Kirkjuklukkum hringt gegn einelti og kynferðisofbeldi

Kirkjuklukkum verður hringt fimmtudaginn 8. nóvember til að kalla okkur til að berjast í umhverfi okkar gegn einelti og kynferðisofbeldi.

„Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er“ segir í þjóðarsáttmála sem undirritaður var þann 8. nóvember 2011, á degi gegn einelti.

Árlegur dagur gegn einelti og kynferðisofbeldi í öllum aldurshópum á heimsvísu hjá 193 aðildarfélögum Sameinuðu Þjóðanna verður haldinn skv. venju 8. nóvember n.k.  

Hér er um íslenskt frumkvæði að ræða.  Er fólk um allan heim hvatt til að sýna samstöðu í baráttunni gegn einelti og kynbundnu ofbeldi með því að hringja alls konar bjöllum kl. 13 að staðartíma hvers lands.

 

Kirkjuklukkum skal hringt í sjö mínútur kl. 13 – 13:07, í eina mínútu fyrir hvern dag vikunnar.

Einelti er því miður staðreynd víða og afleiðingar þess skelfilegar.  Það sama á við um kynferðisofbeldi.  Markmiðið er að uppræta hvorutveggja og þátttaka í klukknahringingu um heim allan þennan dag er liður í því.  Þjóðkirkjan boðar trú á kærleiksríkan Guð sem elskar öll sín börn og hefur þéttriðið þjónustunet í kringum landið.  Látum hljóm klukknanna hringinn í kringum landið minna okkur á vonina um betra líf og sigur hins góða. 

Kirkjuklukkum verður líka hringt í Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakalli, það er í Ólafsvíkurkirkju klukkan 13 í 7 mínútur.
Ekki verður hringt í hinum kirkjunum, en þar mundu fáir heyra í þeim, en klukkur Ólafsvíkurkirkju hljóma fyrir þær einnig.
Leggjumst öll á eitt og berjumst gegn einelti og kynferðisofbeldi .