélaginu hefur væntanlega haft áhrif á  hversu mikil aukningin er að þessu sinni,“ segir Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst. „Fjölgun umsókna endurspeglar áhuga fólks á því námsframboði sem við höfum uppá að bjóða og sömuleiðis kennslufyrirkomulagi skólans en allt meistaranám er kennt í fjarnámi þannig að við mætum þörfum einstaklinga og þeir geta lært þegar og þar sem þeim hentar,“ segir Vilhjálmur.

Enn eru þrjár vikur eftir af umsóknarfresti fyrir  grunnnám við Bifröst og hafa fleiri sótt um nám í ár en á sama tíma í fyrra þannig að það stefnir einnig í metaðsókn í grunnnám við skólann á komandi skólaári.

Einstakt að róa á kajak um Breiðafjörð

Miðv.d., 27/05/2020 - 15:01

Kristján Sveinsson rekur fyrirtækið Kontiki Kayaking í Stykkishólmi þar sem hann býður upp á kajakferðir um Breiðafjörð. Kristján ólst upp í Hveragerði og fyrsta kajakinn keypti hann fyrir fermingarpeningana sína. „Ég bjó ekki við sjóinn svo ég keypti straumvatnskajak, svona til að sigla á niður ár og fljót,“ útskýrir hann. Kajaksiglingar hafa síðan verið hans helsta áhugamál. „Ég hef verið á fullu í þessu síðan og um tvítugt var byrjaður að starfa sem leiðsögumaður. Það leiddi svo til þess að ég fór að vinna við að fara í river rafting ferðir með fólk og svo fór ég í ferðir upp á jökla og fleira,“ segir Kristján sem hefur meira og minna starfað sem leiðsögumaður síðustu tíu ár.

Nú er Kristján búsettur í Stykkishólmi þar sem hann býður upp á kajakferðir um fagran Breiðafjörð. Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.

Fimleikahús við Vesturgötu á Akranesi er nú á lokametrunum

Miðv.d., 27/05/2020 - 14:01

Það styttist í að nýtt fimleikahús verði tilbúið við Vesturgötu á Akranesi. Um er að ræða 1.640 fermetra hús sem er byggt við gamla íþróttahúsið. Einnig er búið að gera upp hluta af aðstöðunni í gamla húsnæðinu og næst verður það hús tekið í gegn að utan, múrverk lagað og húsið málað. Í sal nýja hússins er gryfja og steyptir áhorfendapallar auk þess sem hægt er að horfa niður í salinn frá áhorfendasvæði þar sem gengið er inn á áhorfendapallana en þar verða stórir gluggar niður í bæði nýja og gamla salinn. Gömlu búningsklefunum hefur verið breytt þar sem áður voru fjórir klefar eru nú orðnir sex og nýjum sturtum komið fyrir undir áhorfendapöllum fimleikahússins. Inngangurinn sem snýr að Brekkubæjarskóla verður lokað og notuður sem skógeymsla og á móti kemur nýr inngangur þar sem gamli inngangurinn var uppá þekjuna. Frístund Brekkubæjarskóla verður áfram í íþóttahúsinu og færist nú á áhorfendasvæðið en þar verður sett upp lítil eldunaraðstaða sem nýtist til að útbúa smá bita fyrir krakkana í frístund og fimleikafélagið getur verið með litla veitingasölu þar þegar mót standa yfir.

Sjá nánar frásögn frá heimsókn blaðamanns í nýja fimleikahúsið í Skessuhorni sem kom út í dag.

Síður