Kirkjur í Þjóðkirkjunni

Söfnuðu tveimur milljónum fyrir Fjölgreinastarf Lindakirkju

Lindakirkja - Miðv.d., 20/11/2019 - 23:50

Þau Árni Gunnar Ragnarsson og Guðlaug Rún Gísladóttir afhentu Fjölgreinastarfi Lindakirkju tæpar tvær milljónir króna í dag (20. nóvember). Peningarnir söfnuðust í áheitum í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst til minningar um son þeirra, Hlyn Snæ, en hann lést á síðasta ári. Hlynur Snær var mjög virkur í Fjölgreinastarfi Lindakirkju.
Tveir af vinum Hlyns úr Fjölgreinastarfinu, þeir Hálfdán Helgi Matthíasson og Róbert Ingi Þorsteinsson tóku við fénu fyrir hönd þess. Við afhendinguna var meðal annars sýnd stuttmynd um hlaupið Fyrir Hlyn og Unglingagospelkór Lindakirkju söng undir stjórn Áslaugar Helgu Hálfdánardóttur. Lindakirkja færir þeim Guðlaugu Rún og Árna Gunnari og öllum sem tóku þátt og lögðu lið hjartans þakkir fyrir framlagið. Blessuð sé minning Hlyns Snæs.

 

23. og síðasti sunnudagur eftir trínitatis, 24. nóvember 2019:

Áskirkja - Miðv.d., 20/11/2019 - 18:47

Messa og barnastarf kl. 11. Inga Steinunn Henningsdóttir og Jens Elí Gunnarsson annast samverustund sunnudagskólans. Sr. Sigurður Jónsson sóknarprestur prédikar og þjónar fyrir altari. Félagar úr Kór Áskirkju leiða sönginn. Organisti Bjartur Logi Guðnason. Kaffisopi í Ási eftir messu.

Guðsþjónusta á hjúkrunarheimilinu Skjóli kl. 13. Séra Sigurður Jónsson prédikar og þjónar fyrir altari. Organisti Bjartur Logi Guðnason. Almennur söngur. Vinir og vandamenn heimilisfólks velkomnir með sínum.

Krúttleg fjölskyldumessa kl.11 sunnudaginn 24. 11. ;)

Langholtskirkja - Miðv.d., 20/11/2019 - 18:44

Krúttakórinn, yngsti hópur, syngur í messu sunnudaginn 24. nóvember kl.11.

Auður, Sara og Guðbjörg leiða messuna, léttur hádegisverður í safnaðarheimilinu.

Að messu lokinni hefst svo laufabrauðgerð kvenfélagsins. Hægt að kaupa kökur á vægu verði sem verða svo steiktar.

Ekki er vitlaust að taka með sér box fyrir kökurnar !

Vertu velkomin/n !

The post Krúttleg fjölskyldumessa kl.11 sunnudaginn 24. 11. ;) appeared first on Langholtskirkja.

Krúttleg fjölskyldumessa :)

Langholtskirkja - Miðv.d., 20/11/2019 - 18:33

Krúttakórinn, yngsti hópur, syngur í messu sunnudaginn 24. nóvember kl.11. Auður, Sara og Guðbjörg leiða messuna, léttur hádegisverður í safnaðarheimilinu. Vertu velkomin/n !

Að messu lokinni hefst svo laufabrauðgerð kvenfélagsins. Hægt að kaupa kökur á vægu verði sem verða svo steiktar. Ekki er vitlaust að taka með sér box fyrir kökurnar !

The post Krúttleg fjölskyldumessa :) appeared first on Langholtskirkja.

Kvöldkirkjan fimmtudaginn 21. nóvember

Hallgrímskirkja - Miðv.d., 20/11/2019 - 14:40

Allir, sem koma inn í Hallgrímskirkju fimmtudagskvöldið 21. nóvember ganga inn í kyrrð og rökkvaða kirkju með kertaljósum. Þetta kvöld verður fyrsta kvöldkirkjan, sem er samvinnuverkefni presta og starfsfólks Hallgrímskirkju og Dómkirkju. Kvöldkirkja verður frá kl. 17 til 21,30 og verður fyrst um sinn einu sinni í mánuði, fyrst í Hallgrímskirkju og í Dómkirkjunni eftir áramótin.

Af hverju kvöldkirkja? Margt fólk upplifir samskipti fólks yfirborðsleg og ekki nærandi. Við prestarnir vitum, að margir leita einhvers, sem er djúptækt og persónulega gefandi í glundroða nútímans. Allir vilja jákvæða reynslu sem ógnar ekki eða spillir, heldur róar og kyrrir. Sunnudagsmessur og kyrrðarstundir dagkirkjunnar eru magnaðar en höfða þó ekki til allra.

Tilgangur kvöldkirkjunnar er að opna trúarheiminn fyrir fólki, sem finnur sig ekki í venjulegu helgihaldi dagkirkjunnar. Kvöldkirkjan er öðru vísi en hefðbundnu helgistundirnar, sem fólk hefur áður upplifað. Hún er ekki á sunnudegi heldur á virkum degi. Fólk er ekki bundið við kirkjubekkina, heldur hefur möguleika að ganga um kirkjurýmið, setjast niður, færa sig og finna nýja stað. Svo hefur fólk möguleika að tjá sig og tilfinningar sínar, skila inn í helgirýmið spurningum, líka reiði og sekt, sem sé túlka stóru lífsmálin og skila þeim til Guðs. Tilfinningarnar má svo líka setja á blað. Bænir eru tjáðar og iðkaðar með ýmsu óhefðbundnu móti í kvöldkirkjunni.

Þögn er mjög áberandi einkenni kvöldkirkjunnar. En orð hljóma þó á slökunarstundum og íhugunum. Þau, sem koma í kvöldkirkju, ganga inn með kyrrlátum hætti. Fólk talar um hversdagsmál sín utan kirkjunnar. Stundum verður tónlistarflutningur í kvöldkirkjunni. Og sá flutningur er ekki eins og á tónleikum, heldur þjónar aðeins íhugun og slökun. Eitt hljóðfæri verður stundum notað eða orðlaus söngur mannsraddar.

Fólk hefur frelsi til að vera það sjálft í hinu heilaga rými. Mikill hreyfanleiki er stíll kvöldkirkjunnar. Fólk situr ekki lengi, heldur rölta margir um kirkjuna í kyrrð og hlustar á sitt innra hvísl eða önnur hljóð rýmisins. Sumir eru lengi inni í kirkjunni og aðrir stutt. Mörgum hentar jafnvel að leggjast á kirkjubekki eða á dýnur til að stilla sinn innri mann og tengja við tákn og hljóma kirkjunnar. Sumir kveikja á kerti til íhugunar eða sem bænakerti. Aðrir krjúpa einhvers staðar í kirkjunni.

Kvöldkirkjan reynir að gefa fólki gott næði. Myndatökur eru t.d. ekki heimilaðar því þær trufla. Það er gott að fara í kvöldkirkjuna í Hallgrímskirkju og svo geta menn farið á pöbbinn eða út að borða og líka komið við í kirkjunni á leiðinni heim.

Dómkirkjuprestarnir, Elínborg Sturludóttir og Sveinn Valgeirsson, og Hallgrímskirkjuprestarnir, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson, auk kirkjuvarða, sjá um efni kvöldkirkjunnar. Grétar Einarsson, kirkjuvörður í Hallgrímskirkju, er í stýrihópnum.. 

(Myndir með greininni: Sigurður Árni)

Kertaljósastund kl 20 sunnudaginn 24. nóvember

Hafnarfjarðarkirkja - Miðv.d., 20/11/2019 - 14:18

Sönghópurinn Fjarðartónar syngur gospel- og íhugunarsálma undir stjórn Keith Reed. Sigurbjörn Þorkelsson flytur íhuganir. Sr Jón Helgi Þórarinsson leiðir stundina. Hægt verður að kveikja á kertum við fyrirbænir og í minningu látinna ástvina. Verið velkomin.

Messa og sunnudagaskóli kl 11 sunnudaginn 24. nóvember

Hafnarfjarðarkirkja - Miðv.d., 20/11/2019 - 14:16

Síðasti sunnudagur kirkjuársins. Egill Friðleifsson flytur hugvekju. Prestur sr Jón Helgi Þórarinsson. Organisti Guðmundur Sigurðsson. Félagar í Barbörukórnum syngja. Sigríður og Jasper sjá um fjölbreytta dagskrá í sunnudagaskólanum. Hressing eftir stundina.

Predikun Vilborgar Bjarkadóttur 17. nóvember 2019 í Lágafellskirkju

Lágafellskirkja - Miðv.d., 20/11/2019 - 12:59

Góðan daginn, gaman að sjá ykkur í hér Lágfellskirkju á þessum fallega degi

Þegar ég var beðin um að halda þessa ræðu, fór ég að velta því fyrir mér hvaða orð úr Biblíunni höfðu haft mest áhrif á mig. Upp í hugann kom endurminning frá fermingarfræðslu minni. Ég sat við gluggann hér í Lágafellskirkju og presturinn las upp úr Fyrra bréfi Páls postula til Korintumanna, hinu svokallaða kærleiksbréfi:

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.

Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.

Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,

Hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.

Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.

Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Það var eitthvað ógleymanlegt við þessa stund, því ég varð yfir mig heilluð af lýsingunni á kærleikanum. Bréfið náði með tungumálinu einu að vekja kærleika og ég fann eitthvað hafði breyst innra með mér eftir lesturinn. Kærleikurinn lá ekki lengur í orðunum heldur fann ég hann seytla innra með mér.

Tilefni þessarar ræðu er að í gær var dagur íslenskar tungu og einnig afmælisdagur skáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Á þessum degi vakna upp hjá mörgum spurningar um stöðu íslenskunnar. Spurningar eins og hversu lengi mun íslenskan sem er töluð af svona fáum lifa áfram? Íslenskan er menningararfur, hún hefur ekki eingöngu verið notuð af fólki í samtímanum, heldur einnig af fyrri kynslóðum. Sérhver kynslóð heldur áfram að bæta við og þróa tungumálið. Flest orðin sem við segjum eru ekki notuð í fyrsta skipti, þau voru jafnvel notuð fyrir mörgum öldum. Við bindumst fyrri kynslóðum þegar við notum gömul orð, en þróum einnig tungumálið með nýyrðum og nýjum nálgunum.

Það er vandasamt að smíða orð. Og Jónas Hallgrímsson var mikill frumkvöðull á því sviði. En það er einnig vandasamt að varðveita tungumál. Við geymum það ekki eins og gömlu handritin okkar eða eins og við geymum hluti undir gleri. Við gerum það með því að nota tungumálið, nota orðaleiki, með því að veita tungumálinu eftirtekt, með því að gefa okkur tíma til þess að lesa á íslenskri tungu, með því að vera opin á hvaða aldri sem er að læra ný orð, og með því að virkja sköpunarkraft og nýjungar sem verða til í tungumálinu. Við viljum nefnilega að tungumálið þjóni okkur eins og það þjónaði fyrri kynslóðum. Samfélag breytist og þannig þarf tungumál einnig að breytast. Ný orð verða til, gömul orð ganga í endurnýjun lífdaga og önnur orð verða úrelt.

            Tungumálið hefur breyst mikið frá því þegar ég var barn. Til dæmis hefur notkunin á orðinu að elska í samfélaginu aukist mjög mikið. Börn segjast elska foreldra sína og foreldrar segjast elska börn sín. Auðvitað elskuðu foreldrar fyrri kynslóða börnin sín engu minna, eftir vill notuðu önnur orð.

            Við nánari lestur á kærleiksbréfinu, sem ég hreifst svo mikið af í fermingarfræðslunni, sá ég að það fjallaði heilmikið um tungumálið. Til dæmis fyrstu vers 13. kafla:

Þótt ég talaði tungum manna og engla

en hefði ekki kærleika

væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.

Og þótt ég hefði spádómsgáfu

og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking

og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað

en hefði ekki kærleika,

væri ég ekki neitt.

Þessi orð fengu mig til þess að hugsa um það að ef íslenskan væri ekki notuð til þess að tjá ást og kærleika, væri hún hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og jafnvel þótt íslenskan væri notuð til þess að yrkja fagran skáldsskap og skrifa merk vísindarit, væri hún lítilsverð ef hún væri ekki notuð til þess að tjá kærleika.

Vissulega hefur ástin verið margoft tjáð á íslensku, og auðvelt er að vísa í ljóð skáldanna. Ég hafði oft heyrt Íslendinga syngja á ensku um ástina án þess að hafa velt því fyrir mér á nokkurn hátt. Raunar ólst ég upp við að heyra lög þar sem “I love you” kom endalaust fyrir.

En ég man ennþá eftir því þegar ég var rúmlega tvítug og heyrði írska söngvaskáldið Damien Rice koma fram í Hljómskálagarðinum. Hann hefur gert garðinn fræga með því að raula um ástina á ensku með kassagítarinn að vopni. Í lok tónleikana kom hann öllum á óvart með því að syngja eitt lag á íslensku. Það var eitthvað einstakt við að heyra hann syngja þekkta íslenska vögguvísu með þykkum enskum hreim.

Sofðu unga ástin mín,
– úti regnið grætur.
Mamma geymir gullin þín,
gamla leggi og völuskrín.
Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.

Það var áhrifaríkt að heyra ljóð Jóhanns Sigurjónssonar sungið með þessum hætti. Það minnti á að íslenskan er í dag töluð af fleirum en þeim sem hafa hana að móðurmáli. Íslenskan er ekki einungis fyrir Íslendinga og Damien Rice náði vel að dreifa ást og kærleika með flutningi sínum um garðinn.

Kannski mun íslenskan einhvern tímann líða undir lok en kærleikurinn eflaust lifa lengur. En á meðan íslenskan lifir þá verðum við að muna að hún er okkar helsta verkfæri til þess að breiða út kærleikann. Og ég mun enda mína ræðu, með einni tilvitnun í viðbót úr Kærleiksbréfinu.

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok,

og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.

Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum.

En þegar hið fullkomna kemur líður það undir lok sem er í molum.

Guðsþjónusta í Mosfellskirkju

Lágafellskirkja - Miðv.d., 20/11/2019 - 11:52

Guðsþjónusta í Mosfellskirkju sunnudaginn 24. nóvember kl. 11:00. Kirkjukór Lágafellssóknar syngur undir stjórn Þórðar Sigurðarsonar organista. Sr. Arndís G. Bernhardsdóttir Linn leiðir helgihaldið. Verið öll velkomin.

Sunnudagaskóli er í Lágafellskirkju kl. 13:00. Umsjón hafa Sigurður, Petrína og Þórður.

Sunnudagaskóli 24. nóvember

Kópavogskirkja - Miðv.d., 20/11/2019 - 11:25

Sunnudagsskóli verður sunnudaginn 24. nóvember kl. 11:00 í safnaðarheimilinu Borgum. Söngur og sögur úr Biblíunni við hæfi yngri barna.

Tónlistarmessa

Kópavogskirkja - Miðv.d., 20/11/2019 - 11:24

Í tónlistarmessu 24. nóvember kl.11:00 verða sungnir nýjir sálmar eða nýlegir sálmar. Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová. Sr. Sigurður Arnarson, prédikar og þjónar fyrir altari.

Kyrrðarstund

Hallgrímskirkja - Miðv.d., 20/11/2019 - 11:00
Ljósmyndari: SÁÞ

Fimmtudaginn 21. nóvember kl. 12 er kyrrðarstund.
Dr. Sigurður Árni Þórðarson hugleiðir og
Björn Steinar Sólbergsson organsti leikur á orgelið í kyrrðarstundinni.

Eftir kyrrðarstund verður seld súpa og brauð á vægu verði í Suðursal.

Allir velkomnir.

Sunnudagur 24. nóvember.

Glerárkirkja - Þri, 19/11/2019 - 14:33

Fjölskylduguðþjónusta kl. 11:00. Sunna Kristrún djákni þjónar. Barna- og æskulýðskór Glerárkirkju syngur undir stjórn Margrétar Árnadóttur kórstjóra. Undirleikari: Valmar Väljaots. Gospelmessa kl. 20:00. Gospelraddir Akureyrar syngja. Píanó: Risto Laur. Sr. Stefanía G. Steinsdóttir leiðir stundina.

Sorg, samtal og kyrrð

Hallgrímskirkja - Þri, 19/11/2019 - 13:53

Sorg, samtal og kyrrð
Miðvikudaginn 20. nóvember kl. 17

Á morgun, í Norðursal mun sr. Sigrún Óskarsdóttir, prestur og starfsmaður Útfarastofu kirkjugarðanna fjalla um erindið: Jólin koma. Koma jólin? Sorg í nálægð jóla.   Eftir erindin verður boðið til samtals þar sem hægt er að spyrja spurning, deila reynslu eða þiggja góð ráð á ferðinni um veg sorgarinnar en fyrirlesararnir leiða samtalið.   Kaffi, te og eitthvað til að maula með og að sjálfsögðu eru allir velkomnir.

Foreldramorgnar í kórkjallara

Hallgrímskirkja - Þri, 19/11/2019 - 12:17

Foreldramorgnar eru í kórkjallaranum alla miðvikudagsmorgna kl. 10 – 12. Kríli, krútt og foreldrar eru hjartanlega velkomin! Umsjón: Kristný Rós Gústafsdóttir, verkefnastjóri- og djákni og Ragnheiður Bjarnadóttir, tónmenntakennari.

Árdegismessa

Hallgrímskirkja - Þri, 19/11/2019 - 12:16
Árdegismessa
Miðvikudaginn 6. nóvember kl. 8

Sr. Sigurður Árni Þórðarson messar ásamt messuþjónum. Morgunmatur eftir messu. Kjörin leið til þess að byrja daginn snemma!

Allir hjartanlega velkomnir.

Messur og fræðsludagskrá um Bob Dylan

Grafarvogskirkja - Þri, 19/11/2019 - 11:35

Messur og fræðsludagskrá um Bob Dylan sunnudaginn 24. nóvember.

Messa kl. 11:00 í Grafarvogskirkju. Séra Arna Ýrr Sigurðardóttir prédikar og þjónar. Kór Grafarvogskirkju leiðir söng og organisti er Hákon Leifsson.
Kl. 12.00 verður fræðsludagskrá um um Bob Dylan og trúarstef í verkum hans. Fríða Dís Guðmundsdóttir, söngkona og Finnbjörn Benónýsson, gítarlekari flytja valin lög eftir Dylan. Sr. Henning Emil Magnússon flytur erindi um lífsspeki Bob Dylan.

Sunnudagaskóli á neðri hæð kirkjunnar kl. 11:00. Umsjón hafa Þóra Björg Sigurðardóttir og Hólmfríður Frostadóttir. Undirleikari er Stefán Birkisson. Syngjum, hlustum á sögu og höfum gaman.

Selmessa kl. 13:00 í Kirkjuselinu. Séra Guðrún Karls Helgudóttir prédikar og þjónar. Organisti er Hákon Leifsson og Vox Populi leiðir söng.

Farskóli fyrir aðstoðarfólk í barnastarfi!

Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi - Þri, 19/11/2019 - 11:24

Helgin 8.-10 nóvember var fróðleg og skemmtileg fyrir aðstoðarfólk í barnastarfi á norður og austurlandi. Farið var á námskeið í kirkjumiðstöðina á Eiðum þar sem hittust rúmlega 20 krakkar og fræddust um kirkjustarf, leiki og fleira undir góðri stjórn Jóhanns Þorsteinssonar. Helgin tókst mjög vel og stóðu krakkarnir sig vel í leikjum og starfi. Dagskráin var þéttsetin, en samanstóð mikið af allskonar leikjum og verklegum æfingum.  Þetta námskeið  er skipulagt yfir tvo vetur og verður næsta námskeið haldið á vorönninni, en þá verður það á Norðurlandi.

Við getum verið stolt af þessum flottu krökkum sem sinna góðu starfi í kirkjunum.

Síður

Subscribe to Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall aggregator - Kirkjur í Þjóðkirkjunni