Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 54 mín 34 sek síðan

Var að ljúka leit númer 176

6 klukkutímar 39 mín síðan

Síðastliðinn sunnudag kom Jóhann Oddsson bóndi á Steinum í Stafholtstungum úr leit á Holtavörðuheiði. Þetta var jafnframt 60. haustið sem hann fer í leitir, fór fyrst þegar hann var fjórtán ára. Öll árin utan það fyrsta hefur Jóhann farið í þrjár leitir að hausti. Hann hefur því farið 176 sinnum í leitir sem talið er heimsmet. Hér stendur Jóhann við Steinadilkinn í Þverárrétt.

Þjóðahátíð haldin á Akranesi á sunnudaginn

8 klukkutímar 3 mín síðan

Félag nýrra Íslendinga gengst fyrir árlegri þjóðahátíð sunnudaginn 22. september klukkan 14-17. Hátíðin verður að þessu sinni haldin í Íþróttahúsinu við Jaðarsbakka á Akranesi og eru allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Sem fyrr er það Pauline McCarthy, formaður Félags nýrra Íslendinga, sem skipuleggur hátíðina.

„Það verður fólk frá tuttugu löndum sem kemur og kynnir sín þjóðlönd með mat og skemmtiatriðum. Einnig verður hægt að kaupa mat frá Suður-Kóreu, Filippseyjum, Thailandi og Bandaríkjunum. Flestir af sýnendum eru búsettir hér á Vesturlandi,“ segir Pauline í samtali við Skessuhorn. Sævar Freyr Þráinsson bæjartjóri mun setja hátíðina en auk hans mun kínverski sendiherrann Jin Zhijian ávarpa gesti.

Boðið verður upp á búlgarskan dans, thai dans, spænskan og filippeyskan söng, rapp, bollywood dans og fleira. Sérstakur gestur, Mahendra Patel, kemur frá Englandi og heldur á laugardaginn námskeið í afrískum og indverskum trommuslætti í Tónlistarskóla Akraness. Þá mun hann koma fram ásamt nemendum sínum á Þjóðahátíðinni á sunnudaginn.

„Það verður margt í gangi og ég hvet alla sem vettlingi geta valdið að koma og njóta með okkur; smakka góðan mat og hlýða á tónlist frá ýmsum heimshornum,“ segir Pauline.

Allar nánari upplýsingar og skránig á námskeiðið er hjá Pauline McCarthy í síma 824-2640 eða societyofnewicelanders@gmail.com

Baulan innsigluð

8 klukkutímar 39 mín síðan

Vegfarendur sem ætluðu að koma við í verslun Baulunnar í Borgarfirði síðdegis í gær komu að lokuðum dyrum. Hafði lögregla lokað staðnum og innsiglað.

Aðspurður segir Ásmundar Kr. Ásmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn að Lögreglan á Vesturlandi tjái sig ekki um einstök mál af þessu tagi.

Umbra með tónleika í Vinaminni

12 klukkutímar 21 mín síðan

Fimmtudaginn 19. september klukkan 20, mun tónlistarhópurinn Umbra heimsækja Akranes. Umbra mun flytja blandaða efnisskrá af trúarlegri og veraldlegri miðaldatónlist frá Evrópu í bland við íslensk þjóðlög. Tónlistarhópurinn Umbra var stofnaður árið 2014 og er skipaður þeim Alexöndru Kjeld sem spilar á kontrabassa, Arngerði Maríu Árnadóttur sem leikur á orgel og keltneska hörpu, Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur fiðluleikara og Lilju Dögg Gunnarsdóttur sem spilar á flautu og sér um slagverkið. Hún er einnig aðalsöngkona Umbru en þess má geta að allar eru þær góðar söngkonur og fá áheyrendur að njóta þess.

Umbra hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2018 fyrir plötuna Sólhvörf en hún var valin þjóðlagaplata ársins. Þar tekur sveitin Umbra hlustandann í heillandi ferðalag þar sem tónlist tengd dimmum vetrardögum er í forgrunni. Virkilega vönduð plata þar sem lögin eiga það sameiginlegt að vera framúrskarandi útsett og flutt.

Tónlistarkonunrar hafa allar brennandi áhuga á fornri tónlist jafnt þeirri nýju. Ólíkar víddir þessarar tónlistar eru kannaðar í eigin útsetningum hópsins og í spuna, og hefur hópurinn skapað sinn eigin hljóðheim sem hefur fornan blæ.

Aðgangseyrir er kr. 2.500 en Kalmansvinir greiða kr. 2.000. Miðasala er við innganginn.

-fréttatilkynning

Borgarbyggð kallar eftir ábendingum

13 klukkutímar 21 mín síðan

Borgarbyggð hefur, í samstarfi við Capascent, ráðist í verkefni sem miðar að því að bæta þjónustu og skilvirkni á umhverfis- og skipulagssviði sveitarfélagsins og bæta móttöku og vinnslu erinda sem berast sveitarfélaginu. Ráðgjafar Capacent vinna nú að greiningu á þjónustu sveitarfélagsins og í því felst meðal annars að fá innsýn í upplifun notenda þjónustunnar, það er íbúa og fyrirtækja.

„Segðu okkur sögu/lýsingu af reynslu þinni af þjónustu Borgarbyggðar sem þú telur að geti nýst í þessu verkefni. Hvað er til fyrirmyndar og hvað má betur fara í þjónustu Borgarbyggðar,“ segir í tilkynningu frá Gunnlaugi A Júlíussyni sveitarstjóra um verkefnið, sem bætir við: „Vinsamlegast notið ábendingagátt á heimasíðu Borgarbyggðar til að koma ábendingum á framfæri. Þær þurfa að berast fyrir 27. september nk. Þær ábendingar sem berast verða eingöngu notaðar í þeim tilgangi að greina þjónustu Borgarbyggðar. Upplýsingum er ekki miðlað til þriðja aðila og fyllstra trúnaðar er gætt við meðhöndlun gagna. Upplýsingar þessar eru varðveittar á meðan greiningarferli stendur.“

Jafnt á Akranesvelli

13 klukkutímar 42 mín síðan

ÍA og Grindavík skildu jöfn, 1-1, þegar liðin mættust í 21. umferð Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu. Leikið var á Akranesvelli í gær. Skagamenn sigldu lygnan sjó um miðja deild fyrir leikinn, en Grindvíkingar þurftu á stigi að halda til að eiga minnsta möguleika á að halda sæti sínu í deildinni.

Bæði lið voru varkár í upphafi og leikurinn fremur tíðindalítill framan af, eða allt þar til ÍA komst yfir á 24. mínútu. Stefán Teitur Þórðarson tók aukaspyrnu rétt utan við vítateigsbogann, lyfti boltanum yfir varnarvegginn og efst upp í hægra hornið. Glæsilegt mark hjá Stefáni og lifnaði heldur yfir leiknum eftir það. Skagamenn voru nálægt því að bæta við öðru marki skömmu síðar þegar þeir fengu tvö góð tækifæri eftir hornspyrnu. Grindvíkingar vöknuðu sömuleiðis til lífsins án þess þó að skapa sér nein alvöru marktækifæri.

Gestirnir voru líflegri í upphafi síðari hálfleiks. Þeir voru nálægt því að jafna á 56. mínútu en Einar Logi Einarsson bjargaði á marklínu. Eftir því sem leið á leikinn féll Skagaliðið lengra til baka og freistaði þess að beita skyndisóknum. Grindvíkingar sóttu meira, áttu nokkrar álitlegar sóknir en engin dauðafæri, þar til jöfnunarmarkið kom á 85. mínútu. Löng aukaspyrna var send inn á teiginn þar sem Josip Zeba var aleinn og óvaldaður og skallaði boltann í bláhornið. Grindvíkingar sóttu stíft undir lokin, áttu skot rétt framhjá markinu og Skagamenn björguðu svo á línu í uppbótartíma. En fleiri mörk voru ekki skoruð og niðurstaðan því jafntefli.

ÍA situr í 6. sæti deildarinnar með 26 stig, jafn mörg og HK í sætinu fyrir ofan en stigi á undan Val og Víkingi R. Næsti leikur ÍA er útileikur gegn HK sunnudaginn 22. september næstkomandi.

Dönsk landsliðskona í Skallagrím

13 klukkutímar 51 mín síðan

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við dönsku landsliðskonuna Emilie Hesseldal. Mun hún leika með liði Borgnesinga í Domino‘s deildinni á næstu leiktíð.

Emilie er 28 ára gömul, 186 cm á hæð og leikur stöðu framherja. Hefur hún leikið með félagsliðum í heimalandinu Danmörku og í Portúgal við góðan orðstír, að því er fram kemur á Facebook-síðu kkd. Skallagríms. Áður lék hún um þriggja ára skeið með liði Colorado State háskólans í bandaríska háskólaboltanum.

Ríkisstofnun gefur ríkinu jörðina Dynjanda

14 klukkutímar 25 mín síðan

Í tilefni af 75 ára lýðveldisafmæli Íslands hefur Rarik ohf. fært íslenska ríkinu jörðina Dynjanda við Arnarfjörð að gjöf. Formleg afhending fór fram á Degi íslenskrar náttúru í gær. Skráður eigandi Dynjanda var Rarik ohf, sem er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins og stofnað 1. ágúst 2006. Félagið tók þá við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins sem hófu starfsemi sína 1. janúar 1947. Þannig má líta á gjöfina sem gjafagjörning þar sem opinberri eign er komið fyrir í öðrum vasa sama eiganda.

Innan marka jarðarinnar er náttúruvættið Dynjandi ásamt vatnasviði fossanna í Dynjandisá. Dynjandi er meðal hæstu fossa landsins, nær 100 metra hár, og af mörgum talinn ein af fegurstu náttúruperlum Íslands. Hann er einn helsti viðkomustaður ferðamanna á Vestfjörðum. Svæðið við Dynjanda er að mestu ósnortið og einkennist af áhrifum jökla sem hafa sorfið landið og skilið eftir sig einstaklega mikinn fjölda vatna og tjarna á Dynjandisheiði.

„Vegna sérstöðu þessa mikilfenglega náttúrvættis og tengingar jarðarinnar við fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, ákvað stjórn RARIK að færa ríkissjóði Íslands jörðina Dynjanda að gjöf á lýðveldisafmælinu. Samhliða því sem jörðin var afhent í dag undirrituðu Guðmundur Ingi og Birkir Jón Jónsson, formaður stjórnar RARIK, samkomulag milli ríkisins og RARIK. Markmið þess er að tryggja útivistar- og náttúruverndargildi jarðarinnar og náttúruvættisins Dynjanda. Dynjandi og aðrir fossar í Dynjandisá ásamt umhverfi þeirra voru friðlýst sem náttúruvætti árið 1981 en af hálfu stjórnvalda er nú stefnt að friðlýsingu allrar jarðarinnar,“ segir í tilkynningu um gjafagjörninginn.

Umhverfisóhapp í Andakílsá aftur til rannsóknar

15 klukkutímar 22 mín síðan

Ákveðið hefur verið að taka aftur upp lögreglurannsókn á umhverfisslysi sem varð í Andakílsá vorið 2017.

Eins og áður hefur verið greint frá rann mikill aur úr inntakslóni í farveg Andakílsár þegar verið var að undirbúa viðhald á inntaksstíflu Andakílsvirkjunar og hreinsun á seti úr lóninu. „Orka náttúrunnar, sem á og rekur Andakílsárvirkjun, tók þegar ábyrgð á mistökunum og hefur átt í samstarfi við heimamenn og vísindafólk um aðgerðir til að reisa lífríki árinnar við að nýju, einkum laxastofninn,“ segir í tilkynningu frá Orku náttúrunnar. Samhliða því vann ON greiningu á atburðarásinni með það fyrir augum að koma í veg fyrir að slíkt geti hent aftur.

Aðgerðirnar virðast hafa gefið góða raun, að því er fram kemur á vef ON, en um 30 þúsund laxaseiðum, sem ræktun var hafin á úr stofni árinnar eftir óhappið, var sleppt í ána í vor. Ekki hefur verið veitt í ánni í sumar en ráðgert er að stangveiði hefjist þar að nýju næsta sumar. Þá verður 30 þúsund seiðum til viðbótar sleppt í ána.

Lögreglustjórnn á Vesturlandi hafði óhappið til rannsóknar. Meðal annars átti að kanna hvort fyrirtækið hefði gerst brotlegt við lög með vangá við aðgerðir við inntakslónið. Eftir gagnaöflun og skýrslutökur var sú rannsókn hins vegar felld niður, þar sem ekki þótti líklegt að um lögbrot væri að ræða. „Sú ákvörðun var kærð til ríkissaksóknara sem nú hefur tilkynnt ON að embættið hafi falið lögreglustjóranum að rannsaka málið frekar,“ segir á vef ON. „Orka náttúrunnar mun hér eftir sem hingað til vinna með heimafólki og vísindafólki að vöktun og eflingu lífríkis árinnar og vera yfirvöldum innan handar um öflun frekari gagna um atburðina.“

Leggja til að stofnað verði embætti hagsmunafulltrúa aldraðra

17 klukkutímar 21 mín síðan

Inga Sæland formaður Flokks fólksins hefur boðað þingsályktunartillögu um að fela félags- og barnamálaráðherra að leggja fyrir árslok 2020 fram frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra. Þetta er í annað sinn sem þingmaðurinn boðar þessa tillögu, en hún hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi og er nú lögð fram óbreytt. „Þjónusta við aldraða dreifist á ríki, sveitarfélög, félagasamtök og einkaaðila. Lög og reglur um málaflokk aldraðra eru flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur og misjafnlega færir um að gæta eigin réttar og hagsmuna. Að mati flutningsmanna er því rík þörf á málsvara sem gætir réttinda og hagsmuna aldraðra og leiðbeinir þeim um rétt þeirra,“ segir í tilkynningu frá Flokki fólksins.

Hagsmunafulltrúa aldraðra er samkvæmt tillögunni ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum aldraðra almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem hjá einkaaðilum, leiðbeina öldruðum um réttindi sín og bregðast við telji hann að brotið sé á þeim. „Hagsmunafulltrúa aldraðra ber að hafa frumkvæðiseftirlit með persónulegum högum allra eldri borgara, sérstaklega með tilliti til að koma í veg fyrir félagslega einangrun, næringarskort og almennt bágan aðbúnað þeirra. Jafnframt skal hann gera tillögur um úrbætur á réttarreglum er varða aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra.

Veðurtepptir farþegar í Grundarfirði

mánud., 16/09/2019 - 15:02

Farþegaskipið Ocean Diamond lagðist að bryggju í Grundarfirði um helgina og samkvæmt áætlun skipsins átti það að sigla til Reykjavíkur á sunnudagskvöld að taka á móti nýjum farþegum. En veðrið spillti þessari áætlun með hvassviðri og brælu á Faxaflóa þannig að áhöfn skipsins taldi öruggast að bíða í öruggri höfn á meðan veðrið gengi yfir.

Farþegarnir sem voru að klára ferðina voru svo fluttir með rútum frá Grundarfirði til Keflavíkur. Á morgun koma nýir farþegar með rútum til Grundarfjarðar og fara um borð í skipið þar. Áætlað er að skipið leggi úr höfn þaðan sama kvöld.

Einn látinn eftir árekstur á Borgarfjarðarbraut

mánud., 16/09/2019 - 14:18

Farþegi annarrar bifreiðarinnar sem lenti í hörðum árekstri á Borgarfjarðarbraut í gær er látinn. Hinn látni var erlendur ferðamaður á ferð um landið. Þetta kemur fram í uppfærðri tilkynningu Lögreglunnar á Vesturlandi.

Slysið varð rétt fyrir klukkan 11:00 í gærdag við Grjóteyri í Borgarfirði. Þrír voru í öðrum bílnum og en ökumaður einn í hinum. Borgarfjarðarbraut var lokuð í nokkrar klukkustundir vegna slyssins. Rannsókn á tildrögum slyssins stendur enn yfir.

Sigur í Mosfellsbænum

mánud., 16/09/2019 - 13:30

Víkingur Ó. lagði Aftureldingu, 1-0, þegar liðin mættust í næstsíðustu umferð Inkasso deildar karla í knattspyrnu. Leikið var á Varmárvelli í Mosfellsbæ á laugardaginn.

Heimamenn voru heldur sterkari í fyrri hálfleik. Þeir léku með vindinn í bakið, en nokkuð hvasst var á Varmárvelli og setti það svip sinn á leikinn. Afturelding fékk dauðafæri strax á 5. mínútu leiksins þegar Ásgeir Örn Arnþórsson slapp einn í gegn en Franko Lalic varði vel frá honum í marki Víkings. Boltinn barst síðan aftur á Ásgeir sem skaut honum yfir markið. Afturelding skapaði sér nokkur ágætis færi fram að hálfleiknum en Ólafsvíkingar fundu ekki taktinn í sókninni.

Það bætti heldur í vindinn í síðari hálfleik og virtist það slá heimamenn nokkuð út af laginu. Ólafsvíkingar komust betur inn í leikinn, án þess þó að skapa sér mikið af færum. Þeir fengu tvö ágætis tækifæri úr aukaspyrnu og langskoti snemma í síðari hálfleiknum en tókst ekki að koma boltanum í netið. Eina mark leiksins skoraði Harley Willard á 65. mínútu, með skoti fyrir utan vítateig. Jon T. Martinez, markvörður Aftureldingar, var í boltanum en náði ekki að verja skotið. Víkingur þar með kominn með 0-1 forystu sem þeir héldu allt til leiksloka.

Víkingur situr í 6. sæti deildarinnar með 31 stig, jafn mörg og Keflavík í sætinu fyrir neðan en tveimur stigum á eftir næstu liðum fyrir ofan. Lokaleikur Ólafsvíkinga í deildinni í sumar er heimaleikur gegn Njarðvíkingum laugardaginn 21. september næstkomandi.

Skagakonur öruggar

mánud., 16/09/2019 - 12:44

ÍA tryggði sæti sitt í Inkasso deild kvenna í knattspyrnu á föstudag. Skagakonur sigruðu Aftureldingu 2-0 á heimavelli í næstsíðustu umferð deildarinnar og eru þar með fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

Skagakonur byrjuðu leikinn af krafti og komust yfir strax á 6. mínútu þegar Íris Dögg Gunnarsdóttir, markvörður Aftureldingar, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Sigrún Eva Sigurðardóttir tók glæsilega hornspyrnu frá vinstri, skrúfaði boltann inn að markinu á nærstöngina. Íris Dögg steig á móti boltanum og ætlaði að slá hann frá en hitti hann ekki nógu vel svo hann hafnaði í netinu.

Skagakonur höfðu yfirhöndina það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, sýndu á köflum ágæta sóknartilburði og sköpuðu sér nokkur fín færi sem ekki tókst að nýta. Þær léku sömuleiðis þétta vörn svo gestirnir úr Mosfellsbæ komust lítt áleiðis og tókst ekki að skapa mikið.

ÍA liðið var áfram sterkara í síðari hálfleik, var meira með boltann og náði að skapa sér ágætis færi. Afturelding sótti þó heldur í sig veðrið og átti nokkrar álitlegar sóknir en tókst ekki að komast á blað. Skagakonur gerðu svo út um leikinn á 82. mínútu. Erla Karitas Jóhannesdóttir átti þá góða fyrirgjöf inn í teiginn frá hægri. Boltinn fór framhjá varnarmönnum Aftureldingar og á Védísi Öglu Reynisdóttur sem skoraði með föstu skoti úr vítateignum. Var þetta fyrsta mark Védísar fyrir meistaraflokk en ef til vill hefði Íris Dögg í marki Aftureldingar átt að gera betur.

Eftir sigurinn er ÍA í 6. sæti með 19 stig, jafn mörg og Augnablik og Fjölnir í sætunum fyrir neðan. En það sem mestu máli skiptir er að liðið hefur fjögurra stiga forskot á Grindavík sem situr í fallsæti þegar einn leikur er eftir. Skagakonur munu því leika áfram í Inkasso deildinni að ári. Lokaleikur ÍA í sumar er gegn Tindastóli á föstudaginn, 20. september. Hann fer fram á Sauðárkróki.

Tóku þátt í Tallin maraþoninu

mánud., 16/09/2019 - 12:01

Tallin maraþonið var hlaupið sunnudaginn 8. september í höfuðborg Eistlands. 17 Íslendingar voru skráðir til keppni, þar af fjórir úr hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi; Stefán Gíslason, Gunnar Viðar Gunnarsson, Ingveldur Ingibergsdóttir og Hjalti Rósinkrans Benediktsson, en Hjalti tók reyndar ekki þátt í hlaupinu. Gunnlaugur Júlíusson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, hafði einnig skráð sig til leiks en tók ekki þátt.

Fór svo að Stefán Gíslason kom í mark fyrstur Íslendinga á 3:29:41 og skilaði það honum 445. sæti af öllum keppendum. Birkir Þór Stefánsson, bóndi í Tröllatungu á Ströndum, varð annar Íslendinganna aðeins 15 sekúndum á eftir Stefáni. Birkir hljóp reyndar 10 km daginn áður ásamt Sigríði Drífu Þórólfsdóttur og tveimur börnum þeirra, svona rétt til að hita sig upp fyrir maraþonið. Þriðji Íslendinga var Sigurður H Sigurðarson á 3:30:48, en hann hleypur fyrir ÍR. Gunnar Viðar endaði í 8. sæti af Íslendingunum og 724. sæti allra hlaupara og Ingveldur Ingibergsdóttir varð 9. af Íslendingunum en 731. af öllum hlaupurum.

Fólk þarf að forðast að bera smit hundasjúkdóms til landsins

mánud., 16/09/2019 - 11:01

Matvælastofnun beinir þeim tilmælum til fólks sem er að koma frá Noregi að gæta ýtrustu varkárni til að koma í veg fyrir að sjúkdómur í hundum þar í landi berist til Íslands. Smitið, sem lýsir sér í blóðugum uppköstum og niðurgangi, hefur valdið bráðum dauða þrátt fyrir meðhöndlun. Fólk sem hefur verið í mikilli snertingu við veika hunda eða verið á svæðum þar sem mörg tilfelli hafa greinst er bent á að skipta um fatnað og þrífa og sótthreinsa skófatnað fyrir komu. Bann við innflutningi hunda frá Noregi sem Matvælastofnun setti 6. september mun verða áfram í gildi um óákveðinn tíma.

Slökkviliðið án körfubíls frá því í vor

mánud., 16/09/2019 - 10:01

Hinn 42 ára gamli Scania körfubíll Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðasveitar hefur staðið ónothæfur frá því í vor þegar úttekt Vinnueftirlitsins leiddi í ljós að búnaði í honum er ábótavant. Nú er búið að leggja númer bílsins inn til geymslu. Körfubílar eru dýr tæki en nýr bíll er talinn kosta um 80 milljónir króna. Það er nú til skoðunar hjá sveitarfélögunum sem standa að slökkviliðinu hvernig fjármagna megi kaup á öðrum bíl. Þar til lausn fæst þarf að treysta á aðstoð frá slökkviliðum á höfuðborgarsvæðinu eða í Borgarnesi. Þráinn Ólafsson slökkviliðsstjóri segir að ef til bruna kæmi í háreistum húsum verði að auki að treysta á aðstoð verktaka sem eiga skotbómulyftara, krana og annan tækjakost sem nýst gæti við slíkar aðstæður. „Strangt til tekið hefur slökkviliðið ekki nú búnað til að ná upp á fimmtu hæðir húsa og allt þar fyrir ofan,“ segir hann.

Að sögn Þráins lítur hann það alvarlegum augum að enginn nothæfur körfubíll sé nú í flota liðsins. Á svæðinu eru fjölmörg háreist fjölbýlishús og stærri iðnaðarhús sem krefjast þess að búið sé yfir réttum búnaði ef eldur kemur upp. „Það segir sig sjálft á starfssvæði með á níunda þúsund íbúa og stóriðjufyrirtæki á Grundartanga, þá verður slökkviliðið að vera vel tækjum búið. Ég treysti hins vegar á að sveitarfélögin líti málið sömu augum og við og tryggi fjármögnun á nýjum körfubíl hið allra fyrsta. Sveitarstjórnarfólk sýnir málinu skilning og ég er því vongóður að úr rætist innan tíðar,“ segir Þráinn.

Rætt um framtíð Þríhyrningsins

mánud., 16/09/2019 - 09:01

Nýverið bauð Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grundarfjarðarbæjar til óformlegs spjallfundar um útivistarsvæðið í Þríhyrningi sem er opið svæði sem afmarkast af Grundargötu, Borgarbrautar og Hlíðarvegs í Grundarfirði. Ágætis mæting var á fundinn og voru menn sammála um að bæta svæðið svo að það myndi nýtast bæjarbúum sem best. Hugmyndir eru uppi um að nýta svæðið fyrir grunn- og leikskóla bæjarins með útikennslusvæði. Einnig eru hugmyndir um einhverskonar afþreyingu á svæðið eins og leiktæki, minigolf og annað þess háttar. Það verður því spennandi að fylgjast með framhaldinu á þessum græna reit.

Ljósleiðaravæða landstærsta sveitarfélag Vesturlands

mánud., 16/09/2019 - 08:01

Lagning ljósleiðara um dreifbýli í Borgarbyggð er nú hafin, en dreifbýli sveitarfélagsins er það eina á Vesturlandi sem eftir á að koma ljósleiðara um. Sökum landstærðar er nú búið að skipta verkefninu niður í 18 sjálfstæða áfanga. Hugsunin með áfangaskiptingu er margþætt og m.a. til þess að íbúar geti fylgst með framkvæmdum, afmörkun hvers svæðis og ekki síst hvenær þeir geta vænst þess að röðin komi að þeim. Upplýsingar um áfangaskiptinguna, hvaða hlutverki hún gegnir og fleira henni tengdri má finna á upplýsingasíðu verkefnisins, á vefslóðinni ljósborg.net.

Verktakar hafa í liðinni viku undirbúið sig fyrir að hefja jarðvinnu og hófst plæging ljósleiðara við Kljáfoss. „Plógurinn er nú skriðinn af stað og þar með stórt skref stigið,“ segir á upplýsingasíðu verkefnisins. Með lagningu á áfanga fimm, sem liggur frá Kljáfossi að Varmalandi, er markmiðið að tengja saman tvær af kerfismiðjum auk þess að tengja grunnskólana að Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Áætlað er að vinna við áfanga 5 taki um 5-7 vikur. Áfangar 2, 3 og 4 eru næstir í áfanga uppröðun verktakans. Heimsóknir til landeigenda og íbúa í áföngum 2, 3 og 4  standa nú yfir.

Stefnt er að því að skólarnir á Varmalandi og Kleppjárnsreykjum verði tengdir fyrir næstu áramót. Þá verður m.a. unnið að tengingum í Reykholtsdal, Hálsasveit neðsta hluta Hvítársíðu og bæi í Stafholtungum meðfram stofnæðinni, sem merktir eru á vinnukort verkefnisins sem áfangar 2, 3 og 4. „Sá fyrirvari er hafður á verklagi að vinnuflokkar geta fært sig til eftir aðstæðum, til dæmis ef frost hleypur djúpt í jörðu. Veðurfar í vetur getur þannig haft áhrif á verkskipulag,“ segir Gunnlaugur A Júlíusson sveitarstjóri í samtali við Skessuhorn.

Fyrirlestur um fuglaskoðunarskýli og stígagerð

mánud., 16/09/2019 - 06:01

„Arkitektúr og náttúra – jákvæð áhrif hönnunar á náttúruna,“ er yfirskrift opins fyrirlestrar sem fluttur verður við LbhÍ á Hvanneyri mánudagskvöldið 23. september nk. kl. 20:30 Hann er haldinn af tilefni heimsóknar gestakennarans Tormod Amundsen. Fyrirlesturinn tekur um 40 mínútur og fer fram á ensku. Á eftir verða umræður um efnið. Þá mun Sigurjón Einarsson fuglaljósmyndari sýna myndir sem hann hefur tekið af fuglum á svæðinu og ræða sína sýn.

Tormod kemur hingað til lands í gegnum Erasmus+ sem er styrkjaáætlun ESB fyrir mennta- æskulýðs- og íþróttamál 2014 – 2020. Tormod stofnaði og rekur fyrstu og einu arkitektastofu heims, með sérþekkingu á fuglum og fuglaskoðun. Stofan notar hönnun sem verkfæri  til að vernda og efla dýralíf og náttúru með áherslu á vistvæna ferðamennsku og náttúruverndarsvæði. Þá hefur Tormod staðið fyrir fuglaskoðunarhátíð í Varanger, nyrst í Noregi. En henni er ætlað að vekja athygli á ríku fuglalífi  svæðisins og hvernig það getur nýst samfélaginu. Biotope hefur unnið að verkefnum á Íslandi og er með röð verkefna í gangi á Norðausturlandi, þar sem þrjú náttúruskýli eru þegar tilbúin sem hluti af stærri uppbyggingaráætlun fyrir valda áfangastaði.

Verndarsvæðið í Andakíl var friðlýst sem búsvæði blesgæsa árið 2002. Landsvæðið var stækkað árið 2011 og er nú 3.086 ha að stærð, nær yfir 14 jarðir í Andakíl. Svæðið er friðlýst sem búsvæði fugla og er einn af mikilvægustu áningarstöðum grænlenska blesgæsastofnsins á Íslandi. Árið 2013 var svæðið skráð á lista Ramsar-samningsins yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði.  Fjölbreytt fuglalíf er sannarlega ein af perlum Hvanneyrar. Allir áhugasamir um uppbyggingu fuglaskoðunar sem möguleika á uppbygginu á vistvænni ferðamennsku eru hvattir til að koma. Að fyrirlestrinum standa umhverfisskipulagsbraut LbhÍ og alþjóðaskrifstofa LbhÍ.

-fréttatilk.

Síður