Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 1 klukkutími 44 mín síðan

Olís kolefnisjafnar allan rekstur

mánud., 22/07/2019 - 13:37

Olíuverzlun Íslands hefur kolefnisjafnað allan rekstur félagsins en um er að ræða akstur, flug og dreifingu eldsneytis til viðskiptavina félagsins um allt land. Verkefnið er unnið í samstarfi við Landgræðsluna en Olís og Landgræðslan hafa átt í samstarfi undanfarin 30 ár og undirrituðu sl. föstudag samstarfssamning til næstu fimm ára.

,,Við erum mjög ánægð með að halda áfram okkar góða samstarfi við Landgræðsluna sem hófst fyrir um 30 árum. Umhverfisstefna Olís byggir á því að tryggt sé, með hliðsjón af eðli starfsemi félagsins, að umhverfissjónarmið séu höfð að leiðarljósi í öllu starfi félagsins. Félagið telur nauðsynlegt að standa vörð um náttúru landsins og vill nýta auðlindir landsins á sjálfbæran hátt og stuðla að vexti þeirra svo sem kostur er,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.  Hann segir að þótt samningurinn við Landgræðsluna sé til fimm ára þá horfi Olís lengra fram í tímann. ,,Þetta er samstarfsverkefni sem á sér rætur 30 ár aftur í tímann og ég lít svo á að við munum vinna þetta áfram með Landgræðslunni í framtíðinni.“

-fréttatilkynning

Grátlegt tap Skagakvenna

mánud., 22/07/2019 - 11:30

ÍA mátti sætta sig við svekkjandi 1-2 tap gegn Tindastóli þegar liðin mættust í níundu umferð Inkasso deildar kvenna í knattspyrnu á Akranesi á föstudagskvöld. Gestirnir skoruðu tvö mörk á lokamínútunum og stálu sigrinum.

Skagakonur mættu ákveðnar til leiks en það var engu að síður Tindastólsliðið sem var heilt yfir öflugra og fékk betri færi í fyrri hálfleik. Maurielle Tiernan fékk besta færi hálfleiksins þegar hún slapp ein í gegn en Aníta Ólafsdóttir lokaði á hana og varði vel. ÍA liðið átti nokkrar álitlegar sóknir sem ekki tókst að nýta og staðan því markalaus í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks. Dró til tíðinda á 57. mínútu þegar María Dögg Jóhannesdóttir var rekin af velli úr liði Tindastóls. Eftir baráttu við Erlu Karitas Jóhannesdóttur virtist María brjóta á henni en sparkaði síðan viljandi í hana þar sem hún lá á jörðinni. Uppskar hún verðskuldað rautt spjald fyrir vikið.

Skagakonur sóttu í sig veðrið eftir þetta og ógnuðu meira og meira eftir því sem leið á leikinn. Kom loksins að því að þær skoruðu á 81. mínútu leiksins. Eftir tvö skot að marki Tindastóls sem Lauren Allen varði vel barst boltinn á Erlu Karitas sem kom honum yfir marklínuna og ÍA í 1-0.

En gestirnir voru ekki af baki dottnir. Skömmu síðar slapp Murielle ein í gegn en Aníta varði glæsilega frá henni í horn. Upp úr hornspyrnunni jöfnuðu Tindastólskonur metin þegar Murielle skoraði.

Á lokamínútu venjulegs leiktíma var Klara Kristvinsdóttir nálægt því að tryggja ÍA sigur með þrumuskoti af löngu færi sem small í þverslánni. Tindastóll fór í sókn og sótti hornspyrnu og upp úr henni skoraði Murielle með skalla og stal sigrinum fyrir Sauðkrækinga. Ótrúleg dramatík á Akranesvelli og ákaflega svekkjandi tap fyrir ÍA liðið.

Skagaskonur eru í sjöunda sæti deildarinnar með ellefu stig, jafn mörg og Grindavík og Fjölnir í sætunum fyrir neðan en stigi á eftir Haukum og Augnabliki í sætunum fyrir ofan. Næst leika Skagakonur fimmtudaginn 25. júlí, þegar þær mæta toppliði FH í Hafnarfirði.

Dramatískt jafntefli Víkings

mánud., 22/07/2019 - 11:00

Víkingur Ó. og Grótta skildu jöfn, 2-2, í dramatískum leik í 13. umferð Inkasso deildar karla í knattspyrnu. Leikið var á Seltjarnarnesi á laugardaginn var.

Fyrri hálfleikur var fjörugur í meira lagi, opinn og skemmtilegur. Besta færi fyrri hálfleiks fengu Ólafsvíkingar á 28. mínútu. Ívar Reynir Antonsson átti frábæra sendingu fyrir markið á Sallieu Tarawallie sem skallaði boltann í þverslána. Færin voru mun fleiri en mörkin létu þó á sér standa og staðan var markalaus þegar flautað var til hálfleiks.

Það átti hins vegar eftir að breytast og það snarlega, því heimamenn komust yfir á 47. mínútu þegar Axel Freyr Harðarson skoraði með skalla eftir hornspyrnu.

Ólafsvíkingar voru ekki lengi að jafna metin. Vidmar Miha tók aukaspyrnu á 51. mínútu. Boltinn fór af Sallieu og þaðan á fjærstöng þangað sem Emmanuel Keke var mættur og lagði boltann í netið.

Á 71. mínútu fengu Ólafsvíkingar vítaspyrnu eftir að brotið var á Vidmar í teignum. Harley Willard fór á punktinn, skoraði af miklu öryggi og kom Víkingsliðinu yfir.

Eftir því sem leið varð leikurinn daufari. Ólafsvíkingar féllu til baka og leikurinn virtist vera að fjara út þegar Sölvi Björnsson féll í vítateig Víkings í uppbótartíma og vítaspyrna var dæmd. Óliver Dagur Thorlacius tók spyrnuna, skoraði af öryggi og jafnaði metin á ögurstundu. Lokatölur á Seltjarnarnesi urðu því 2-2.

Víkingur Ó. situr í fjórða sæti deildarinnar með 21 stig, jafn mörg og Leiknir í sætinu fyrir neðan en fjórum stigum á eftir Grótt usem vermir þriðja sætið. Næst leika Ólafsvíkingar fimmtudaginn 25. júlí, þegar þeir mæta Þrótti R. á Ólafsvíkurvelli.

TF GRÓ fór í sitt fyrsta útkall um helgina

mánud., 22/07/2019 - 10:21

Nýjasta þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GRÓ, fór í sitt fyrsta útkall á laugardaginn. Sótti hún þá mann sem slasast hafði á fæti á Fimmvörðuhálsi. Þyrla þessi er seinni af tveimur sem leigðar voru til landsins, en áður hafði leiguþyrlan TF-EIR komið í vetur. TF GRÓ er af gerðinni Super Puma, árgerð 2010 og er í eigu norska fyrirtækisins Ugland Holding. Þyrlan leysir af hólmi þyrluna TF-SÝN. Fyrir í þyrluflota Gæslunnar er svo TF LÍF sem kom hingað til lands 1995 en hún er í eigu Landhelgisgæslunnar.

Auknar kröfur um úrbætur í Efstadal II

mánud., 22/07/2019 - 10:20

Síðastliðinn fimmtudag voru rannsökuð sýni frá sex einstaklingum og greindist enginn með E. coli sýkingu. Alls hefur E. coli sýking því verið staðfest hjá 21 einstaklingi, þar af eru 19 börn og tveir fullorðnir. Ekkert barn er nú inniliggjandi á Barnaspítala Hringsins af völdum STEC E. coli og enn er beðið eftir staðfestingu á greiningu hjá barninu í Bandaríkjunum sem grunað er um alvarlega E. coli sýkingu.

Niðurstöður frá þeim tveimur fullorðnu einstaklingum sem greindust með bakteríuna þ. 17. júlí sýndu að báðir voru þeir með sömu tegund og greinst hefur í börnunum og kálfum í Efstadal. Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að annar einstaklinganna starfar í Efstadal og hefur verið einkennalaus. Viðkomandi hefur ekki starfað við matvælaframleiðslu eða afgreiðslu matvæla og hefur því ekki sérstaka tengingu við hina sýktu. Niðurstaðan sýnir hins vegar að E. coli bakterían er útbreiddari á staðnum en áður hefur verið sýnt fram á og ekki eingöngu bundin við kálfana.

Hinn einstaklingurinn er erlendur ferðamaður sem kom til landsins 5. júlí sl. Hann heimsótti Efstadal 8. júlí og veiktist 11. júlí. Í Efstadal neytti hann matvæla, þar á meðal íss en var ekki í samneyti við dýr.

Það er því ljóst að ekki hefur tekist að uppræta smit og smitleiðir í Efstadal með þeim aðgerðum sem gripið var til um og eftir 4. júlí sl. Í ljósi þessara upplýsinga hefur Heilbrigðiseftirlit Suðurlands í samráði við Matvælastofnun gert kröfur um úrbætur á eftirfarandi þáttum starfseminnar:

  1. Sala íss verði stöðvuð þar til alþrif og sótthreinsun hefur verið gerð. Framleiðsla íss á staðnum var stöðvuð þ. 5. júlí sl. og verður ekki hafin fyrr en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
  2. Alþrif og sótthreinsun fari fram á veitingastað og aðlægum rýmum (var lokið 19.7).
  3. Aðgengi að dýrum verði áfram lokað þar til viðunandi hreinlætisaðstaða/handþvottaraðstaða hefur verið sett upp.
  4. Aðskilnaður milli veitingasvæða og dýra verði efldur.
  5. Starfsmenn sem vinni við matvæli þurfi að sýna fram á þeir séu ekki með bakteríuna STEC E.coli.

Jafnt norðan heiða

mánud., 22/07/2019 - 09:19

ÍA og KA skildu jöfn, 1-1, þegar liðin mættust í 13. umferð Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu. Leikurinn fór fram á Akureyri í gærdag.

Leikurinn fór fjörlega af stað og Skagamenn komust yfir strax á 10. mínútu leiksins. Stefán Teitur Þórðarson tók aukaspyrnu frá hægri, sendi boltann fyrir markið á Viktor Jónsson sem skoraði með góðum skalla.

Skagamenn voru sterkari lengst af í fyrri hálfleik án þess þó að skapa sér mikið af opnum marktækifærum. Langbesta færi hálfleiksins fékk Tryggvi Hrafn Harlaldsson á 31. mínútu. Jón Gísli Eyland Gíslason átti þá langan bolta inn fyrir vörn KA. Tryggvi Hrafn tók vel á móti boltanum og fór framhjá markverðinum en skaut framhjá opnu markinu. Besta færi KA-manna í fyrri hálfleik var lúmskur skalli sem Árni Snær Ólafsson varði glæsilega í marki ÍA. Staðan 1-0 eftir 45 mínútur.

Snemma í síðari hálfleik voru Skagamenn nálægt því að koma boltanum yfir línuna eftir mikið at í vítateig KA-manna, en Aron Dagur Birnuson í markinu náði að bjarga á síðustu stundu. Það var síðan á 58. mínútu að heimamenn jöfnuðu metin, svo að segja upp úr þurru. Almarr Ormarsson fékk boltann á miðjum vellinum, fór framhjá Stefáni Teit og skoraði með góðu skoti í hornið fjær.

Bæði lið freistuðu þess að skora sigurmarkið það sem eftir lifði leiks en hvorugu tókst að skapa sér alvöru marktækifæri. Leiknum lauk því með 1-1 jafntefli.

ÍA situr í þriðja sæti deildarinnar með 22 stig, jafn mörg og Breiðablik í sætinu fyrir ofan en tveimur stigum á undan Stjörnunni í sætinu fyrir neðan. Næst leika Skagamenn á sunnudaginn, 28. júlí næstkomandi, þegar þeir fá Valsmenn í heimsókn á Akranes.

Stefnir í stærsta ferðaþjónustudag frá upphafi

mánud., 22/07/2019 - 08:41

„Í dag er stærsti skemmtiferðaskipadagurinn sem við höfum haft í Grundarfjarðarhöfn frá upphafi. Við fáum þrjú skip í Grundarfjarðarhöfn,“ segir Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri í samtali við Skessuhorn. Skemmtiferðaskipin sem koma í dag eru Sapphire Prinsess, Star Breeze og Astoria. Hátt í fjögur þúsund farþegar eru í skipunum.  Björg segir metfjölda gesta á tjaldsvæðinu bæjarins. „Þetta er algjör sprengja, þannig að það er líf og fjör í bænum í aðdraganda bæjarhátíðarinnar Á góðri stundu sem hefst nú í vikunni og nær hámæli um helgina.“

Tómas Freyr Kristjánsson fréttaritari Skessuhorns myndaði tjaldsvæði bæjarins úr lofti í gærkvöldi og segir að óvenju þétt hafi verið á öllum grasblettum tjaldsvæðisins og bætir við að gríðarleg aukning hafi verið á því í sumar. Ástæðuna megi vafalítið rekja að hluta til þess að Grundarfjarðarbær er núna á hinu svokallaða útilegukorti í fyrsta sinn. Handhafar útilegukortsins gista frítt á völdum tjaldsvæðum víðsvegar um landið og eru fjölmargir sem nýta sér það. Einnig hafi veðurspáin spilað sitt hlutverk en veðrið lék við íbúa Vesturlands um helgina. Þá eru auk þess fleiri Íslendingar á ferðalagi í eigin landi en undangengin ár.

Fyrir þá sem vilja fylgjast með dagskrá bæjarhátíðarinnar er bent á heimasíðuna: http://www.agodristund.com/

Brotlenti við flugvöllinn í Rifi

mánud., 22/07/2019 - 08:34

Fisflugvél missti afl og brotlenti við flutvöllinn í Rifi á Snæfellsnesi á laugardaginn. Tveir voru í vélinni og var annar þeirra fluttur með minniháttar áverka til aðhlynningar á heilsugæslustöðinni í Ólafsvík. Hinn sakaði ekki. Vélin var komin nokkra metra á loft þegar hún missti afl og brotlenti.  Vélin er talsvert skemmd.

Gott hljóð í strandveiðimönnum

mánud., 22/07/2019 - 08:00

Fleiri bátar hafa stundað strandveiðar í sumar miðað við í fyrra. Í þarsíðustu viku voru 607 bátar komnir með strandveiðileyfi, en voru 536 sama dag 2018. Hærra fiskverð og lægri veiðigjöld á sinn þátt í því að fleiri halda til strandveiða þetta árið, eftir fækkun undanfarinna ára.

Skagamaðurinn Stefán Jónsson á Grími AK-1 aflaði mest allra á síðustu strandveiðivertíð, en hann gerði þá og gerir enn út frá Arnarstapa. Hann segir aðstæður allt aðrar og betri til veiða í sumar. Bæði hafi fiskverð verið hærra og veðrið betra en það var í fyrrasumar.

„Það munar miklu að fá þetta um hundrað krónum meira fyrir kílóið. Verðið í fyrra var ekki boðlegt fyrir okkur sjómenn. Í sumar hefur það hins vegar verið um 350 krónur,“ sagði Stefán þegar blaðamaður hitti hann á þvottaplaninu við Olís á Akranesi síðastliðið fimmtudagskvöld. Þá var hann nýkominn í helgarfrí frá Stapanum.

Í heildina voru strandveiðibátarnir búnir að landa sex þúsund tonnum um miðja síðustu viku, eða 740 tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Engu að síður er aflinn á hvern bát að meðaltali minni en hann var í fyrrasumar, eða 10,2 tonn, sem er hundrað kílóum minni afli að meðaltali.

Reglur um strandveiðar segja til um að þær megi hver bátur stunda samtals 12 daga innan hvers mánaðar frá maí til og með ágúst, alls 48 daga. Einungis er leyfilegt að veiða á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum, þegar ekki er um rauða frídaga að ræða á almanakinu.

Meðalævin lengist

mánud., 22/07/2019 - 06:01

Meðalævilengt kvenna á Íslandi var 84,1 ár á síðasta ári en 81 ár hjá körlum. Meðalævilengt sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali eftir ólifuð við fæðingu, ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjölda.

Aldursbundin dánartíðni hefur lækkað undanfarinn áratug og því má reikna með að fólk lifi að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segir til um. „Frá árinu 1988 hafa karlar bætt við sig rúmlega sex árum og konur rúmlega fjórum í meðalævilengt,“ segir í frétt á vef Hagstofunnar.

Árið 2018 létust 2.254 íbúar búsettir hérlendis, 1.139 karlar og 1.115 konur. Dánartíðni var 6,4 á hverja 1.000 íbúa. Ungbarnadauði var 1,7 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum hérlendis árið 2018 og er tíðni ungbarnadauða hvergi lægri í Evrópu.

Makrílveiðar fóru vel af stað hjá skipum HB Granda

fös, 19/07/2019 - 14:01

Víkingur AK kom til Vopnafjarðar síðdegis í gær með um 790 tonn af makríl. Þetta er önnur veiðiferð skipsins á vertíðinni, en áður hefur Venus NS landað tvívegis á Vopnafirði þannig að makrílvinnsla skipa HB Granda er komin í fullan gang fyrir austan. ,,Vertíðin fer betur af stað nú en í fyrra,“ segir Hjalti Einarsson, skipstjóri á Víkingi á fréttavef fyrirtækisins, en hann segir þó erfitt að ráða í vertíðarbyrjunina. ,,Hitaskilin eru nú mun vestar en fyrri ár en við höfum mest verið að veiðum suður af Vestmannaeyjum. Sjávarhitinn er um 11-12 gráður og aflinn hefur sveiflast mjög mikið. Stundum höfum við fengið góð hol en svo lítið sem ekkert þess á milli. Við hefðum gjarnan viljað finna makríl í veiðanlegu magni austar en menn hafa ekki gefið sér nægan tíma til að leita nægilega vel. Svo liggur munurinn milli ára e.t.v. í því að sumarið í ár er mun bjartara og hlýrra en sumarið í fyrra,“ sagði Hjalti Einarsson.

Líkt og undanfarin ár gengur makríllinn upp með vestur- og austurströnd landsins. Vart hefur orðið við makríl inni á höfnum á Suðurnesjum en ekki hefur heyrst af því að uppsjávarskip hafi fengið afla vestan við landið eða á Faxaflóa.

Óska tilnefninga um framúrskarandi unga Íslendinga

fös, 19/07/2019 - 13:01

Verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar eru veitt árlega af JCI Íslandi. Þau eru fyrst og fremst hvatningarverðlaun til ungs fólks sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni. „Þetta er hvatning og viðurkenning fyrir ungt fólk sem kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni,“ segir í tilkynningu frá JCI Íslandi. „Framtíðarsýn JCI Íslands fyrir verðlaunin er sú að þau skapi sér sess í íslensku þjóðlífi. Veki athygli á ungu fólki sem starfar af eldmóð, heilindum og ósérhlífni án þess endilega að hafa hlotið athygli almennings og verði þeim sem þau hljóta hvatning til frekari dáða og veki athygli á verkum þeirra.“

Á hverju ári biður JCI almenning um aðstoð við að finna framúrskarandi ungt fólk á aldrinum 18-40 ára. Leitað er að einstaklingum sem hafa skarað framúr á sínu sviði, verið góðar fyrirmyndir og gefið af sér til samfélagsins.

Tilnefnt er í eftirfarandi tíu flokkum:

Störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði.

Störf á sviði stjórnmála, ríkismála og/eða lögfræði.

Leiðtogar/afrek á sviði menntamála.

Störf /afrek á sviði menningar.

Störf á sviði siðferðis- og/eða umhverfismála.

Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda.

Störf á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála.

Störf á sviði tækni og vísinda.

Einstaklingssigrar og/eða afrek.

Störf /uppgötvanir á sviði læknisfræði.

 

Hægt er að senda inn tilnefningar með að smella á þennan link (fyrir 8. ágúst nk.):

http://framurskarandi.is/vilt-thu-tilnefna/#tilnefna

Kellingar hylltu heiðursborgara

fös, 19/07/2019 - 12:01

Hin árlega söguganga fór fram á Írskum dögum á Akranesi fyrr í mánuðinum. Gangan var á vegum Bókasafns Akraness og Skagaleikflokksins. Að þessu sinni voru óvenju margir þátttakendur, eða um 100 talsins, að sögn Hallberu Jóhannesdóttur, sem er ein af ,,Kellingunum,” eins og þær kalla sig.

Stansað var á nokkrum stöðum sem tengjast Braga Þórðarsyni og skrifum hans í gegnum tíðina. Lesið var úr bókum Braga og sungnir söngvar. Fyrsti viðkomustaður var Skátaheimilið. Síðan var haldið á Kirkjubraut og rifjaðar upp minningar úr Ævisögu Odds fréttaritara. Næsti viðkomustaður var Prentsmiðjan. Síðan haldið að Brekkubæjarskóla og rifjaðar upp skólaminningar Braga, einnig sungnar ,,Úmbrassavísur” – vísur Ólafs í Mýrarhúsum. Næst var stansað við gamla bókasafnshúsið á Heiðarbraut, en þar var Bragi stjórnarformaður um árabil. Þvínæst á horni Stekkjarholts og Kirkjubrautar (við Landakot) andspænis húsnæði Bókaskemmunnar og Hörpuútgáfunnar. Loks var haldið í Bókasafnið. Þar var boðið upp á hressingu og skemmtilegt söngatriði. Voru þátttakendur þakklátir ,,Kellingunum” fyrir skemmtilega stund.

Bjóða að nýju út lengingu Norðurgarðs

fös, 19/07/2019 - 11:01

Vegagerðin og Snæfellsbær auglýsa í Skessuhorni vikunnar að nýju útboð á lengingu Norðurgarðs í Ólafsvík. Verkið var boðið út í vor en einungis eitt tilboð barst og reyndist það um 80% yfir kostnaðaráætlun. Var því ákveðið að bjóða verkið út að nýju og rýmri tímafrestur gefinn við að ljúka því. Samkvæmt útboðsauglýsingu skal lengingu Norðurgarðs lokið fyrir september 2020. Lengja á hafnargarðinn um 80 metra og breyta núverandi garði meðal annars á þá lund að hægt verði að aka eftir honum. Frestur til að gera tilboð í verkið rennur út 30. júlí næstkomandi.

Benda á ábyrgar smitvarnir í tengslum við dýr

fös, 19/07/2019 - 10:01

Að gefnu tilefni vill Matvælastofnun hvetja alla til að stunda ábyrga hegðun varðandi snertingu við dýr, umhverfi þeirra og afurðir. Almennt hreinlæti og handþvottur er lykilatriði til að koma í veg fyrir að matvæli og fólk smitist.

„Undanfarnar vikur hefur fólk sýkst af eiturmyndandi E. coli (STEC) bakteríu á bænum Efstadal 2 og tengist það heimsóknum á bæinn. Vitað er að E. coli bakteríur lifa í þörmum dýra og eru í öllu umhverfi þeirra og eru almennt meinlausar. Í Efstadal er á ferð einstaklega skæður stofn, E.coli O026 og gæti þessi stofn verið víðar og því ber ætíð að gæta fyllstu varúðar í allri umgengni við dýr og meðferð matvæla í nálægð við dýr. Í þessu felst að þvo sér alltaf um hendur áður en matar er neytt og láta börn þvo sér eftir snertingu við dýr þar sem þau eru gjörn á að setja fingur oft í munn. Sótthreinsun með handspritti ein og sér er ekki nægjanleg, ætíð skal þvo hendur fyrst,“ segir í tilkynningu.

Til þess að sýkja fólk þá þarf bakterían að komast niður í meltingarveg um munn, svo sem með því að borða smituð matvæli eða sleikja óhreinar hendur. Sama á við um aðrar sjúkdómsvaldandi bakteríur sem geta verið til staðar í heilbrigðum dýrum. Vitað er að 60% sýkinga í fólki í heiminum eru súnur, en það eru sjúkdómar sem berast milli manna og dýra. Umgengni við dýr getur haft jákvæð áhrif á heilsu og líðan manna en hafa skal í huga að smitefni getur borist á milli manna og dýra.

Markaregn og dramatík

fös, 19/07/2019 - 09:39

Kári tapaði gegn Þrótti frá Vogum í dramatískum markaleik þegar liðin mættust í tólftu umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Leikið var í Akraneshöllinni í gærkvöldi.

Eitt mark var skorað í fyrri hálfleik og þar var á ferðinni Miroslav Babic, sem kom gestunum af Suðurnesjum yfir á 21. mínútu leiksins.

Hlynur Sævar Jónsson jafnaði metin fyrir Kára á 55. mínútu og þá var eins og opnað hefði verið fyrir flóðgáttir. Þremur mínútum síðar kom Guðmundur Marteinsson gestunum yfir á nýjan leik og á 62. mínútu skoraði Ingvar Ásbjörn Ingvarsson og kom Þrótti V. í 1-3.

Hlynur Sævar var aftur á ferðinni þegar hann minnkaði muninn í 2-3 á 66. mínútu og liðin búin að skora fjögur mörk á aðeins ellefu míntúna leikkafla.

Smá bið varð eftir næsta marki og lokamínúturnar æði dramatískar. Á 86. mínútu fengu Káramenn vítaspyrnu. Fyrirliðinn Andri Júlíusson fór á punktinn og jafnaði metin. Káramenn voru öflugri á lokamínútunum og virkuðu líklegri til að fara með sigur af hólmi. Það var því gegn gangi leiksins þegar Alexander Helgason skoraði fyrir Þrótt þegar komið var fjórar mínútur fram yfir venjulegan leiktíma. Þar með voru gestirnir búnir að stela sigrinum. Lokatölur í Akraneshöllinni voru 3-4, Þrótti í vil.

Kári situr í ellefta sæti deildarinnar með ellefu stig, tveimur stigum á eftir KFG í sætinu fyrir ofan. Næst mætir liðið Völsungi norður á Húsavík laugardaginn 27. júlí næstkomandi.

Lítur á þetta sem sumarleik og bendir á að aðrir séu á Face-appinu

fös, 19/07/2019 - 08:48

Björn Bjarki Þorsteinsson, fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð og núverandi framkvæmdastjóri Brákarhlíðar í Borgarnesi, varpaði fyrr í vikunni fram á facebook síðu sinni þeirri hugmynd, að hvetja Harald Benediktsson bónda á Vestra-Reini og fyrsta þingmann Norðvesturkjördæmis til að gefa kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Björn Bjarki segir umræðu að undanförnu í röðum Sjálfstæðismanna gefa tilefni til að leitað verði að mannasætti til forystu og þá gjarnan út fyrir raðir nýverandi forystu. „Það er fullt tilefni til að velta við steinum, ræða málin, og allt í fullri virðingu fyrir núverandi forystufólki Sjálfstæðisflokksins, sem allt er sómafólk,“ segir Björn Bjarki en bætir við: „Haraldur Benediktsson hefur sýnt með framgöngu sinni á Alþingi, í forystu fjárlaganefndar og í öðrum verkum að hann er skynsamur, lausnamiðaður og maður sátta þó þannig að það næst ætíð lending og verkin komast í framkvæmd – og það eru stórir kostir. Með hverjum deginum sem líður styttist í næsta landsfund Sjálfstæðisflokksins, er ekki fullt tilefni Haraldur til að hugsa málið,“ spyr Björn Bjarki.

Skessuhorn bar þessar vangaveltur undir Harald sjálfan sem neitar staðfastlega að nokkuð í þessa veru væri í farvatninu og hreint ekki í umræðunni. „Við Sjálfstæðismenn höfum prýðilegan formann og varaformann og þetta ágæta fólk er ekki á förum úr forystu flokksins. Ég lít því á þessa áskorun frá Bjarka sem svona léttan sumarleik, flestir aðrir eru hins vegar alveg uppteknir í Face-appinu,“ sagði Haraldur og hló.

Formaðurinn neitar staðfastlega

Því má við þetta bæta að Morgunblaðið bar undir Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins þá spurningu, hvort hann hygðist segja af sér formennsku, en sögusagnir hermdu að svo væri. „Það er enginn fótur fyrir þessum endurteknu sögusögnum. Þessar sögusagnir, eða slúður, má að mínu mati rekja til andstæðinga Sjálfstæðisflokksins, sem óska þess helst að ég hætti. Ég lít einfaldlega á slíkar óskir sem hrós, en þeim mun ekki verða að ósk sinni, því það er ekki að fara að gerast að ég hætti sem formaður flokksins,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins í Morgunblaðinu í dag.

Meira fæst fyrir fiskinn

fös, 19/07/2019 - 08:01

Útflutningsverðmæti sjávarafurða var 239,8 milljarðar á síðasta ári. Er það 17,8% meira en árið 2017, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. Flutt voru út rúmlega 670 þúsund tonn af sjávarafurðum á árinu 2018, sem er 61 þúsund tonni meira en árið áður. Frystar sjávarafurðir voru 42,7% af útflutningsverðmætinu, ísaðar 13,8% og mjöl/lýsi 27%. Sé litið til einstakra tegunda var verðmæti ísaðra þorskafurða mest, eða tæplega 39,4 milljarðar. Frystur þorskur var næstverðmætastur, eða um 35,3 milljarðar króna. Alls fengust 15,3% af heildarútflutningsverðmæti vegna útflutnings til Bretlands, 11,3% til Frakklands og þar á eftir koma Spánn, Noregur og Bandaríkin með rétt undir 10% hvert land. Eru það álíka hlutföll og árið 2017. Verðmæti útflutningsframleiðslu sjávarafurða, sem er samtala útflutnings og  birgðabreytinga sjávarafurða, var tæpir 240 milljarðar á síðasta ári. Er það 22% aukning frá árinu á undan. Á föstu verðlagi jókst útflutningsframleiðsla um 24% miðað við árið 2017.

Um hálft hundrað dauðra grindhvala á Löngufjörum

fös, 19/07/2019 - 07:35

Þyrluflugmaður og bandarískir ferðamenn sem hann flaug með fundu um hádegisbil í gær um fimmtíu dauða grindhvali á svokallaðri Gömlueyri, á Löngufjörum suður af Snæfellsnesi. Hvalirnir höfðu legið dauðir í sandinum í nokkra daga ef marka má myndir sem ferðamennirnir tóku. Ekki er akfært á þennan stað, en hægt að komast þangað fótgangandi og á hestum á fjöru. Talsverð umferð hestafólks fer jafnan um Löngufjörur á sumrin en hestafólk hafði ekki orðið vart við hvalina. Þekkt er að grindhvalir eiga það til að vaða í stórum hópum upp í fjörur en ástæðan ekki kunn.

Stækka kirkjugarðinn á Borg

fös, 19/07/2019 - 06:01

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í liðinni viku var samþykkt beiðni sóknarnefndar Borgarkirkju á Mýrum um framkvæmdaleyfi fyrir stækkun kirkjugarðsins á Borg. Byggðarráð samþykkti að veita leyfið og auk þess að einnar milljónar króna fjárheimild í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins, vegna framkvæmda í kirkjugörðum, renni til verkefnisins. Akstur jarðvegs í garðstæðið er hluti af því framlagi.

Síður